Geðveikur og lokaður frá umheiminum. Russel Crowe í hlutverki John Nash í A Beautiful Mind.
Geðveikur og lokaður frá umheiminum. Russel Crowe í hlutverki John Nash í A Beautiful Mind.
John Nash gekk inn í setustofuna í MIT-háskólanum í Boston vetrarmorgun einn árið 1959 með eintak af New York Times í höndunum.
John Nash gekk inn í setustofuna í MIT-háskólanum í Boston vetrarmorgun einn árið 1959 með eintak af New York Times í höndunum. Án þess að beina orðum sínum að neinum sérstökum í stofunni tjáði hann viðstöddum að fréttin í horninu efst til vinstri á forsíðunni hefði að geyma dulin skilaboð frá verum í öðru sólkerfi, sem aðeins væru ætluð honum. Aðrir gætu ekki ráðið boðin. Honum hefði verið trúað fyrir leyndardómum alheimsins. Samkennarar hans litu á hann. Var maðurinn að grínast? Húmor Johns Nash var þannig, að menn voru ekki alveg vissir. En þetta var sannarlega ekki grín, heldur fyrstu sýnilegu merkin um alvarlegan geðsjúkdóm.

Þá var John Nash rúmlega þrítugur og í þann mund að taka við prófessorsstöðu sinni hjá MIT, búinn að kenna þar frá 1951. Þetta virðist hafa verið fyrsta alvarlega geðklofatilfellið sem hann varð fyrir. Geðklofi (paranoid schizophrenia) er einhver hræðilegasti, síbreytilegasti og dularfyllsti geðsjúkdómur sem um getur. Í næstu þrjá áratugi á eftir þjáðist John Nash af alvarlegum ranghugmyndum, ofskynjunum, buguðum vilja og ringulreið í hugsun og tilfinningum.

A Beautiful Mind er ævisaga stærðfræðingsins og Nóbelsverðlaunahafans Johns Forbes Nash, sem fæddist 13. janúar 1928. Höfundur bókarinnar er Sylvia Nasar, sem skrifar um efnahagsmál í New York Times. Hún lýsir ævi Nash og kenningum þeim sem færðu honum að lokum Nóbelsverðlaunin í hagfræði, en það sem gerir frásögnina umfram allt sérstaka er lýsing hennar á manni sem er fastur á milli snilli og geðveiki. Bókin er kveikjan að kvikmynd með sama nafni sem leikstýrt er af Ron Howard með Russel Crowe í hlutverki Johns Nash.

Leikjafræði í Princeton

John Nash hóf nám í stærðfræði í háskólanum í Princeton árið 1948. Á þeim tíma var Fine Hall í Princeton, þar sem stærðfræðideildin var til húsa, óumdeild miðstöð stærðfræði- og vísindaheimsins. Ekki aðeins var þar Institute for Advanced Study og Albert Einstein, heldur einnig John von Neumann, hinn töfrandi stærðfræðingur, sem átti drjúgan þátt í þróun nútíma tölva, en einnig stærðfræðikenninga sem liggja að baki vetnissprengjunni. Fine Hall í Princeton gegndi viðlíka hlutverki í hugum stærðfræðinga og París hafði eitt sinn gegnt í hugum málara og skálda; loftið var þrungið stærðfræðihugmyndum. Leopold Infeld, aðstoðarmaður Einsteins, orðaði það þannig, að maður þyrfti aðeins að rétta út höndina og maður héldi á nokkrum formúlum í lófanum. Til Princeton höfðu Bandaríkjamenn flutt inn helstu vísindamenn Evrópu, sem á þeim tíma stóð Bandaríkjunum langtum framar á sviði vísindamenntunar. Það snerist við á örfáum árum.

Á hverjum degi, klukkan hálffjögur, settust nokkrir höfuðsnillingar heimsins niður í Princeton og drukku saman síðdegiste og ræddu málin. Sérviska var ekki tiltökumál og því féll John Nash vel inn í hópinn. Í þessum síðdegistedrykkjum var mikið teflt og spilað; skák, kotra og kriegspiel (nokkurs konar skák, nema skákmenn vita ekki hvor um leiki annars). Þessir leikir voru hluti þeirrar menningar sem Evrópumennirnir fluttu með sér. Nash var góður skákmaður og fljótlega bjó hann til sinn eigin leik, sem þá var kallaður Nash, en síðar Hex. Það er tveggja manna "núll-summuleikur" með fullkomnum upplýsingum. Það er að segja, ef annar spilarinn vinnur, þá tapar hinn (núll-summa) og á öllum stigum vita keppendur stöðu leiksins (fullkomnar upplýsingar). Rannsókn slíkra leikja og hvernig hægt væri að hugsa upp sigurstranglegar leikfléttur hafði verið eitt helsta viðfangsefni Johns von Neumanns, einnar helstu stjörnu Princeton-háskólans. Nash heillaðist af rannsóknum von Neumanns og þróaði kenningar hans á hærra stig.

Nash hafði mikinn áhuga á leikjum eða spilum þar sem voru nokkrir keppendur, sem vissu ekki allar staðreyndir leiksins og gætu sigrað ef þeir ynnu saman. Ágætt dæmi um slíkan leik er svokölluð "fangaþraut": Lögreglan handsamar tvo grunaða menn, sem báðir eru reyndar sekir. Þeir eru yfirheyrðir hvor í sínu lagi. Séu þeir hvor öðrum tryggir og neiti þrátt fyrir sönnunargögn, verða þeir báðir dæmdir í ársfangelsi. En ef annar svíkur hinn þá er hann umsvifalaust látinn laus en félagi hans dæmdur í fimm ára fangelsi. Að lokum, ef þeir svíkja hvor annan fá báðir þriggja ára dóm. Þrautin eða valþröngin er þessi: ímyndaðu þér að þú sért annar fanganna - hvort myndir þú gera, vera trúr félaga þínum eða svíkja hann? Mundu að þú veist ekkert um fyrirætlun félaga þíns.

Ef félagi þinn ætlar að svíkja þig, þá ættir þú sannarlega að svíkja hann. Þá hlýtur þú þriggja ára dóm í stað fimm ára. Hins vegar ef félagi þinn ætlar að vera þér trúr, þá ættir þú að svíkja hann og losna þannig alveg í stað þess að sitja eitt ár inni. Þú veist ekki hvort félagi þinn ætlar að svíkja þig eða vera þér trúr, en hvort heldur er þá sýnist best fyrir þig að svíkja hann. Þó svo þetta sé rökrétt niðurstaða, þá er þetta á vissan hátt fáránlegt. Félagi þinn mun líklega hugsa á sama hátt og þú þannig að þið svíkið trúlega hvor annan og verðið báðir dæmdir til þriggja ára fangelsisvistar. Það væri greinilega skárri ráðagerð að þið væruð hvor öðrum trúir og sætuð báðir inni í aðeins eitt ár. Spurningin er, hvernig geta tveir aðilar unnið saman að því að ná sameiginlegri niðurstöðu sem gagnast báðum, þegar svik eru svona freistandi?

Skrifaði Nóbelsritgerðina sem nemandi

Í Princeton, þegar Nash var þar í framhaldsnámi, skrifaði hann 27 blaðsíðna ritgerð um þessi svokölluðu leikjafræði (game theory), sem er stærðfræðileg athugun á samskiptum tveggja eða fleiri aðila með andstæða hagsmuni. Það var fyrir þessa ritgerð sem hann að lokum fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1994. Þar fjallaði hann um álíka vandamál og fangaþrautina og lausnir á henni, hið svokallaða Nash-jafnvægi. Það er frægasta stærðfræðilega sköpunarverk Nash. Á síðustu áratugum hefur þessari kenningu verið beitt í hagfræði. Í fyrstu var hún þó fyrst og fremst notuð í mótun herstjórnarlistar kalda stríðsins; ef stórveldin gætu fundið leiðir til samvinnu þá myndi vopnakapphlaupinu linna og kostnaður beggja minnka. En það var ekki fyrr en alllöngu síðar að hagfræðingar áttuðu sig á mikilvægi "Nash-jafnvægisins" og það var t.d. stuðst við það þegar "uppboð aldarinnar" var haldið árið 1994 á símarásum í Bandaríkjunum, um sama leyti og Nash hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði.

Ritgerðin var þó ekki talin nógu góð á þeim tíma sem hann skrifaði hana til að afla honum kennarastöðu sem hann ásældist í Princeton eða Harvard. Hann hafnaði sem kennari í Massachusetts Institute of Technology, MIT, sem þrátt fyrir að vera núna mjög mikilsvirtur háskóli, var skref niður á við í huga Nash.

Á þrítugsaldri hélt Nash áfram að þróa ýmsar kennisetningar í stærðfræði þar sem hann nýtti sér ótrúlegt innsæi sitt; hann virtist sjá fyrir sér útkomuna áður en hann gat sýnt í smáatriðum hvernig hann fór að því. Ýmsir stærðfræðingar telja það verk sem aflaði honum Nóbelsverðlauna í hagfræði léttvægt í samanburði við ýmsar af þeim kennisetningum sem hann þróaði á þessum tíma.

Um sama leyti átti Nash í tveimur samkynhneigðum samböndum sem skildu eftir sig djúp tilfinningaleg ör, m.a. átti hann í ástarsambandi við Ervin Thorson, Kaliforníubúa sem maður gæti haldið að væri af íslenskum ættum af eftirnafninu að dæma; Nash var handtekinn fyrir ósæmilega kynferðislega hegðun í Santa Monica sem kostaði hann sumarvinnuna hjá Rand-fyrirtækinu; tók sér hjákonu, Elonor Stier, sem hann kom fram við af eigingjarnri harðneskju og hrakti í raun út í fátækt. Hann hélt sambandi sínu við hana leyndu fyrir vinum og ættingjum. Hún fæddi honum son sem skírður var John og ólst upp hjá ýmsum fósturforeldrum og á munaðarleysingjahæli. Móðir Nash og nánir vinir vissu ekki af drengnum fyrr en löngu eftir fæðingu hans. Hann hélt tilvist hans og sambandi sínu við móður hans leyndu um langt skeið.

Að lokum kvæntist Nash ungri konu frá El Salvador, Aliciu Larde, glæsilegri konu sem var við nám í MIT þegar Nash kenndi þar. Með henni eignaðist hann annan son, sem einnig var skírður John og þjáðist síðar af geðklofa eins og faðir hans. Alicia og Nash skildu árið 1963, en hún tók hann þó aftur inn á heimili sitt árið 1970 til að forða honum frá því að verða heimilislaus. Hjá henni átti hann athvarf í veikindum sínum. Þau giftust síðan aftur á efri árum, í júní á síðasta ári, eftir að Nash hafði náð sér með undraverðum hætti.

Flóknar ranghugmyndir

Á fyrstu vikum ársins 1959, þegar Nash er þrjátíu ára gamall, er hann greindur með geðklofa. Þó svo snillingum og geðveiki sé oft stillt upp í sömu andrá og bilið oft talið tæpt á milli snillinnar og geðveikinnar, þá er það nú samt svo að geðklofi fer ekki í manngreinarálit. Jafnt snillingar sem meðalmenn veikjast.

Hann fór að heyra raddir og talaði um bráða nauðsyn þess að koma á alheimsstjórn og skrifaði bréf til sendiherra allra ríkja í Washington varðandi það, þar sem hann kvaðst sjálfur vera í undirbúningsstjórn ásamt ýmsum nemendum og félögum í háskólanum. Hann hafnaði boði háskólans í Chicago um mikilsvirta prófessorsstöðu vegna þess að hann væri að taka við embætti keisara Suðurskautslandsins, Antarktíku. Stundum kallaði hann sig Prins friðarins.

Þrálátar og flóknar ranghugmyndir eru meðal einkenna geðklofa. Ranghugmyndirnar stuðla að algjörri höfnun á almennt viðurkenndum raunveruleika. Oft er um að ræða mistúlkun á skynjunum eða reynslu. Álitið er nú til dags að þessi mistúlkun stafi af stórkostlegri brenglun á skynjunarupplýsingum og hvernig hugsanir og tilfinningar eru meðhöndlaðar djúpt í heilanum. Ranghugmyndirnar eru trúlega til komnar vegna þess að hugurinn reynir að koma viti í þær ofskynjanir sem hann verður fyrir. Enda eru ranghugmyndirnar mismunandi eftir því hvaða menningarsvæði um ræðir; það er ekki óeðlilegt að geðklofasjúklingur í Bandaríkjunum á tímum kalda stríðsins sjái í hverju horni samsæri þar sem CIA og Pentagon eru í aðalhlutverki, einnig fljúgandi furðuhlutir og geimverur. Á sama hátt og skiljanlegt er að geðklofasjúklingar á Íslandi upplifi álfa og huldufólk og framliðna og reyni að finna skynjunum sínum stoð í þeim heimi, sem nýtur viðurkenningar almennings. Ofskynjanir geta hins vegar verið miklu umfangsmeiri en að taki einungis til sjónar og heyrnar, þær geta einnig náð til snerti- og bragðskyns. Það er t.d. ekki óalgengt að geðklofasjúklingar upplifi sára verki og brunatilfinningu, sem eru ekki síður raunveruleg en væri um raunverulegan bruna að ræða. En raddir eru þó langalgengastar ofskynjananna, kunnuglegar eða framandi, oft stöðugt suð eða söngl í höfðinu, eða virðast koma utan frá; ósjaldan staglast á nafni viðkomandi. Raddirnar geta verið góðlátlegar, en oft eru þær háð og spott, gagnrýni og jafnvel hótanir, allt fullkomlega raunverulegt í huga geðklofasjúklingsins.

Orsakir geðklofa hafa verið mjög á reiki, þó að á síðustu árum hafi augu manna beinst að erfðaþáttum. Geðklofi er væntanlega samsafn nokkurra sjúkdóma. Einkenni eru mjög mismunandi og jafnvel hjá sama einstaklingi er ekki hægt að tala um "dæmigert tilfelli". Í bókinni er ítarleg grein gerð fyrir geðklofa og ýmsum andlitum hans, hún er því einnig góður lestur öllum sem vilja fræðast um sjúkdóminn. Þótt Nash hafi veikst um þrítugt þá getur sjúkdómurinn slegið hrammi sínum á fólk frá unglingsaldri fram á miðjan aldur. Hættan á að menn fái geðklofa er líklega erfðabundin, en sálfræðilegt álag skiptir líka miklu. Hvert tilfelli er einstakt með ólíkum sálfræðilegum og erfðafræðilegum þáttum. Sumt álag er áhættusamara en annað fyrir hvern einstakling. Karlar fara oft verr út úr veikindunum en konur.

Dvöl á geðsjúkrahúsum

John Nash var nauðungarvistaður á geðsjúkrahúsum sex sinnum á þrjátíu ára veikindaskeiði sínu, fyrst 1959 á McLean-sjúkrahúsinu í Boston, sem rekið er í tengslum við Harvard-háskóla. Þetta er sennilega frægasta geðsjúkrahús í Bandaríkjunum og hefur á sér sambærilegan þjóðsögulegan blæ og Kleppur hér á landi. Og núna þegar geðraskanir eru nánast orðnar undirflokkur í bókmenntum kemur McLean oft við sögu í skáldsögum og æviminningum. Sjúkrahúsið var stofnað snemma á 19. öld á grundvelli hugmynda sem sóttar voru til Evrópu, að sveitalíf gæti verið geðsjúkum til bóta. Alveg fram að 1833 var McLean eina geðsjúkrahúsið í Boston, en eftir það var það geðsjúkrahús þeirra sem gátu greitt fyrir sig. Lýsingar á aðstöðu og þjónustu sýnist manni einna helst hljóma eins og lýsing á fimm stjörnu hóteli, arinn, einstaklingsbaðherbergi, tveir tennisvellir, tveir leikfimisalir og níu holu golfvöllur og krikketvöllur. Á vetrum gátu menn farið á skauta eða gönguskíði; herbergisþjónusta og veitingahúsamatur, antikhúsgögn og austurlenskar mottur. Karlaálman var stundum uppnefnd Harvard-klúbburinn vegna þess að einhvern tíma bjuggu menn útskrifaðir úr Harvard í öllum horníbúðum hússins.

En þessi lýsing átti ekki við öll þau sjúkrahús sem Nash dvaldist á. Þegar peninga þraut var t.d. ekki um annað að ræða en innlögn á Trenton-ríkissjúkrahúsið, en þangað fóru aðeins þeir sem annaðhvort áttu enga peninga eða voru án trygginga, eða þá að þeir voru hreinlega of veikir fyrir einkasjúkrahús á borð við McLean. Á Trenton var Nash settur í insúlínmeðferð og eru lýsingar á því í bókinni hrikalegar. Í sex vikur, fimm daga vikunnar, var Nash vakinn snemma að morgni og honum gefin insúlínsprauta. Blóðsykurmagnið í líkamanum hafði um hálftíu hrapað svo mikið að hann var nánast í dái, alveg þar til líkaminn var orðinn allur stífur, eins og frosinn. Þá var gúmíslanga þrædd í gegnum nef og vélinda og um hana dælt glúkósa þar til hann vaknaði úr dáinu. Oft kom það fyrir að blóðsykurinn féll of mikið sem leiddi til mikils krampa, svo mikils að menn bitu jafnvel úr sér tunguna eða beinbrotnuðu. Sumir létust. Á þessum tíma var álitið að með því að svelta heilann af sykri myndu skemmdar heilafrumur deyja, svipuð hugmynd og að lækna krabbamein með geislun. Meðferðin skilaði árangri, en enginn vissi í raun af hverju. Hún var að mestu aflögð í kringum 1960 og raflækningar tóku við. Þó að Nash kenndi insúlínmeðferðinni um minnisleysi þá sagði hann þó: "Mér batnaði ekkert fyrr en ég var orðinn blankur og þurfti að fara á almenningssjúkrahús."

Oftar en almennt er vitað þá er geðklofi tímabilsbundinn sjúkdómur, sérstaklega eftir fyrsta áfallið. Tímabil sturlunar skiptast á við einkennalaus eða -lítil tímabil. Nash lýsti sjúkdómi sínum ekki sem tímabilum geðlægða og -hæða, maníukasta og síðan þunglyndis, heldur sem stöðugu draumkenndu ástandi og ásókn fáránlegra hugmynda. Hann líkti baráttunni við ranghugmyndir við baráttu þess sem glímir við aukakílóin og þarf að forðast sætindi, hann þurfti stöðugt og meðvitandi að hafna ranghugmyndunum.

Eftir að Nash sagði upp stöðu sinni hjá MIT fór hann til Evrópu, hraktist þar milli borga. Hann óttaðist að um hann væri njósnað og setið um líf hans. Hann fargaði bandarísku vegabréfi sínu og reyndi að fá dvalarleyfi m.a. í Sviss sem flóttamaður. Hann sendi vinum og vandamönnum póstkort frá ýmsum Evrópuborgum með undarlegum textum: "Ég ók með strætisvagni númer 77 í dag og hann minnti mig á þig."

Að lokum flutti Nash aftur til Bandaríkjanna og bjó hjá móður sinni um tíma, en þegar hún lést árið 1970 átti hann ekki í önnur hús að venda en til Aliciu - og hún opnaði dyr sínar fyrir honum, þrátt fyrir að þau hefðu skilið árið 1963. Alicia vann fyrir honum og syni þeirra sem forritari ásamt því að ýmsir vinir og vandamenn styrktu þau fjárhagslega.

Vofan í Princeton

John Nash varði tíma sínum á þessum árum á Princeton-bókasafninu, var þar eins og dapurleg vofa á kreiki í mörg ár. Sat einn og yfirgefinn úti í horni og breiddi í kringum sig pappíra, sem hann hafði ávallt meðferðis. Flestir ungir stærðfræðingar og hagfræðingar, sem lásu um hugmyndir hans og notuðu kenningar hans, héldu að hann væri löngu látinn í ljósi þess hvenær greinar hans birtust.

Smám saman um og eftir 1990 fer svo Nash að blanda geði við nemendur og segja þeim til, hann átti í tölvupóstsambandi við þekkta stærðfræðinga og sat námstefnur. Veikindi hans virðast á undanhaldi, og hann getur aftur stundað stærðfræði. Gagnstætt t.d. geðhvörfum er sjaldgæft að geðklofasjúklingum batni, sérstaklega ef veikindin hafa verið erfið og langvinn. Bati Johns Nash á sér enga skýringu, ekki frekar en upphaf veikindanna.

Hlutskipti Aliciu, eiginkonu Johns Nash, var erfitt. Fyrir skyldurækni sakir tók hún John að sér, þó svo þau hafi verið skilin. En ekki bara það, heldur hefur hún jafnframt þurft að glíma við geðveiki sonar þeirra, Johnny, en hann veiktist einnig af geðklofa. Johnny er í stöðugri hringrás; leggst inn, batnar, en þegar hann er kominn heim vill hann ekki halda áfram að taka lyfin. Verður því aftur veikur og heyrir raddir og ranghugmyndir sækja að honum. Þannig aftur og aftur. Það er vart hægt að hugsa sér meira álag á eina manneskju en að þurfa að fást við geðveikt barn sitt. Alicia þurfti bæði að sinna geðveikum syni sínum og manni. Samband Johns og Aliciu Nash sýnir að hjónaband getur hæglega verið dularfyllsta samband mannfólksins. Yfirborðskennd ástin víkur en við tekur djúp og varanleg skuldbinding.

Eftir lestur bókarinnar er alveg ljóst að Alicia bjargaði lífi Johns Nash. Hún er hetja sögunnar. Titill bókarinnar, "Fallegur hugur", á miklu fremur við hana en John Nash.

Í bókinni segir Alicia: "Stundum getur þú ekki gert áætlanir um hlutina. Þeir bara gerast. Hann hafði sitt eigið herbergi og fékk að borða, grunnþörfum hans var sinnt og álagið var ekki of mikið. Það er þetta sem þú þarft: einhver til að hugsa um þig og að álagið sé ekki of mikið." Eftir á að hyggja hefur blíðlegt viðmót hennar verið mikilvægur þáttur í endurhæfingu Johns Nash.

Bók Sylviu Nasar hefur unnið til verðlauna og verið tilnefnd til annarra, þar á meðal hinna frægu Pulitzer-verðlauna. Hún er mikil að vöxtum, heilar 400 síður með smáu letri, en afskaplega læsileg, spennandi og áhrifamikil. Dramatísk eins og besta skáldsaga og ekki að undra þótt hún yrði efniviður í kvikmynd. Sylvia Nasar lýsir ævi Johns Nash á hlutlægan hátt án tilfinningasemi en af mikilli tilfinningu.

Hvernig gastu...?

En víkjum aftur til ársins 1959 þar sem Sylvia Nasar lýsir heimsóknartíma. Þarna situr John Forbes Nash, stærðfræðisnillingur, höfundur áhrifamikillar hagfræðikenningar, einn af helstu gáfumönnum bandarísku þjóðarinnar - hafði setið í hálftíma á setustofu geðsjúkrahússins ásamt gesti sínum sem einnig var stærðfræðingur. Það var óþægilega heitt í veðri, þótt aðeins væri komið fram í maí. Nash húkti í hægindastól í einu horni setustofunnar, kæruleysislega klæddur, með nælonskyrtuna uppúr beltislausum buxunum. Kraftalega vaxinn sat hann þarna eins og tuskudúkka, andlitið svipbrigðalaust. Hann starði sljór á punkt á gólfinu beint fyrir framan vinstri fót Harvard-prófessorsins George Mackey, hreyfingarlaus nema hvað hann ýtti annað slagið síðu dökku hárinu frá enninu með rykkjóttum, endurteknum hreyfingum. Gestur hans sat uppréttur, þrúgaður af þögninni, óþægilega meðvitandi um að dyrnar að herberginu voru læstar. Að lokum gat Mackey ekki haldið aftur af sér. Kvörtunartónn var í rödd hans, þótt hann reyndi til hins ýtrasta að tala mildilega. "Hvernig gastu," byrjaði Mackey, "hvernig gast þú, stærðfræðingur, maður sem trúir á dómgreind og rökréttar sannanir... hvernig gastu trúað því að geimverur væru að senda þér skilaboð? Hvernig gastu ímyndað þér að þú hefðir verið valinn af geimverum til að bjarga heiminum? Hvernig gastu...?"

Nash leit upp að lokum og horfði á Mackey án þess að depla auga, starði á hann köldu og tilfinningalausu augnaráði eins og fugl eða snákur. "Vegna þess," sagði Nash hægt eins og hann væri að tala við sjálfan sig, "að hugmyndirnar sem ég fékk um yfirnáttúrulegar verur komu til mín með sama hætti og stærðfræðihugmyndir mínar gerðu. Svo ég tók þær alvarlega."

gmagnus@mbl.is