Jóhanna Álfheiður Steingrímsdóttir fæddist í Nesi í Aðaldal 20. ágúst 1920. Hún lést aðfaranótt mánudagsins 25. mars á heimili dóttur sinnar í Reykjavík. Jóhanna Álfheiður var dóttir hjónanna Steingríms Sigurgeirs Baldvinssonar, bónda og skálds í Nesi, f. 29. okt. 1893 í Nesi, d. 4. júlí 1968, og Sigríðar Vilhelmínu Pétursdóttur, f. 13. mars 1899 á Sýreksstöðum í Vopnafirði, d. 1. feb. 1984. Jóhanna var elst fjögurra systkina, en yngri systkinin eru Pétur, f. 14. des. 1929, og tvíburasysturnar Arndís Björg og Kristbjörg Freydís, f. 21. sept. 1931.

Hinn 4. maí 1940 giftist Jóhanna Hermóði Guðmundssyni, f. 3. maí 1915, d. 8. mars 1977, syni hjónanna Guðmundar Friðjónssonar og Guðrúnar Lilju Oddsdóttur á Sandi. Börn Jóhönnu og Hermóðs eru: 1) Völundur Þorsteinn, f. 8. nóv. 1940, kvæntur Höllu Lovísu Loftsdóttur; börn þeirra eru Steinunn Birna, Viðar og Völundur Snær. 2) Sigríður Ragnhildur, f. 10. des. 1942, gift Stefáni Vigni Skaftasyni, börn þeirra eru Steingrímur Sigurgeir, Vigdís Álfheiður og Skafti Sæmundur. 3) Hildur, f. 25. júlí 1950, gift Jafet Sigurði Ólafssyni, börn þeirra eru Jóhanna Sigurborg, Ari Hermóður og Sigríður Þóra. 4) Hilmar, f. 30. ágúst 1953, d. 1. júní 1999, kvæntur Áslaugu Önnu Jónsdóttur, börn þeirra eru Þórólfur Baldvin (látinn), Hermóður Jón, Árni Pétur og Ester Ósk. Barnabarnabörn Jóhönnu eru þrjú, Jóhann Ágúst, Vilberg Lindi og Stefán Þór.

Þau hjónin reistu nýbýlið Árnes 1945 þar sem þau stunduðu blandaðan búskap allt þar til Hermóður lést en eftir það bjó Jóhanna félagsbúi með Hilmari syni sínum og Áslaugu Önnu konu hans. Árið 1962 hófu Jóhanna og Hermóður rekstur veiðiheimilis í íbúðarhúsi sínu, en byggðu síðan veiðihús 1967 sem þau ráku í sameiningu og stýrði Jóhanna rekstri þess þar til í sumarlok 2000, en vorið 2001 fluttist Jóhanna til Húsavíkur.

Jóhanna og Hermóður unnu bæði ötullega að margvíslegum félagsmálum og stóðu í fylkingarbrjósti fyrir verndun Laxár í svokallaðri Laxárdeilu. Jóhanna var um árabil formaður Kvenfélags Nessóknar og Kvenfélagasambands Suður-Þingeyinga og stóð fyrir stofnun kvennakórsins Lissýjar. Hún stofnaði fyrir nokkrum árum vísnafélagið Kveðanda ásamt fleiri hagyrðingum í Suður-Þingeyjarsýslu, var fyrsti formaður þess og í stjórn til dánardægurs. Hún sendi frá sér 14 bækur bæði fyrir börn og fullorðna, auk þess ritstýrði hún nokkrum bókum og tók virkan þátt í útgáfu bókanna Byggðir og bú, byggðasögu Suður-Þingeyjarsýslu. Hún vann auk þess fjölmarga þætti fyrir Ríkisútvarpið, má þar nefna hina vinsælu þætti Á bökkum Laxár sem seinna birtust í bók. Árið 1992 var Jóhanna sæmd Hinni íslensku fálkorðu fyrir störf að félags- og menningarmálum.

Útför Jóhönnu var gerð frá Neskirkju í Aðaldal 30. mars.

Veistu ekki að börnum brauð þarf að gefa, bæta af þeim flíkur og grát þeirra sefa, mjólkina gera, úr mjölinu baka, mala þarf kaffi og þvottinn að taka, en draugurinn glottandi í dyrnum segir: Dragðu fram penna og blað.

Fundum okkar Jóhönnu bar fyrst saman sumarið 1973, ég var þá mættur á Aðaldalsflugvelli og hún kom til að sækja mig í vinnumennskuna. Ég sá strax að þetta var röggsöm kona og hún ók rosalega hratt. Mig grunaði ekki þá að þetta yrði síðar tengdamóðir mín og afar góður vinur.

Hermóður og Jóhanna höfðu byggt upp myndarbú í Árnesi, þar voru löngum einn og tveir vinnumenn og alltaf var verið að byggja og breyta.

Ef það voru ekki gripahúsin eða íbúðarhúsið, þá var það veiðiheimilið sem Jóhanna stjórnaði af miklum skörungsskap í tugi ára. Fyrst höfðu veiðimenn gist í íbúðarhúsinu, en síðar var byggt stórt og myndarlegt veiðihús sem sífellt var verið að lagfæra að kröfum tímans. Jóhanna og Hermóður voru afar samrýnd hjón, þótt ólík væru, hann var formaður í mörgum samtökum, stýrði meðal annars Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga sem var nánast eins og stórfyrirtæki á þeim tíma, með vinnuvélar og verkamenn á sínum snærum. Laxárdeilan hafði tekið drjúgan tíma Árneshjóna og Hermóður var langdvölum að heiman, Jóhanna stýrði öllu heima fyrir með styrkri hendi og trúlega hafa fáar ákvarðanir verið teknar af hálfu bænda í Laxárdeilunni nema bera þær undir hana. Það var ekki lítið afrek að vinna fullnaðarsigur í þeirri baráttu með alla ríkisstjórnina og fleiri ráðamenn á móti sér. Þessi deila markaði upphafið að umhverfisvernd á Íslandi og veit ég að Jóhanna mat mikils góðan stuðning Morgunblaðsins á þessum tíma, en það þótti tíðindum sæta að blaðið skyldi fara gegn stefnu ríkisstjórnarinnar með forsætisráðherrann úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Nú eru tímarnir beyttir.

Jóhanna í Árnesi minnti mig oft á kjarnbestu lýsingar af miklum atorkukonum í Íslendingasögunum. Hún var fluggreind, orðheppin, fær í allan sjó og ekkert mál var svo erfitt að hún teldi tormerki á að koma því í höfn.

Jóhanna var stórhuga, heimili hennar og búskapur báru þess merki. Hún var fagurkeri sem hafði yndi af því að safna listaverkum og fallegum hlutum í kringum sig og rækta sinn stóra og fjölskrúðuga blómagarð.

Það var Jóhönnu mikið áfall þegar Hermóður féll frá fyrir um 25 árum, en hún lét það ekki beygja sig. Hilmar sonur hennar og Áslaug kona hans voru þá komin inn í búskapinn og í sameiningu héldu þau honum áfram af miklum dugnaði. Á erfiðum stundum sást glöggt hve Jóhanna var sterk kona og viljaföst.

Við Hildur og börnin okkar áttum ætíð athvarf á heimili Jóhönnu á sumrum og okkar hús stóð henni opið þegar hún vildi á vetrum. Þetta voru ánægjulegar samverustundir, Jóhanna var hafsjór af fróðleik og gat endalaust þulið vísur og ljóð. Sjálf var hún góður hagyrðingur eins og hún átti kyn til og var snögg að setja saman vísur. Skákmaður var hún góður og marga baráttuna háðum við á taflborðinu og mátti ekki milli sjá hvoru líkaði verr að bíða lægri hlut. Rúmri viku áður en hún lést tókum við okkar síðustu skákir.

Við vorum ekki alltaf á sama máli í landsmálunum og það gátu orðið nokkuð fjörug skoðanaskipti en Jóhanna var alltaf samkvæm sjálfri sér. Hún vildi hag landsbyggðarinnar sem mestan og fannst ótækt hve allt sogaðist á mölina.

Við Hildur og börn okkar ferðuðumst töluvert með Jóhönnu, hún var fróð um landið okkar og hafði gaman af því að koma til framandi landa. Einna minnisstæðust er ferð sem við fórum 1981, þegar ekið var suður alla Evrópu til gömlu Júgóslavíu, síðan til Ítalíu, Sviss, norður í gegnum Þýskaland, Holland og alla leið til Danmerkur. Í fyrravor fórum við ásamt fleirum úr fjölskyldunni í ógleymanlega ferð til Parísar. Enn kom í ljós að Jóhanna var sannur heimsborgari, víðlesin og skemmtilegur ferðafélagi.

Jóhanna dvaldi á heimili okkar Hildar síðustu vikurnar og vildi fá að kveðja þar. Enn kom í ljós hversu sterk kona hún var, hugurinn var skýr og viljinn staðfastur fram til hinstu stundar. Hún æðraðist aldrei og kvaddi með reisn.

Nú þegar leiðir skilur er efst í huga þakklæti, þakklæti fyrir hjálpsemina, þakklæti fyrir aðstoðina við uppeldið á börnum okkar og þakklæti fyrir allar góðu samverustundirnar sem við munum geyma í minningunni um ókomna framtíð.

Megi góður Guð varðveita Jóhönnu í Árnesi.

Jafet S. Ólafsson.

Hún var fædd í lágreistum torfbæ í fallegasta dal á Íslandi. Frá Laxá berst niðurinn heim að bæ og undan norðanáhlaupi syngur í strengjum árinnar. Hún er eina barn foreldra sinna til níu ára aldurs að bróðir og síðan tvíburasystur bættust í hópinn. Foreldrarnir bæði skáldmælt í betra lagi og bernskuheimilið ómaði af kvæðum og lausavísum. Bernskuheimilið mótaði Jóhönnu og bar hún það í hjarta sínu alla ævi. Bernskuárin liðu við leik og störf og Jóhanna kölluð til aðstoðar við öll almenn störf þeirra tíma, þar sem nýtni og sparnaður var nauðsyn. Aðeins tíu ára að aldri var hún að fikta með stangarprik á bakka Laxár og setti þar í 25 punda lax sem pabbi hennar landaði. Jóhanna var alla tíð áræðin og skjótráð. Hún vissi vel hvað hún vildi, ástin réð lífsbreidd hennar og ung varð hún heitbundin Hermóði Guðmundssyni, ung gengu þau út í lífið full af mikilli starfsorku sem braust út í óvenjulegri framkvæmdagleði. Þau stofnuðu nýbýlið Árnes á hálfu Nesi sem þau byggðu upp og gerðu að stórbýli. Bæði tóku mikinn þátt í félagsmálum sveitar sinnar og síðar héraðsins alls. Þangað áttu margir erindi og um langan aldur stóð heimili þeirra um þjóðbraut þvera. Í öllum störfum Hermóðs stóð hún sem klettur að baki manni sínum og voru þau mjög náin og samhent í því sem öllu öðru alla tíð. Jóhanna valdi sér þetta hlutskipti ung að árum sem hún lýsti reyndar svo vel í kvæðinu Rímdraugur sem hún yrkir aðeins 25 ára gömul. Þar lýsir hún löngun sinni til að skrifa, en dagurinn endist aldrei. Í fjórða erindi kvæðisins segir:

Veistu ekki að börnum brauð þarf að gefa,

bæta af þeim flíkur og grát þeirra sefa,

mjólkina gera, úr mjölinu baka,

mala þarf kaffi og þvottinn að taka,

en draugurinn glottandi í dyrnum segir:

Dragðu fram penna og blað.

Og í lokaerindinu:

Um lánættið þrái ég næðis að njóta,

á nóttunni stanslaust um huga minn þjóta

í draumi, eða vöku þau verk, sem að kalla,

valið er aðeins að standa..., eða falla...

Í draumi og vöku draugurinn segir:

Dragðu fram penna og blað.

Gott var að leita í smiðju Jóhönnu þegar á þurfti að halda með ýmsan fróðleik og skemmtiefni. Hún var mjög ritfær, átti auðvelt með að semja og setja fram skoðanir sínar í rituðu máli. Í amstri dagsins framan af ævi gafst ekki mikill tími til ritstarfa en þegar fór að hægjast um kom vel í ljós ritsnilld hennar og frásagnargleði. Fyrst í gerð vinsælla útvarpsþátta, Á bökkum Laxár, og síðan í ýmsum skáldskap, en þekktust er hún fyrir barnabækur sínar, þulur og kvæði. Fyrir Jóhönnu var hagur og velferð fjölskyldunnar ævinlega í fyrirrúmi, þess naut ég sem tengdasonur hennar. Í fjörutíu ár stóðu kynni okkar, fyrst sem heimilismaður, en lengst af í nánu sambýli. Þegar ég kom á heimilið stóð Jóhanna í blóma lífsins, full starfsorku en mörkuð af afleiðingum langvarandi veikinda, hafði fengið lömunarveiki um þrítugt og verið rúmföst í heilt ár.

Að leiðarlokum er ljúft að geta sagt, gott var að eiga þig að sem vin og ráðgjafa, far þú í friði Drottins, haf þökk fyrir allt og allt.

Stefán V. Skaftason.

Hún amma er dáin hljómaði í símanum eldsnemma á mánudagsmorguninn. Mamma var í símanum að segja mér þessar sorglegu fréttir. Þetta tók ekki langan tíma, sagði hún, við vorum öll börnin hennar hjá henni síðustu stundirnar. Ég kvaddi og lét manninn minn vita, vakti son minn og sagði honum að amma lang væri dáin og komin til guðs og allra hinna sem þar voru. Hann þagði smástund, kúrði sig upp að mér og sagði svo allt í einu: Æi, elsku amma mín hún er farin, en núna er blessunin hún amma mín komin til guðs og hann blessar hana og passar. Síðan leið smástund í viðbót og svo sagði hann aftur spekingslega: Núna er hún hjá manninum sínum og hann mun líta eftir henni, það er nú gott. Jú, samþykkti ég hálfhissa, ég hafði ekki litið á þetta frá þessu sjónarhorni. En þetta er alveg satt hjá barninu, hún er komin á leiðarenda, til allra þeirra sem farnir eru og þarna mun henni líða vel, það er alveg öruggt. Minningarnar hafa flætt síðustu daga síðan ég frétti að amma væri dauðvona og ætti ekki langt eftir.

Alltaf var mikið lagt á sig, þegar við barnabörnin vorum lítil, til að fá að launum sögu eða ljóð frá henni, hún sagði nefninlega svo skemmtilega frá og við sátum alltaf grafkyrr til að vera viss með að ná öllu, þótt sagan hefði verið sögð áður. Ömmu féll aldrei verk úr hendi, sífellt var hún að hekla og prjóna af miklu listfengi.

Amma undi sér alltaf best í sveitinni sinni og blettinn sinn elskaði hún mest og lýsir ljóðið Gefðu mér, jörð, eftir Huldu, því best:

Gefðu mér jörð, einn grænan hvamm,

glitrandi af dögg og sól,

að lauga hug minn af hrolli þeim,

sem heiftúð mannanna ól.

Gefðu mér lind og lítinn fugl,

sem ljóðar um drottins frið,

á meðan sólin á morgni rís,

við mjúklátan elfarnið.

Kyrrlátan dal, með reyr og runn,

rætur og mold og sand,

sólheita steina, - ber og barr,

- blessað, ósnortið land.

Þar vil ég gista geislum hjá.,

gefa mig himni og sól,

gleyma, hve þessi góða jörð

margt grimmt og flárætt ól.

Þegar ég sagði ömmu að ég hefði eignast mann varð hún ánægð yfir að ég væri loksins komin í höfn, spurði hvort hann væri ekki örugglega góður við mig og strákinn minn og hvaðan hann væri ættaður; það vildi hún vita líka. Þegar ég kom svo með hann í heimsókn var borið á borð og sest svo að spjalli. Þetta var hún amma, alltaf á fullu og vildi vera örugg með það að okkur barnabörnunum og barnabarnabörnunum liði sem best og hvort við værum ekki örugglega ánægð með það sem við hefðum. Hún var skemmtilegur félagsskapur og gaman að sækja hana heim, því alltaf hafði hún frá einhverju skemmtilegu að segja. Amma var alltaf að semja ljóð og sögur sem kastað var fram oft í góðra vina hópi og lesa má kveðju í þessari stöku, Að kveldi, eftir hana:

Í hringiðu og hraða glaums

hrævareldar skína,

nú á land hins ljósa draums

legg ég byrði mína.

Nú kveð ég þig, elsku amma, með söknuð í hjarta og veit það, að þú ert í öruggum höndum þarna hinum megin og líður vel með ættingjum og vinum sem þar eru fyrir á undan þér.

Vigdís Álfheiður og fjölskylda.

Ég bjóst alltaf við því að amma mín myndi verða 100 ára, enda hafði hún alla burði í það. Eldklár og alltaf með á nótunum, sama hvað málefnið var. Þar sem ég heiti í höfuðið á henni fannst mér við alltaf tengdar einhverjum ólýsanlegum böndum og frá því ég man eftir mér hefur Aðaldalurinn alltaf kallað þegar fór að vora, enda varla til betri staður til að eyða sumrinu en í sveitinni heima. Alltaf beið amma með opinn faðminn og ófáum stundum var eytt á rúmstokknum hjá henni eða úti í garði að hlusta á vísur og ljóð, sögur af henni og afa, lýsingar á sveitalífi í torfbænum Nesi, af búskap í Árnesi eða ferðum til fjarlægra staða. Þegar við frændsystkinin vorum lítil vorum við viss um að amma hlyti að þekkja alla á Íslandi, hún virtist þekkja fólk í öllum sveitum og gestir voru svo til daglegt brauð. Amma var holdgervingur kvenskörungsins, með ákveðnar skoðanir, dugleg og hörð, en mjúku og hlýju hliðarnar voru aldrei langt undan. Tilveran á eftir að verða mun tómlegri án hennar.

Fyrir ofan rúmið hennar ömmu var alltaf innrammað ljóð, kveðjuljóð sem afi skrifaði til hennar áður en hann dó. Í þeim fáu línum sem þar standa sést glöggt hversu sterkum böndum þau voru tengd og hve áin og sveitin voru órjúfanlegur partur af þeirra tilveru. Þar kvaddi hann ömmu með orðum um að þau myndu sjást síðar handan við ána. Það er styrkur í því að hugsa til þeirra standandi þar núna, saman á ný á árbakkanum, hjónin í Árnesi.

Jóhanna Sigurborg.

Þegar komið er að kveðjustund eru margar minningar sem koma fram í hugann. Jóhanna Álfheiður Steingrímsdóttir eða Jóhanna í Árnesi er ein af þeim sem mér finnst hafa fylgt lífi mínu alla tíð. Allt frá því að ég kom sem lítil stelpa norður í Árnes og í gegnum tíðina vegna þeirra sterku tengsla sem ég á við frændfólk mitt þar. Tíðum heimsóknum þeirra hjóna til foreldra minna, góðum og traustum vinskap ásamt samskiptum okkar.

Jóhanna var mikill og sterkur persónuleiki, fjölhæf kona sem hafði áhrif á alla sem í kringum hana voru. Að eiga samtal og samskipti við hana voru stundir sem ég kom yfirleitt ríkari frá, því ég naut þess að hlusta á hana. Jóhanna var hafsjór af fróðleik, mikil sagna- og kvæðamaður, sem hafði þann einstaka hæfileika að geta komið hinni "munnlegu sagnahefð" til áheyrenda sinna bæði í töluðu og rituðu máli.

Ein af sterkum minningum mínum eru frá stundum þar sem ég hlýddi á hana og föður minn rifja upp gamlar vísur og sögur. Stundir sem þau nutu bæði en því miður hefur margt það sem þau rifjuðu upp ekki verið skráð og mun líklega falla í gleymsku.

Jóhanna ritaði nokkrar bækur, bæði fyrir börn og fullorðna. Ég hef getað, starfa minna vegna, nýtt mér barnabókmenntir hennar sem eru einstakar og upplifað hversu vel yngstu áheyrendurnir njóta þeirra.

Fyrir nokkrum árum héldum við systkinabörnin ættarmót í Aðaldal. Þá nutum við mikillar gestrisni hennar og einstakrar leiðsagnar, sem við verðum ævinlega þakklát fyrir.

Síðast hitti ég Jóhönnu fyrir um hálfum mánuði. Ekki grunaði mig þá eða tveimur dögum síðar þegar ég frétti hver staðan væri að þetta yrðu okkar síðustu samverustundir.

Ég kveð frænku mína með söknuði og hefði viljað eiga lengri tíma með henni.

Sendi börnum hennar, fjölskyldum þeirra, systkinum og öðrum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Missir fjölskyldunnar er mikill og allra sem henni tengdust.

Elín Mjöll Jónasdóttir.

Þeim hjónum, Jóhönnu Steingrímsdóttur og Hermóði Guðmundssyni, í Árnesi í Aðaldal kynntist ég mjög náið fyrir næstum aldarþriðjungi, þegar ég tók að mér að vera lögmaður bænda við Laxá og Mývatn í deilu þeirra við Laxárvirkjun. Þau hjónin voru í fararbroddi þeirra, sem snerust til varnar þeim ómetanlegu djásnum íslenzkrar náttúru, sem voru Laxá í Aðaldal, helzta laxveiðiá landsins, og náttúruperlan Mývatn, sem er uppspretta árinnar. Lífríki þessa vatnakerfis í Suður-Þingeyjarsýslu er einstakt á heimsmælikvarða. Varnarbaráttu fólksins við Laxá og Mývatn á árunum 1970-73 lauk með frækilegum sigri í þessu fyrsta stóra umhverfisverndarmáli á Íslandi.

Mér varð fljótt ljóst, að þau hjónin í Árnesi voru fólk mikilla sanda og mikilla sæva, stórbrotin, en ólík um margt. Ávallt voru þau þó samtaka í lífi sínu og baráttu fyrir hugsjónum sínum. Öllum sem til þekkja er ljóst, að hefði þeirra ekki notið við, hefðu engir sigrar unnizt í Laxárdeilu. Þá hefði risið í Laxárgljúfrum stórvirkjun samkvæmt svonefndri Gljúfurversáætlun og þar með hefði hin fræga laxveiðiá horfið af landakortinu, en þjóðin orðið nokkrum megavöttum ríkari.

Nú þegar ég skyggnist um öxl til þeirra ára, er Laxárdeilan var í algleymingi, þykir mér vænt um að komast aftur að þeirri niðurstöðu, að sigur Þingeyinga í Laxárdeilunni fólst í björgun ómetanlegra náttúruverðmæta, sem hefðu ella glatazt í eitt skipti fyrir öll, ef virkjunaráformin hefðu náð fram að ganga. Laxárdeilan og öll sú opinbera umræða um náttúruvernd, sem hún vakti, hefur og reynzt þeim kynslóðum landsins, sem á eftir komu, mjög heillavænleg, því að hún greypti inn í þjóðarvitundina þá gát, sem okkur er svo nauðsynleg í umgengni við landið og náttúru þess.

Jóhanna í Árnesi átti ekki minni þátt en eiginmaður hennar í því mikla starfi, sem innt var af hendi í baráttunni fyrir Laxá og Mývatn. Hún var alla tíð einkar glæsileg kona og bar með sér einstaka höfðingslund, hvar sem hún fór. Mér, sem og öllum er komu í Árnes, varð og ljóst, að hún var mikil búkona, sem hafði gott skipulag á öllum hlutum, innan stokks sem utan. Jafnframt bjó hún yfir miklu listrænu næmi, sem lýsti sér í skáldlegum tilþrifum hennar, ljóðagerð og sagnaritun. Hún var mikil gáfukona.

Ég tel mig ríkari eftir kynnin af Jóhönnu í Árnesi, sem ég nú kveð með margar góðar minningar í huga, jafnframt því sem ég votta fjölskyldu hennar innilega samúð á skilnaðarstundinni.

Sigurður Gizurarson.

Jafet S. Ólafsson.