5. mars 2002 | Íþróttir | 1721 orð | 1 mynd

Ívar Ingimarsson hefur vakið athygli hjá Brentford og stefnir ótrauður á 1. deildina á Englandi

"Kominn tími til að stíga næsta skref"

Ívar Ingimarsson hefur leikið vel með Brentford og telur að liðið eigi góða möguleika á að vinna sig upp um deild.
Ívar Ingimarsson hefur leikið vel með Brentford og telur að liðið eigi góða möguleika á að vinna sig upp um deild.
Ívar Ingimarsson hefur ekki verið í hópi umtöluðustu atvinnuknattspyrnumanna Íslands til þessa. Hann hefur leikið með Brentford í ensku 2. deildinni frá því í nóvember 1999 og verið þar í byrjunarliði nánast frá fyrsta degi.
Ívar Ingimarsson hefur ekki verið í hópi umtöluðustu atvinnuknattspyrnumanna Íslands til þessa. Hann hefur leikið með Brentford í ensku 2. deildinni frá því í nóvember 1999 og verið þar í byrjunarliði nánast frá fyrsta degi. Nú er frammistaða hans með félaginu farin að vekja athygli og sjálfur stefnir Ívar að því að leika deild ofar á næsta tímabili. Víðir Sigurðsson fylgdist með Ívari í leik með Brentford á dögunum og ræddi við hann um gengi sitt og félagsins og framtíðarhorfurnar.

Í vetur hefur Brentford blandað sér af krafti í toppbaráttu 2. deildarinnar og Ívar er einn af hornsteinum liðsins en hann er sá eini sem hefur leikið alla leiki þess á tímabilinu; meira að segja hverja einustu mínútu í þeim öllum, og fengið mjög góða dóma fyrir frammistöðu sína. Ívar hefur lengst af sínum ferli leikið sem miðjumaður en nú er hann kominn í vörnina þar sem hann kann best við sig.

"Já, það er engin spurning að þetta er mitt besta tímabil hjá félaginu. Ég þakka það ekki síst því að ég er búinn að spila sömu stöðu allt tímabilið. Þegar Steve Coppell tók við liðinu í fyrrasumar lét hann mig strax á undirbúningstímabilinu spila alla leiki sem miðvörður og þar hef ég verið í öllum leikjum vetrarins til þessa. Fram að því hafði ég spilað hér og þar á vellinum, allar stöðurnar í þriggja og fjögurra manna miðju og allar stöður í bæði þriggja manna og fjögurra manna vörn, og var meira að segja í framlínunni um tíma. Ég var orðinn þreyttur á þessum tilfærslum og það er allt annað að geta einbeitt sér að einni stöðu."

Tek hiklaust þátt í sóknarleiknum

Þrátt fyrir að Ívar sé kominn aftar á völlinn hefur hann skorað fleiri mörk en áður og er fjórði markahæsti leikmaður Brentford í vetur með 5 mörk.

"Ég er þegar kominn með einu marki meira en allt tímabilið í fyrra og held vonandi áfram að lauma inn einu og einu. Ég fer fram í öllum föstum leikatriðum en ég hef samt skorað fjögur af þessum mörkum með því að taka lengur þátt í umræddum sóknum og þá með skotum frá vítateig. Ég hef ákveðið frelsi að þessu leyti, Coppell hefur aldrei skammað mig fyrir að taka þátt í sóknarleiknum og ég geri það hiklaust þegar færi gefst. En aðalhlutverk mitt er þó varnarleikurinn og ég einbeiti mér að honum."

Coppell hefur gjörbreytt liðinu

Brentford er það lið sem mest hefur komið á óvart í 2. deild í vetur en fæstir áttu von á að það ynni stór afrek í vetur.

"Gengi okkar er allt annað og betra en á síðasta tímabili. Við vorum efstir um tíma og höfum frá byrjun verið í hópi sex efstu liða. Coppell hefur gjörbreytt liðinu þótt leikmannahópurinn sé svipaður og í fyrra, og reyndar aðeins minni. Skipulagið er annað og betra og festan í öllu kringum liðið miklu meiri en áður. Coppell er mjög reyndur sem leikmaður og knattspyrnustjóri og veit nákvæmlega hvað hann vill. Árangurinn er sá að þetta lið sem endaði í neðri hluta deildarinnar í fyrra er nú að berjast um að komast upp í 1. deild."

Brentford hefur ekki sömu fjárhagslegu burði og flest hinna toppliðanna í 2. deild en Ívar telur að liðið eigi samt ágæta möguleika á að fara upp.

"Við erum búnir með rúmlega 30 leiki og erum enn í baráttunni þegar lokaspretturinn er framundan, þrátt fyrir að við ættum erfitt uppdráttar í kringum áramótin og töpuðum þá fimm leikjum í röð. Ef við lendum ekki í vandræðum með leikbönn og meiðsli erum við með nægilegan styrk til að fara alla leið. Það er mikil spenna í kringum félagið vegna þess hve vel okkur hefur gengið, stuðningsmennirnir áttu ekki von á þessu því okkur var yfirleitt spáð sæti í kringum miðja deild. Frammistaðan hefur því verið framar öllum vonum en ég hef fulla trú á að við getum haldið þetta út og unnið okkur sæti í 1. deild."

Samdráttur hjá Brentford eins og fleiri félögum

Brentford er oftar í fréttunum vegna ýmissa mála utan vallar en vegna frammistöðunnar innan vallar. Ron Noades, eigandi Brentford og fyrrum knattspyrnustjóri félagsins, er í stöðugu stríði við borgaryfirvöld. Hann vill fá að byggja nýjan leikvang og hefur meðal annars hótað að flytja félagið út fyrir London eða taka upp samstarf við annað félag um heimavöll, en hvorug hugmyndin á upp á pallborðið hjá stuðningsmönnum Brentford.

"Þessi órói í kringum félagið hefur verið viðvarandi síðan ég kom hingað í nóvember 1999. Þá vorum við í námunda við toppinn en eftir að umræða um að Noades væri að kaupa Crystal Palace fór í gang, dalaði liðið og menn voru að velta sér upp úr alls kyns hlutum. Noades er peningamaður, hann tapar á félaginu eins og staðan er í dag og ætlar ekki að halda því áfram. Hann vill að félagið reki sig sjálft. Þegar ég kom voru 36 leikmenn á samningi, nú eru þeir aðeins 24 og það hefur verið dregið saman á mörgum sviðum. Þetta er reyndar að gerast víða um England um þessar mundir, peningarnir eru í úrvalsdeildinni og að hluta í 1. deild en flest félögin í 2. deild tapa peningum. Það sem bjargar mörgum þeirra eru oft á tíðum ríkir eigendur sem taka tapið á sig með von um að liðin komist upp um deild og skili þá hagnaði."

Hlakka til að sjá hvað bíður mín í vor

Samningur Ívars við Brentford rennur út í vor og hann hefur því haft leyfi til að ræða við erlend félög frá áramótum. Hann hefur hins vegar lítið hugsað um þau mál.

"Það hefur ekkert verið rætt um samning við mig hjá Brentford og við erum einir tíu sem erum samningslausir í vor. Noades hefur reyndar sagt að hann semji við mig og þrjá aðra ef við vinnum okkur upp í 1. deild. Ég tel að það sé sterk staða fyrir mig að vera samningslaus, á meðan ég spila vel, og ég hlakka til að sjá hvað bíður mín í vor. Umboðsmaður minn, Ólafur Garðarsson, er að skoða mín mál ásamt enskum umboðsmanni og þeir segja mér að vera rólegur. Það eru lið að fylgjast með mér og hvað kemur út úr því skýrist væntanlega í vor. Ég einbeiti mér bara að því að halda áfram að spila vel, það er það eina sem ég get gert. Það er hins vegar engin spurning að ég vildi helst vera áfram hér í Brentford því okkur hefur liðið mjög vel hér í London og hjá félaginu. Það yrði meiriháttar gaman að komast upp í 1. deild, og mitt markmið er reyndar á hreinu. Ég ætla upp úr þessari deild eftir þetta tímabil, ég hef ekki hug á að spila í 2. deild á næsta tímabili. Ég vona hins vegar að ég þurfi ekki að fara frá Brentford til þess."

Aukaæfingar frá Gunnari Má

Eftir tæp þrjú ár í 2. deild telur Ívar að nú sé tími til að taka næsta skref.

"Ég veit að ég get vel spilað í 1. deildinni og hef fundið það í leikjum gegn liðum úr efri deildum. Við unnum Norwich í vetur og áttum fínan bikarleik gegn Newcastle þar sem við töpuðum í framlengingu. Mitt markmið er að spila áfram hér í Englandi því hér kann ég vel við mig, þótt ég myndi að sjálfsögðu skoða boð annars staðar frá ef þau bærust."

Það er afar krefjandi að spila hér því á hverju tímabili eru leiknir 46 deildaleikir og að jafnaði 8-10 bikarleikir fyrir utan það. Fyrir þetta tímabil velti ég ýmsu fyrir mér til að vera betur undirbúinn. Mér var þá bent á að tala við Gunnar Má Másson, fyrrverandi knattspyrnumann, sem er íþrótta- og hreyfifræðingur að mennt. Hann gaf mér mörg góð ráð sem ég hef farið eftir, auk þess sem ég er í reglulegu sambandi við hann og fæ hjá honum lyftingaáætlanir sem ég nota til viðbótar þessum venjulegu æfingum hjá Brentford. Það er ekki spurning að þetta hefur haft góð áhrif og ég get vel sagt að ég hafi aldrei verið í eins góðri æfingu og nú. Ég hef spilað alla leiki til þessa í vetur, enda æfi ég virkilega vel, gæti vel að því að ég fái næga hvíld og rétt mataræði, tek eins mikið af aukaæfingum og ég get og reyni að vera í toppstandi fyrir hvern leik. Þannig dregur maður um leið úr hættunni á meiðslum."

Í meistaraflokki frá 13 ára aldri

Þótt Ívar sé aðeins 24 ára gamall á hann að baki lengri feril sem meistaraflokksmaður en flestir jafnaldrar hans. Hann var nefnilega farinn að spila með meistaraflokki í sinni heimabyggð, Stöðvarfirði, aðeins 13 ára gamall, og lék þá með KSH, sameiginlegu liði Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur, í 4. deild.

"Já, ég var ekki orðinn 14 ára þegar þjálfarinn okkar, Helgi Arnarson, tók mig inn í meistaraflokkinn eftir að hafa rætt málið vel við mig og mína fjölskyldu. Það má segja að ég hafi farið beint úr 5. flokki í meistaraflokk! Ég var þokkalega stór og tilbúinn í þetta og það var meiriháttar reynsla að fá svona tækifæri. Ég spilaði í þrjú ár með meistaraflokki, fyrst með KSH og síðan KBS (Knattspyrnubandalagi Suðurfjarða) en sá þá að það þýddi ekki fyrir mig að vera lengur fyrir austan ef ég ætlaði mér að ná lengra í knattspyrnunni. Ég fór því suður og í Val og byrjaði þar á yngsta ári í 2. flokki en fór síðan að spila með meistaraflokknum í efstu deild árið eftir. Það er rétt, ég er búinn að vera lengi að og á samt nóg eftir. Nú er kominn tími til að stíga næsta skref því sá samningur sem ég geri í sumar verður til 2-3 ára og að honum loknum verð ég kominn á besta aldur sem knattspyrnumaður."

Ívar hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og hann spilaði sinn þriðja A-landsleik í janúar þegar Ísland mætti Kúveit.

"Það var ánægjulegt að fá þetta tækifæri til að spila heilan landsleik í fyrsta skipti því ég hafði aðeins komið inn á sem varamaður í tveimur fyrstu leikjum mínum, gegn Suður-Afríku og Póllandi. Þetta var mikil hvatning því ég stefni að sjálfsögðu að því að vinna mér sæti í landsliðinu. Þennan leik spilaði ég reyndar á miðjunni en ég vona að ég fái tækifæri sem miðvörður með landsliðinu, það er mín staða í dag. Landsliðið er á ákveðnum tímamótum um þessar mundir, ég tel að nú sé ákveðið lag til að vinna sér sæti í því og fái ég tækifæri ætla ég að nýta mér það," sagði Ívar Ingimarsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.