Horft yfir Þjórsárver. Verði af gerð Norðlingaölduveitu mun lón hennar vera í hluta Þjórsárvera.
Horft yfir Þjórsárver. Verði af gerð Norðlingaölduveitu mun lón hennar vera í hluta Þjórsárvera.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landsvirkjun er ekki eigandi landsréttinda, þar með talin vatnsréttindi í afréttum Árnessýslu. Samkvæmt nýlegum úrskurði óbyggðanefndar eru vatnsréttindin í eigu ríkisins en ekki Landsvirkjunar eins og áður hafði verið talið. Ragna Sara Jónsdóttir kannaði hvaða þýðingu þessi niðurstaða hefur fyrir Landsvirkjun annars vegar og ríkið hins vegar.

Óbyggðanefnd úrskurðaði þann 21. mars síðast liðinn um þjóðlendumörk og eignarrétt á þjóðlendum í sjö hreppum í uppsveitum Árnessýslu. Meðal þeirra krafna sem nefndin úrskurðaði um var krafa Landsvirkjunar um að eignarréttur fyrirtækisins, m.a. á landi, vatni og veiði yrði staðfestur.

Niðurstöður óbyggðanefndar hafa vakið athygli vegna þeirrar niðurstöðu sem nefndin kemst að er varðar rétt Landsvirkjunar. Telur nefndin að Landsvirkjun teljist ekki eigandi landsréttinda, þar með talið vatnsréttinda, innan þjóðlendunnar í uppsveitum Árnessýslu. Ríkissjóður sé aftur á móti handhafi þeirra réttinda.

"Þetta þýðir að nú hefur fengist úr því skorið að ríkið er eigandi vatnsréttinda í Þjórsá í afréttum Árnessýslu. Það hefur ríkt óvissa um hver ætti þessi vatnsréttindi eftir að dómar féllu árin 1955 og 1981 um Landmannaafrétt og afrétti í Rangárvallasýslu á þá leið að enginn ætti vatnsréttindin. Með úrskurði óbyggðanefndar nú hefur þessari óvissu verið eytt," segir Helgi Bjarnason, skrifstofustjóri orkusviðs í iðnaðarráðuneytinu.

Það vekur ýmsar spurningar hvers vegna Landsvirkjun, sem í þrjátíu og sjö ár hefur talið sig vera eiganda þessara vatnsréttinda sé ekki lögmætur eigandi þeirra, heldur ríkið. Orsakir þessarar niðurstöðu má rekja um 100 ár aftur í tímann.

Bændur uppgötva verðmæti vatnsréttinda

Skömmu eftir aldamótin 1900 fóru bændur að verða þess áskynja að það vatn sem runnið hafði árum saman til sjávar í beljandi jökulfljótum og öðrum minni ám, gat verið mikils virði. Hreppar fóru því hver af öðrum að ráðstafa vatnsréttindum á afréttum sínum. Gnúpverjahreppur, sem Þjórsá liggur um, var einn þeirra hreppa sem ráðstöfuðu snemma vatnsréttindum á afrétti sínum.

Árið 1909 veitti hreppsnefnd Gnúpverjahrepps Gesti Einarssyni á Hæli fullt og ótakmarkað umboð til þess að selja, leigja eða á annan hátt koma í verð eignum hreppsins, þ.e. fossunum í Þjórsá: Þjófafossi, Tröllkonufossi og Gljúfurleitarfossi ásamt vatninu í ánni. Sama átti við um Hávafoss og Hjálparfoss í Fossá og Geldingaárfoss í Geldingaá. Tveimur árum síðar framseldi Gestur umboðið til Þorleifs Guðmundsonar sem aftur framseldi það til Sturlu Jónssonar.

Árið 1914 seldi Sturla Fossafélaginu Titan vatnsréttindi í áðurnefndum fossum. Aðeins tveimur árum síðar seldi áðurnefndur Gestur Einarsson, Einari Benediktssyni skáldi, athafnamanni og einum stofnenda Fossafélagsins Titans, Búrfell og Skeljafell, en til þess hafði hann umboð hreppsnefndar Gnúpverjahrepps. Einar framseldi þessi réttindi ári síðar til Fossafélagsins Titans.

Þetta voru ein af fjölmörgum kaupum Fossafélagsins Titans á vatnsréttindum í ám landsins en alls ekki þau síðustu. Félagið hélt áfram að kaupa vatnsréttindi frá öðrum hreppum sunnanlands. Árið 1914 festi Titan kaup á eignarhlut Skeiðahrepps í Háafossi og Hjálparfossi í Fossá. Kaupverðið var 3.000 krónur. Einar Benediktsson festi einnig kaup á öllu vatnsafli í Þjórsá og Tungnaá í Landmannaafrétti af Landmannahreppi árið 1916 og framseldi til Titan undir lok árs 1917.

Ásahreppur, Holtahreppur og Landmannahreppur gerðu svipaða samninga við Einar Benediktsson árið 1916 og tveimur árum síðar framseldi Einar flest þessi réttindi til Fossafélagsins Titans.

Einar Benediktsson hafði verið afar öflugur við að afla vatnsréttinda fyrir Titan og árið 1918 var hann kominn með flest vatnsréttindi í afréttum hreppa í uppsveitum Árnessýslu sem töldu sig eiga slík réttindi. Vatnsréttindi í nágrannasveitunum, þ.e. í Rangárvallasýslu, fóru svipaða leið og er gert ráð fyrir að óbyggðanefnd úrskurði fljótlega um eignarhald í afréttum Rangárvallasýslu.

Árið 1918 virðist sem Landsstjórnin vilji grípa í taumana á fyrrnefndri þróun og sendi hún símskeyti af því tilefni til allra sýslumanna landsins. Þar benti Landsstjórnin á að vatnsréttindi væru almenningseign og svokölluð fossnefnd teldi alla þá sölusamninga sem hreppar hefðu gert um vatns- og landsréttindi í afréttum ólögmæta. Landsstjórnin gerði tilkall til slíkra vatnsréttinda.

Ekki virðast hafa orðið sérstök eftirmál af símskeytum þessum þar sem réttindin sem um ræðir voru áfram í eigu Fossafélagsins Titans um áratuga skeið. Það var ekki fyrr en árið 1952 að Titan seldi öll réttindi félagsins hér á landi til íslenska ríkisins.

Landbúnaðarráðuneytið hafði forgöngu um samninginn fyrir hönd ríkisins, og greiddi 600.000 norskar krónur og 200.000 íslenskar krónur fyrir vatnsréttindi Fossafélagsins Titan. Sú upphæð samsvarar um það bil 83 milljónum íslenskra króna á verðlagi dagsins í dag. Í samningnum var um að ræða vatnsréttindi í Þjórsá, Tungnaá, Köldukvísl, Þórisvatni og víðar.

Þessi tilteknu lands- og vatnsréttindi voru í eigu ríkisins þangað til þau voru lögð til af hálfu ríkissjóðs við stofnun Landsvirkjunar árið 1965, á móti framlagi Reykjavíkurborgar. Ekki er ljóst hvert verðmæti þeirra var þá en í dag eru þessi vatnsréttindi, þ.e. aðallega vatnsréttindi í Þjórsá fyrir ofan Búrfell og Tungnaá, metin til tæpra 550 milljóna króna í bókum Landsvirkjunar, samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun.

Framlag ríkisins einskis virði

Það er ekki fyrr en nú, þrjátíu og sjö árum eftir stofnun Landsvirkjunar, að í ljós kemur að framlag ríkisins til stofnunar fyrirtækisins, samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar, var að hluta til einskis virði.

Þegar Landsvirkjun var stofnuð árið 1965 lagði ríkissjóður til eignarhluta sinn í Sogsvirkjun, vatnsréttindi í Soginu og lóðir vegna mannvirkjagerðar þar, gögn varðandi byggingu Búrfellsvirkjunar, 50 milljónir króna í reiðufé og síðast en ekki síst vatnsréttindi í Þjórsá vegna byggingar Búrfellsvirkjunar, ásamt landi sem til þurfti vegna byggingar virkjunarinnar. Það er hið síðastnefnda sem nú hefur komið í ljós að var einskis virði, þar sem það var byggt á réttindum sem ríkissjóður átti ekki.

En hvers vegna gat ríkið ekki gert tilkall til þessara réttinda?

Ástæðuna er að finna við fyrstu sölu á réttindunum. Í úrskurði óbyggðanefndar segir að Gnúpverjahreppur hafi ekki átt þau réttindi sem hrepparnir seldu upphaflega í byrjun aldarinnar og enduðu í eigu Landsvirkjunar undir miðbik aldarinnar. Búfjáreigendur í Gnúpverjahreppi hafi í gegnum tíðina haft hefðbundin afréttarnot af svæðunum en hafi ekki getað talist eigendur þeirra. Hreppsnefnd Gnúpverjahrepps og fleiri hreppa hafi því upphaflega ekki haft rétt á að selja þessi réttindi þar sem þau voru ekki í eigu bændanna. Samningar og afsöl hreppsnefndar og þinglýst sala á réttindum þessum í gegnum tíðina breyti engu þar um.

Samkvæmt þessu eru öll viðskipti með land- og vatnsréttindi frá hreppunum til Einars Benediktssonar og síðar Fossafélagsins Titans ómarktæk.

Spurning um auðlindagjald

Helgi Bjarnason, skrifstofustjóri orkusviðs í iðnaðarráðuneytinu, segir að úrskurðurinn hafi þá grundvallarþýðingu að nú viti ríkið að það hefur virkjanaréttinn í þjóðlendum.

"Það sem dómurinn segir okkur er þetta: Það sem ríkið keypti af Titan á sínum tíma var einskis virði fyrir ofan Búrfell, það er í afréttunum. Þau réttindi sem ríkið keypti á eignajörðum fyrir neðan Búrfell, standa hins vegar óbreytt.

Í þessari stöðu þurfa ríkið og Landsvirkjun að ræðast við um það á hvaða hátt menn túlka þetta fyrir annars vegar þær virkjanir sem nú þegar eru í rekstri og hins vegar fyrir virkjanir sem væntanlega verða byggðar eða eru í bígerð," segir Helgi.

Hann segir að viðræðurnar muni líklega snúast um hvort og þá hvernig gjald ríkið muni taka af Landsvirkjun fyrir afnot af vatnsréttindunum og vísar þar til laga um þjóðlendur frá 1998: "Þær viðræður sem ríkið og Landsvirkjun þurfa að eiga munu væntanlega snúast um einhvers konar gjald af vatnsréttindum. Annað hvort um gjald í formi eingreiðslu eða gjald sem tengt er framleiðslunni," segir Helgi.

Hann segir að ekki hafi verið rætt um hvenær þær viðræður hefjist en hann geri ráð fyrir að þær hefjist ekki fyrr en óbyggðanefnd hefur fellt úrskurði um afrétti í Rangárvallasýslu, svo unnt sé að ræða um vatnsréttindi í Tungnaá samtímis áðurnefndum vatnsréttindum.

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segist telja að úrskurður óbyggðanefndar breyti litlu fyrir Landsvirkjun og ólíklegt sé að fyrirtækið muni greiða gjald fyrir vatnsréttindin.

"Ég held að það sé einfaldast fyrir ríkið að lýsa því yfir að Landsvirkjun fari með þessi vatnsréttindi og greiði ekki af því neinar bætur eða leigu. Réttindi þessi voru lögð inn sem stofnframlag ríkisins þegar Landsvirkjun var stofnuð. Það er langlíklegast að ríkið hljóti að gera fyrirtækið Landsvirkjun jafnsett og það hafi átt að vera í upphafi. Um þetta hafa þó engar viðræður farið fram, enda er úrskurðurinn svo nýfallinn."

Friðrik segir ólíklegt að Landsvirkjun þurfi að greiða gjald fyrir umrædd vatnsréttindi. "Landsvirkjun er fyrirtæki í eigu ríkisins og tveggja sveitarfélaga og mér þykir harla ólíklegt að sveitarfélögin, sem töldu að ríkið hefði lagt inn þessi réttindi í upphafi, hafi nú áhuga á að fara að greiða fyrir þau gjald. Ég get ekki ímyndað mér að það fari svo," segir Friðrik Sophusson.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, tekur í sama streng og segir líklegt að ríkið sjái sér hag í að Landsvirkjun verði jafnsett fyrir og eftir úrskurð óbyggðanefndar. Hann segir jafnframt að þrátt fyrir að óbyggðanefnd hafni eignarrétti Landsvirkjunar þá viðurkenni úrskurðurinn nýtingarrétt fyrirtækisins og því hafi hann engin áhrif á starfsemi fyrirtækisins.

Helgi Bjarnason túlkar þetta með öðrum hætti. "Það að Landsvirkjun hafi nýtingarrétt en ekki eignarrétt þýðir að Landsvirkjun er heimilt að nýta þessa auðlind, en jafnframt er ríkinu heimilt að taka gjald fyrir nýtingu hennar samkvæmt þjóðlendulögunum. Þetta þýðir að Landsvirkjun ætti að greiða nokkurs konar auðlindagjald fyrir að nýta þessi vatnsréttindi sem þau töldu áður réttilega vera í sinni eigu," segir Helgi.

Þorsteinn segir hins vegar að gjaldtaka á grundvelli úrskurðar óbyggðanefndar varðandi eignarrétt á vatns- og landsréttindum í Þjórsá myndi raska hlutföllum milli framlaga eigendanna við stofnun Landsvirkjunar. Líkt og Friðrik Sophusson hefur bent á hér að framan, þá telur hann ólíklegt að ríkið sjái sér hag í öðru en að leiðrétta hlut ríkisins í Landsvirkjun svo hlutföll eigenda fyrirtækisins raskist ekki. "Það sem gerist nú í kjölfar úrskurðar óbyggðanefndar er að ríkið hlýtur að þurfa að standa við það sem það ætlaði að gera við stofnun Landsvirkjunar, að sjá til þess að þau vatnsréttindi sem lögð voru til við stofnun fyrirtækisins séu hjá því og fyrirtækið hafi umráðarétt yfir þeim eins og gert var ráð fyrir í upphafi. Ég býst við að sameigendur ríkisins í Landsvirkjun sætti sig ekki við annað," segir Friðrik.

Helgi Bjarnason bendir á að ríkið standi vel að vígi, þegar hann er spurður hvort niðurstaða óbyggðanefndar geti haft áhrif á eignarhlutföll ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. "Eignarhlutföllin í fyrirtækinu komu óneitanlega upp í hugann strax eftir að úrskurðurinn féll. Það er hins vegar erfitt að fullyrða á þessu stigi hvort úrskurðurinn hefur einhver áhrif þar á. Það er að minnsta kosti ljóst að ríkið stendur vel að vígi í dag gagnvart sameignaraðilum sínum í Landsvirkjun, vegna þess að þeir eiga vatnsréttindin í Sigöldu, Hrauneyjafossvirkjun og Sultartanga auk Búrfellsvirkjunar. Það er óvéfengt ennþá og verður væntanlega ekki véfengt. Það er hins vegar hægt að segja að þau vatnsréttindi í Þjórsá sem ríkið lagði til sem eign við stofnun Landsvirkjunar hafi verið einskis virði á sínum tíma í ljósi þessa úrskurðar. Allt fram til ársins 1998 þegar lög um þjóðlendur voru sett hafði ríkt nokkur óvissa um eignarhald afréttarlanda og m.a. hafði fallið dómur í Hæstarétti árið 1981 þar sem beinn eignarréttur ríkisins yfir Landmannaafrétti var ekki viðurkenndur. Nú eru komnar hreinar línur hvað eignarhaldið varðar og í dag er þó víst að framlögð vatnsréttindi ríkisins við stofnun Landsvirkjunar eru góð og gild. Hins vegar er hæpið að rekja sig til baka varðandi eignarhlutföllin í fyrirtækinu, enda er mikilvægara að horfa fram á veginn í þessum efnum," segir Helgi Bjarnason.

Hvað gjaldtöku varðar bendir Friðrik sérstaklega á að sérstök staða sé uppi hvað varðar Búðarhálsvirkjun og Vatnsfellsvirkjun, sem leyfðar voru eftir að nýju þjóðlendulögin tóku gildi.

"Hvað þær virkjanir varðar þá er rétt að benda á að í leyfi forsætisráðuneytisins fyrir þeim virkjunum er vitnað til gjaldtökuheimildar þjóðlendulaganna. Samkvæmt þeim er ríkinu heimilt að taka gjald af Landsvirkjun fyrir vatnsréttindin. Ríkið verður því að taka sjálfstæða ákvörðun varðandi þessar tvær virkjanir um hvort taka eigi gjald fyrir þau réttindi. Ég býst við að slík ákvörðun verði tekin í ljósi þess hversu víðtæk réttindi ríkið lagði til við stofnun Landsvirkjunar, en ég tel það engan veginn sjálfgefið að gjald verði lagt á þessar tvær virkjanir," segir Friðrik.

Kristján Andri Stefánsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu, segir aðpurður að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hvort ríkið muni taka gjald fyrir leigu á vatnsréttindum þessara tveggja virkjana. Það sé rétt að heimild sé í lögum fyrir slíkri gjaldtöku en ákvörðun um það verði ekki tekin fyrr en óbyggðanefnd hafi eytt allri óvissu hvað varðar þjóðlendur og þjóðlendumörk þar sem virkjanir standa hafi verið öll dregin.

rsj@mbl.is