1. mars 2002 | Minningargreinar | 2262 orð | 1 mynd

STEFÁN JÚLÍUSSON

Stefán Júlíusson rithöfundur fæddist í Þúfukoti í Kjós 25. september 1915. Hann lést á Sólvangi í Hafnarfirði 20. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Helga Guðmundsdóttir húsmóðir, f. í Hafnarfirði 3.8. 1888, og Júlíus Jónsson verkamaður, f. í Reykjavík 1.7. 1891. Systkini Stefáns voru Sigurjón bóndi, f. 4.5. 1914, Karl Kristján verkamaður, f. 19.2. 1920, Jóhannes bókbindari, f. 5.7. 1922, Vilbergur skólastjóri, f. 20.7. 1923, Guðlaug, f. 1.10. 1924, og Bjarni, f. 19.10. 1925. Þau eru öll látin. Stefán kvæntist Huldu Sigurðardóttur kennara, f. 18.2. 1922. Sonur þeirra er Sigurður B. Stefánsson, f. 25.2. 1947, kvæntur Kristínu Bjarnadóttur, f. 9.1. 1950. Synir þeirra eru Stefán Bjarni, f. 19.10. 1974, kvæntur Lilju Maríu Sigurðardóttur, f. 14.5. 1975, og Sveinn Birgir, f. 22.7. 1979, kvæntur Claudiu Avila, f. 3.5. 1975.

Stefán tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1936, BA-próf í bókmenntum og ensku frá Carleton College í Northfield í Minnesota, Bandaríkjunum, 1943, stundaði nám í uppeldisfræðum og skólarekstri við Columbia University í New York 1941 til 1942 og var við nám í nútímabókmenntum við Cornell University í Íþöku í Bandaríkjunum 1951 til 1952. Hann var kennari, yfirkennari og skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar 1936 til 1955, kennari og yfirkennari Flensborgarskóla 1955 til 1963, forstöðumaður Fræðslumyndasafns ríkisins 1963 til 1969, bókafulltrúi ríkisins 1969 til 1977 og framkvæmdastjóri Hjartaverndar og ritstjóri 1977 til 1990. Hann var auk þess virkur í flokksstarfi Alþýðuflokksins frá æskuárum fram að miðjum áttunda áratugnum. Hann var bókavörður um skeið, blaðamaður 1956 til 1958, sat í fræðsluráði Hafnarfjarðar, skólanefnd Iðnskólans, stjórn Kaupfélags Hafnarfjarðar, bókasafnsstjórn o.fl. Hann var ritari og formaður Félags íslenskra rithöfunda, formaður og varaformaður Rithöfundasambandsins eldra 1958 til 1969, fyrsti varaformaður Rithöfundasambandsins yngra 1969, í útvarpsráði 1972 til 1978 og varamaður 1958 til 1972 auk þess sem hann var fyrsti formaður Rithöfundasjóðs og í fyrstu stjórn Kvikmyndasjóðs. Hann var í framkvæmdastjórn Hjartaverndar 1971 til 1991 og umdæmisstjóri Rotaryhreyfingarinnar á Íslandi 1987 til 1988. Stefán Júlíusson var afkastamikill rithöfundur og skrifaði skáldsögur, barnabækur, greinar og frásagnir. Á meðal verka hans eru Kárabækurnar en auk þess þýddi hann fjölda barna- og unglingabóka.

Útför Stefáns fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag og hefst útförin klukkan 15.

Rúmir sex áratugir eru síðan ég vissi fyrst af Stefáni Júlíussyni þegar ég, tæplega 10 ára stráklingur, las fyrstu bók hans, Kári litli og Lappi, sem kom út árið 1938. Mér er það enn í fersku minni að mér fannst bókin sú besta sem ég hafði fram að þessu lesið og lengi síðan. Kynnin urðu síðar meiri og persónulegri eftir að Stefán kvæntist frænku minni, Huldu Sigurðardóttur, árið l946 og þótti mér, unglingnum, líklegt að sá ráðahagur mundi verða fjölskyldunni til giftu og virðingarauka sem og varð. Stefán var þá þegar þekktur barnabókahöfundur þótt segja megi að langur og farsæll rithöfundarferill hans hafi um það bil verið að hefjast á þessum árum.

Ákveðin skil má greina á þeim ferli árið 1950 en það ár kom út bók sem ber heitið Leiðin lá til Vesturheims, höfundarnafn Sveinn Auðunn Sveinsson.

Almennt könnuðust menn ekki við þennan höfund og þeirra á meðal var ég. Ég las þessa bók og þótti hún góð. Síðar upplýstist að höfundur var enginn annar en Stefán Júlíusson.

Stefán var afkastamikill rithöfundur um sína ævidaga enda þótt ritstörfin teldust hjáverk að jafnaði lengst af. Kennsla og störf að skólamálum urðu aðalviðfangsefni hans. Hann hlýtur að hafa verið góður kennari svo natinn sem hann var að leiðbeina og upplýsa. Síðar á ævi veitti hann forstöðu Fræðslumyndasafni ríkisins og hann var bókafulltrúi ríkisins um árabil. Hann var mikill félagsmálamaður og kom þar víða við, ekki hvað síst á sviði félags- og hagsmunamála rithöfunda.

Á tímum síðari heimsstyrjaldar lá leið Stefáns til Vesturheims til náms í kennslu- og uppeldisfræðum sem hann stundaði í New York-borg og víðar. Má leiða að því líkur að rekja megi rætur skáldsögunnar áðurnefndu, Leiðin lá til Vesturheims, til þess tíma. Þegar ég síðar fór sjálfur til framhaldsnáms í New York-borg fékk ég ítarlegar leiðbeiningar og upplýsingar frá Stefáni um flest það sem máli skipti þar um slóðir. Einnig lét hann mér í té nöfn og heimilisföng nokkurra vina sinna og kunningja sem þar bjuggu og trúi ég að

hann hafi jafnvel sent þeim línu um komu mína þangað.

Nú er Stefán allur. Merkur maður er horfinn af sjónarsviði okkar. Hans er saknað af mörgum. Honum eru þökkuð löng og góð kynni. Sérstakar þakkir fyrir vinsemdina við fjölskylduna sem bjó í mörg ár á Bergþórugötu 15.

Samúðarkveðjur frá okkur Maríu til Huldu eiginkonu hans og Sigurðar Birgis sonar þeirra og hans fjölskyldu.

Haukur Þórðarson.

Kveðja frá Hjartavernd

Árið 1972 var Stefán Júlíusson rithöfundur kosinn í aðalstjórn Hjartaverndar. Stefán sat óslitið í stjórninni til 1990 en lét þá af störfum að eigin ósk. Hann var kosinn í framkvæmdastjórn félagsins 1977. Sama ár var Stefán skipaður útgáfu- og félagsmálastjóri Hjartaverndar og tók þá jafnframt sæti í ritstjórn tímaritsins "Hjartaverndar" og var í reynd framkvæmdaritstjóri þess allt til 1997. Í framkvæmdastjórn sat Stefán til 1990.

Hjartavernd naut þannig starfskrafta Stefáns í meira en tuttugu ár. Það var ekki lítill fengur fyrir samtökin að fá til starfa mann með þá reynslu sem hann hafði bæði af ritstörfum og félagsmálum. Eftir að Stefán tók við starfi útgáfu- og félagsmálastjóra hjá Hjartavernd var eitt aðalverkefni hans fræðsla fyrir almenning um hjartaverndarmál. Eins og kunnugt er hafði Hjartavernd starfrækt rannsóknarstöð allt frá árinu 1967 til þess að afla upplýsinga um hjarta- og æðasjúkdóma meðal Íslendinga sem gætu lagt grundvöll að árangursríkum forvörnum í baráttunni við þessa sjúkdóma. Nauðsynlegt var að kynna niðurstöður þessara rannsókna sem best, bæði almenningi og heilbrigðisstarfsmönnum. Í þessu efni var Stefán mikilvirkur. Hann skrifaði fjölda greina í tímaritið "Hjartavernd" auk þess að kynna niðurstöður rannsóknanna í öðrum fjölmiðlum. Það er vissulega ánægjulegt að tíðni hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi hefur lækkað um helming sl. tvo áratugi. Það er trú okkar að margvíslegar forvarnir sem byggjast á niðurstöðum rannsókna Hjartaverndar eigi þar verulegan hlut að máli.

Stefán sinnti ýmiss konar samskiptum við hjartaverndarfélög erlendis fyrir hönd Hjartaverndar og sótti meðal annars nokkur þing Evrópusamtaka þessara félaga.

Stefán átti sæti í ýmsum nefndum sem fulltrúi Hjartaverndar, m.a. í undirbúningsnefnd að stofnun endurhæfingarstöðvar fyrir hjarta- og lungnasjúklinga í Reykjavík ásamt fulltrúum SÍBS og Landssamtaka hjartasjúklinga en stöðin tók til starfa 1988.

Eins og að framan getur átti Stefán sæti í aðalstjórn frá 1972 til 1990 og í framkvæmdastjórn félagsins frá 1977 til 1990. Störfum sínum í þessum stjórnum sinnti hann alla tíð af áhuga og samviskusemi. Fyrir langt og heilladrjúgt starf í þágu Hjartaverndar erum við, fyrrverandi samstarfsmenn hans, honum þakklát og vottum eftirlifandi eiginkonu hans, Huldu Sigurðardóttur, og syni samúð okkar.

Nikulás Sigfússon.

Kveðja frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar

Ég kom í heiminn um það leyti sem Stefán Júlíusson kom frá Ameríku úr framhaldsnámi í bókmenntum. Þá hafði hann þegar verið kennari í nokkur ár. Þegar hann kenndi mér síðar sem unglingi í Flensborgarskóla, var hann í mínum huga alltaf rithöfundurinn sem við krakkarnir vorum svo heppin að fá inn í tíma til okkar. Við Stefán vorum grannar og því fór ég oft hjá steinsteypta húsinu þeirra Huldu með dökku kvarsmulningsáferðinni við Brekkugötu. Gatan er bókstaflega sprengd inn í Hamarskotshamar og er fyrir sitt leyti eins konar minnisvarði um framfarahug og trú manna á mátt sinn og megin milli heimsstyrjalda. Handan götunnar er þverhnípt grjótstál eftir sprengingarnar og upp af því brött grasbrekka þar sem við krakkarnir lékum á spennandi háskasvæði. Uppi á Hamrinum stendur Flensborgarskóli eins og ósigrandi virki. Skólinn og hús Stefáns eru í fúnkisstíl, byggð á kreppuárunum. Það var ekki fyrr en í seinni tíð sem ég gerði mér grein fyrir því að með hreinstefnustíl sínum eru þau í raun einnig táknmyndir um bjarta sýn á betri tíma sem í engu skeytti um gamlar hefðir og úrelt lífsmunstur en stefndi á framfarir, réttlátt og fagurt mannlíf. Stefán var órofa hluti af þessu umhverfi. Grannur, lágvaxinn, háleitur, virðulegur í fasi en alltaf vingjarnlegur þegar hann talaði við okkur með sinni sérstæðu, syngjandi rödd. Stefán gekk í Alþýðflokkinn um fermingaraldur og hélt tryggð við hann æ síðan þótt ekki hafi hann af flokksforystunni verið talinn sérlega léttur í taumi, eins og hann skrifar á einum stað. Engu að síður voru honum falin ótal opinber trúnaðarstörf á vegum flokksins einkum þau sem snertu ungt fólk, skóla- og fræðslumál. Það var engin tilviljun því að fáum er gefin sú nærfærni sem alls staðar kemur fram í bókunum hans gagnvart ofurviðkvæmum tilfinningabrigðum í ungum hjörtum ekki síst ef ástin er annars vegar.

Stefán varð félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar 33 ára árið1948, tveimur árum eftir stofnun. Hann hafði því verið rótarýfélagi í rösk 53 ár þegar hann lést. Ekki fór hjá því að honum væru falin trúnaðarstörf þar sem annars staðar. Hann var einn af þessum 100 % mönnum sem við yngri félagarnir lærðum að virða. Það er að segja hann sleppti aldrei fundi og mætti annars staðar ef hann komst ekki á fund í heimaklúbbi. Forseti klúbbsins var Stefán 1960-61. Nánast frá stofnun hefur Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar veitt viðurkenningu þeim nemendum í skólum bæjarins sem hljóta hæstu einkunn á burtfararprófi. Sjálfgefið var að Stefán annaðist þessa athöfn. Þegar hann hafði kynnt fyrir klúbbfélögum nemendurna, sem hann þekkti oftast í tvo til þrjá ættliði, lýsti hann starfi og stefnu Rótarý fyrir gestunum. Alltaf lagði Stefán áherslu á það við unga fólkið að þetta væru ekki verðlaun fyrir einkunnir, þótt góðar væru, heldur væru hér reyndir menn úr atvinnulífinu að viðurkenna ástundun þeirra og ást á verkefnum skólans sem væri forsendan fyrir frábærum árangri. Stefán gegndi flestum embættum í klúbbstarfinu á meira en hálfrar aldar veru sinni þar. Eitt þeirra rækti hann af sýnilegri ánægju en það var starf söngstjóra sem hann hafði með höndum ásamt nafna sínum Jónssyni meðan beggja naut við og felst í að stýra almennum söng við upphaf hvers fundar. Þeir nafnarnir festu hefðina rækilega í sessi þegar þeir gáfu klúbbnum hundrað söngbækur sem Stefán tók saman árið sem klúbburinn varð fertugur 1986. Nafnbótina Paul Harris-félagi, sem klúbburinn leggur til fyrir vel unnin störf, hlaut Stefán árið 1985. Hann var umdæmisstjóri íslenska Rótarýumdæmisins 1987-88. Í framhaldi af því tók hann saman Handbók íslensku rótarýklúbbanna sem er grunnur að daglegu starfi þeirra og væri erfitt að vera án. Þegar okkar klúbbur varð fimmtíu ára 9. október 1996 skrifaði hann sögu klúbbsins. Í afmælisritinu segir Stefán að Rótarý sé ekkert mannlegt óviðkomandi. Mér finnst að þar hafi hann best lýst sjálfum sér, kannski sem góðum rótarýmanni. Tvisvar sinnum veittu alþjóðasamtök Rótarý Stefáni viðurkenningu fyrir störf í þeirra þágu. Fyrra sinnið 1991, þá Paul Harris-orðu með einum safírsteini og seinna skiptið árið 1997 orðu með tveimur safírsteinum. Heiðursfélagi RH var hann kjörinn sumarið 2001. Þegar Stefán varð 85 ára 25. september árið 2000 færði hann öllum klúbbfélögum nýtt sjálfsævisögulegt smásagnasafn með áritun og góðum óskum. Þær óskir fylgja honum nú á braut. Við, félagar í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar, kveðjum góðan vin með þakklæti og virðingu og stöndum með Huldu Sigurðardóttur, eftirlifandi eiginkonu Stefáns, ættingjum og vinum á viðkvæmri skilnaðarstund.

Sigurþór Aðalsteinsson,

forseti RH.

Sumir menn eru þannig að þú leggur lykkju á leið þína, til þess að að njóta samveru með þeim. Og endurfundir án tilefnis vekja með þér ánægju og gleði.

Stefán Júlíusson, sem nú er kvaddur, var þess háttar maður. Af honum geislaði vinátta, hlýja og viska sem allir gátu notið og ég og mitt fólk fengum að eiga ríkulegan hlut í. Vinátta Stefáns allar götur frá barnæsku var mér og mínum dýrmæt gjöf.

Strákhnokki í barnaskóla lagði ég lykkju á leið mína heim úr skólanum, ef ég sá kost á því að rölta nokkurn spöl með Stefáni. Leiðin í skólann var styst niður Suðurgötu og upp Lækjargötu en ef Stefán var á heimleið um svipað leyti og ég, kleif ég glaður með honum Brekkugötuna upp að Bröttugötu til þess að "skeggræða" við hann. Til þess hafði hann ávallt tóm og þolinmæði. Ekki man ég hvert var umræðuefnið, en hitt situr eftir að hann var uppalandi, mannræktunarmaður og heimsborgari. Himinklárt er að pilturinn ungi naut og nam af læriföðurnum á þessum göngutúrum, sem gjarnan enduðu á því að Stefán hjakkaði með stálbroddi regnhlífarstafsins utan með grjóthnullungi á nefndum gatnamótum, svona til áherslu orðum sínum. Þannig voru hin fyrstu kynni.

Stefán opnaði mörgum nýja heima. Skáldskapur hans og frásagnarlist voru ungum og öldnum uppspretta drauma. Menn fundu til með eða fundu sjálfa sig í persónum ritverka hans. Sú var tíð að Kári litli og hundurinn Lappi voru hluti af lifandi tilveru allra uppvaxandi Íslendinga. Aðrar persónur ritverkanna snertu marga með ýmsum hætti. En Stefán skóp ekki bara örlög í ritverkum sínum, heldur líka í hinum harða heimi dagsstrits og raunveruleika. Hann var eldheitur og óvæginn talsmaður lítilmagnans, róttækur umbótarsinni og fjandmaður kúgunar og helsis, hvort sem það átti sér rætur í kapítalískum öfgum eða kommúnistískri blindutrú. Hann var lýðræðissinnaður húmanisti og jafnaðarmaður. Óvæginn bardagamaður sinnar sannfæringar. Skeytin voru oft beitt og hinum særðu sveið stundum illa og létu skotmanninn stundum gjalda þess.

Kannski var Stefán líka örlagavaldur í lífi mínu. Hann gerði mig að leikara í einasta viðurkennda leikhlutverki lífs míns, tólf ára gömlum, jaðarhlutverki með einni framsagnarlínu en ógleymanlegri minningu. Síðar fékk Stefán mig í prófkjör rétt nýkominn úr háskólanámi, varla þrítugan. Af því varð síðar nokkur pólitísk saga, en jafnframt reynsla, sem hefur gagnast víðar.

Fundum okkar Stefáns og Huldu Sigurðardóttur eiginkonu hans bar oft saman með tilviljanakenndum hætti, bæði hér heima og erlendis, og alltaf nutum við samverustundanna. Samveran var ávallt áreynslulaus, eins og það væri jafnsjálfsagt að hittast þá frekar en fyrr eða síðar. Þau augnablik sem gáfust voru góð gjöf.

Það eru forréttindi og unaður að hafa fengið að njóta leiðsagnar, samveru og vináttu svo gjöfuls og góðs manns sem Stefán Júlíusson var. Fyrir það er ég og mitt fólk þakklátt.

Við Irma vottum Huldu, Sigurði og fjölskyldu innilegustu samúð.

Kjartan Jóhannsson.

Haukur Þórðarson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.