Áskorun um stofnun sögufélagsHinn 11. janúar 1902 sömdu þrír menn, Hannes Þorsteinsson ritstjóri, Jón Þorkelsson landsskjalavörður og Jósafat Jónasson (Steinn Dofri) ættfræðingur áskorunarskjal, sem þeir létu ganga manna á meðal, um nauðsyn á stofnun Söguf
Áskorun um stofnun sögufélagsHinn 11. janúar 1902 sömdu þrír menn, Hannes Þorsteinsson ritstjóri, Jón Þorkelsson landsskjalavörður og Jósafat Jónasson (Steinn Dofri) ættfræðingur áskorunarskjal, sem þeir létu ganga manna á meðal, um nauðsyn á stofnun Söguf
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SÖGUFÉLAG var stofnað 7. mars 1902. Stjórnin minntist aldarafmælisins með móttöku sl. fimmtudag í húsakynnum félagsins, Fischersundi 3. Hér á eftir verður stiklað á nokkrum atriðum í sögu félagsins sem telja má merkilega fyrir margra hluta sakir.
SÖGUFÉLAG var stofnað 7. mars 1902. Stjórnin minntist aldarafmælisins með móttöku sl. fimmtudag í húsakynnum félagsins, Fischersundi 3. Hér á eftir verður stiklað á nokkrum atriðum í sögu félagsins sem telja má merkilega fyrir margra hluta sakir.

Forgöngu um félagsstofnunina höfðu þrír einstaklingar, Jón Þorkelsson landsskjalavörður, Hannes Þorsteinsson ritstjóri og Jósafat Jónasson ættfræðingur (þekktari undir nafninu Steinn Dofri). Í upphafi ársins 1902 létu þeir þremenningar ganga áskorunarskjal þar sem lýst var ástæðum fyrir þessu framtaki. Þetta skjal (sem sjá má að hluta á mynd hér á opnunni) má kalla fæðingarvottorð félagsins, að viðbættri fundargerð sjálfs stofnfundarins. Í 1. grein laganna er slegið föstu að markmið félagsins sé "að gefa út heimildarrit að sögu Íslands" sem almenningi voru enn hulinn leyndardómur, eins og forgöngumennirnir komust að orði í áskorunarskjalinu.

Öflug heimildaútgáfa

Það var engin tilviljun að Sögufélag leit dagsins ljós í upphafi 20. aldar þegar hillti undir nýjan áfanga í sjálfstæðissókn landsmanna. Heimastjórn var á næsta leiti og mikil þörf á að styrkja vitund Íslendinga um sjálfa sig sem þjóð í fortíð og samtíð. Sögufélag var stofnað til að treysta grundvöll rannsókna á fortíð Íslendinga og skerpa sögulega vitund þeirra um sameiginlega reynslu í blíðu og stríðu. Að þessu marki vann félagið kappsamlega fyrstu áratugina undir forystu mikilvirkra fræðimanna sem stjórnuðu jafnframt þjóðskjalasafni landsins. Lengi framan af voru gefnar út árlega svo og svo margar arkir af þeim ritum sem unnið var að útgáfu á - og fór magnið eftir fjárveitingu hverju sinni. Fyrsta ritið sem komst út hjá félaginu í heild var Aldarfarsbók Páls lögmanns Vídalíns 1700-1709 (árið 1904). Meðal grundvallarrita sem félagið gaf þá út á fyrsta áratug starfsemi sinnar voru Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal og Æfisaga Jóns prófasts Steingrímssonar. Árið 1912 hófst útgáfa á Alþingisbókum Íslands - viðamesta heimildaflokknum sem félagið hefur fram til þessa komið á prent - seytján þykkum bindum - og nokkrum árum síðar á Landsyfirréttar- og hæstaréttardómum 1802-1873. Komið var langt fram á síðari helming aldarinnar sem leið þegar útgáfa þessara viðamiklu heimildaflokka var til lykta leidd. Heimildaútgáfa af þessu tagi hefði verið óframkvæmanleg án opinberra fjárstyrkja; þeirra hefur Sögufélag notið allt frá fyrstu tíð að kalla, reyndar í mjög mismiklum mæli eftir tímaskeiðum. Á síðari helmingi aldarinnar sem leið fór félagið að leggja sérstaka rækt við sögu Reykjavíkur og naut til þess styrkja úr bæjar-/borgarsjóði.

Útgáfa við almennings hæfi

Forgöngumennirnir höfðu skilning á því að heimildaritin skírskotuðu misvel til almennings. Þess vegna brugðu þeir á það ráð að gefa út safn læsilegra frásagnarheimilda í arkaformi undir heitinu Blanda (1918-1953). Þetta sérstæða tímarit flutti aðallega ýmiss konar heimildafróðleik ásamt stöku ritgerðum og hlaut brátt miklar vinsældir. Enn meiri lyftistöng fyrir félagið varð svo útgáfa þess á Þjóðsögum Jóns Árnasonar, að mestu ljósprentuð eftir frumútgáfunni í Þýskalandi á sjöunda áratug 19. aldar. Þessi útgáfa hófst árið 1925 og henni lauk rétt fyrir seinna stríð; þar sem þjóðsögurnar voru aðeins seldar félagsmönnum í Sögufélagi þótti mörgum til vinnandi að ganga í félagið með því að greiða árstillagið sem nam átta krónum, þar með gátu þeir líka fengið aðrar útgáfubækur félagsins á góðum kjörum. Þjóðsagnaútgáfan reyndist mikil lyftistöng fyrir félagið: 1924 voru félagsmenn um 500, en sex árum síðar voru þeir orðnir 1.155 - og hafa naumast orðið fleiri. Bóksali nokkur á Akureyri gerði sér lítið fyrir og útvegaði á einu ári 170 nýja félaga. Lítill hluti allra félagsmanna voru ævifélagar en það gátu menn orðið með því að greiða í eitt skipti 100 kr.; fengu þeir þá ókeypis öll rit er félagið gæfi út eftir það.

Fræðilegur metnaður

Upp úr síðari heimsstyrjöld dró verulega úr bolmagni félagsins til bókaútgáfu. Þar átti m.a. dýrtíðin hlut að máli sem og hitt að ekkert kom í stað þjóðsagnanna til þess að halda áhuganum vakandi. Kringum 1960 var fjöldi félagsmanna kominn niður fyrir 800. En jafnframt þessu lagði félagið meiri metnað í að efla sagnfræði í landinu sem lifandi fræðasamfélag. Árið 1950 hóf það útgáfu tímaritsins Sögu sem hefur æ síðan verið kjölfesta í starfi félagsins; áskrift að Sögu jafngildir aðild að félaginu. Eftir því sem sagnfræðirannsóknum óx fiskur um hrygg varð tímaritið Saga smám saman helsti faglegi vettvangur íslenskra sagnfræðinga og söguáhugamanna. Auk þess gaf félagið út tímaritið Nýja sögu í fimmtán ár. Nú hefur verið ákveðið að skipa tímaritaútgáfu félagsins þannig framvegis að Saga komi út í tveimur heftum á ári, vor og haust. Þar með hættir Ný saga að koma út.

Á síðustu áratugum hefur félagið lagt sig fram um að gefa út vönduð rannsóknarrit og yfirlitsrit um sögu lands og þjóðar. Til dæmis um fyrrnefnda flokkinn má nefna Endurreisn Alþingis og þjóðfundinn eftir Aðalgeir Kristjánsson (1993) og um síðarnefnda flokkinn Íslandssögu til okkar daga eftir Björn Þorsteinsson og Bergstein Jónsson (1991), rit sem náði mikilli útbreiðslu meðal almennings. Nú á afmælisárinu kemur út mikið rit um sögu Íslands á tuttugustu öld eftir Helga Skúla Kjartansson.

Félagsleg hollusta

Starfsemi Sögufélags hefur löngum byggst á ósérhlífinni hollustu við söguleg fræði og minningar. Það vekur eftirtekt hve margir af forystumönnum félagsins hafa setið í stjórn langan tíma af starfsævi sinni. Jón Þorkelsson var forseti félagsins í meira en tvo áratugi og Einar Arnórsson prófessor í heila þrjá áratugi (1935-1955), en í stjórn hafði hann setið allt frá 1910. Guðni Jónsson magister (síðar prófessor) sat í stjórn í þrjá áratugi, þar af sem forseti í fimm ár; mætti svo enn telja. En kalla má táknrænt að kona tók fyrst sæti í stjórn Sögufélags árið 1978, það var Sigríður Th. Erlendsdóttir. Nú skipa konur þrjú af sjö sætum í stjórn félagsins.

Víst er að án tryggra óbreyttra liðsmanna hefði Sögufélag ekki þrifist í heila öld. Ekki er óalgengt að menn fylgi félaginu í marga tugi ára. Nú mun elsti félaginn vera Guðmundur Ingi Kristjánsson á Kirkjubóli, 95 ára að aldri. Hann gekk í félagið árið 1933. Þá má nefna Guðbrand Þorkelsson, fyrrv. lögregluvarðstjóra, sem gekk í félagið árið 1942. Guðbrandur, sem er nú 86 ára gamall, átti fyrsta forseta félagsins fyrir afabróður. Slíkum dæmum um félagslega hollustu er vert að halda á loft á tímamótum sem þessum.

Sögufélag eignast samastað

Lengi framan af átti Sögufélag sér engan fastan samastað í tilverunni. Fundir voru lengi vel haldnir á vinnustað eða heimili forseta. Á þessu varð breyting árið 1975 í forsetatíð Björns Þorsteinssonar; þá fékk félagið inni í leiguhúsnæði í Garðastræti 13b (Hildibrandshúsi). Fyrir ellefu árum eignaðist félagið svo eigið húsnæði, Fischersund 3, og naut þar góðrar fyrirgreiðslu Reykjavíkurborgar. Öll þessi ár hefur Ragnheiður Þorláksdóttir, starfsmaður félagsins, verið persónugervingur þess í augum félagsmanna og viðskiptavina.

Til móts við nýja öld

Á langri vegferð hefur margt breyst í starfsumhverfi Sögufélags. Margir aðilar sinna nú útgáfu rita um söguleg efni og því liggur ekki jafnbeint við og áður fyrir áhugamenn um þau efni að halla sér að Sögufélagi.

Það er ekki aðeins heimildaútgáfa sem á á brattann að sækja, heldur verða vönduð sagnfræðirit nú vart gefin út án verulegra styrkveitinga af hálfu opinberra aðila eða einkaaðila. Í daglegri starfsemi félagsins kemur þó ekkert í stað þess liðsinnis sem hver og einn getur veitt félaginu með því að ganga í það og gerast þar með áskrifandi að tímaritinu Sögu.

Hvað sem líður hremmingum tímans er engan bilbug að finna á afmælisbarninu. Á síðasta ári setti félagið sér ný lög. Þau bera vott um að það vill áfram þjóna upprunalegu hlutverki sínu, treysta grundvöll rannsókna á sögu Íslendinga og veita almenningi hlutdeild í niðurstöðum þeirra. Á tímum óvissu og örra breytinga eins og þeim sem nú ganga yfir er ljóst að Sögufélag hefur mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku þjóð- og menningarlífi, ekki síður en í upphafi. Í þeirri fullvissu gengur félagið ótrautt á vit nýrrar aldar í starfsævi sinni.

EFTIR LOFT GUTTORMSSON

Höfundur er forseti Sögufélags.