4. apríl 2002 | Viðskiptablað | 2019 orð | 5 myndir

Boð og bönn í bandarískum greiningum

Hratt hefur fjarað undan trúverðugleika bandarískra greiningarsérfræðinga í kjölfar hamfara netfyrirtækja og Enron-hneykslis

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandaríkjamenn velta nú vöngum yfir því hvort rétt sé að setja stífari reglur um greiningardeildir fjármálafyrirtækja. Soffía Haraldsdóttir kynnti sér umræðuna og leitaði álits íslenskra aðila um þörfina fyrir slíkar reglur og aðstæðurnar hér á landi.
KAUPHÖLLIN í New York (NYSE) og Landsamtök verðbréfamiðlara (NASD) kynntu í febrúarmánuði sl. hvor sínar tillögur að nýjum reglum um greiningardeildir fjármálafyrirtækja og starfsmenn þeirra. Tillögurnar kalla á yfirgripsmiklar breytingar á starfsemi greiningardeilda í Bandaríkjunum en hingað til hefur reglum þar að lútandi verið fremur áfátt. Bandaríska fjármálaeftirlitið (SEC) hefur ekki samþykkt tillögurnar. Líklegt er þó talið að það verði gert enda urðu þær til vegna þrýstings frá yfirvöldum m.a. á SEC.

Umræða hefur skapast í fjölmiðlum vestra um ágæti þeirra reglna sem NYSE og NASD hafa lagt til en tillögur þeirra eru nánast samhljóða. Ekki eru allir á eitt sáttir um þörfina fyrir slíkt regluverk. Sumir segja reglurnar ganga of langt og ekki vera til þess gerðar að vernda almannahagsmuni. Aðrir telja tímabært að leggja greiningarsérfræðingum lífsreglurnar til að koma í veg fyrir að þeir skari eld að eigin köku eða vinnuveitanda síns. Þá eru þeir sem segja þetta ágætis byrjun en ganga verði mun lengra til að raunverulegur árangur náist.

Gegna tveimur ósamræman- legum hlutverkum

Megininntak reglnanna er að skarpari aðskilnaður verði á milli deilda fjármálafyrirtækja, þ.e. á milli greiningardeilda og verðbréfaviðskipta. Þetta eru svokallaðir Kínamúrar sem hafa þótt til lítils í mörgum bandarískum fjármálafyrirtækjum en þykja samt sem áður nauðsynlegir til að gæta hlutlægni gagnvart viðskiptavinum. Hefur jafnvel komið til tals að löggjöf þurfi til sem bannar að slík aðskilin starfsemi sé undir sama þaki.

Starfsmenn greiningardeilda hafa þótt gegna tveimur ósamræmanlegum hlutverkum í starfi sínu. Annars vegar eigi þeir að bera hag fjármálafyrirtækisins sem þeir starfa hjá fyrir brjósti og hámarka arðsemi þeirrar starfsemi. Hins vegar eigi þeir að vera hlutlausir í umfjöllun sinni um fyrirtæki á verðbréfamarkaði, fyrirtæki sem sum hver eiga í margs konar viðskiptum við aðrar deildir fjármálafyrirtæksins sem þeir starfa hjá. Þessi tvö hlutverk hafa þótt stangast á og nokkuð algengt mun vera að viðskiptavinir fjármálafyrirtækis, sem skráðir eru á verðbréfamarkaði, hóti að hætta við það viðskiptum ef greiningar greiningardeildarinnar á fyrirtækinu eru þeim óhagstæðar á markaði.

Sjaldan mælt með sölu

Þetta er talin ein meginástæða þess að greiningarsérfræðingar mæla afar sjaldan með sölu á hlutabréfum í greiningum sínum, annaðhvort er mælt með kaupum eða að menn sitji á bréfum sínum og bíði átekta. Aðrar ástæður sem taldar eru fyrir þessu eru að hagsmunir sérfræðingsins í eigin verðbréfaviðskiptum eða fjármálafyrirtæksins séu settir ofar almannahagsmunum.

Enron-hneykslið er gjarnan tekið sem nýlegasta dæmið um óskiljanlega greiningu í bandarískum fjölmiðlum en sérfræðingar mæltu margir hverjir með kaupum í fyrirtækinu þrátt fyrir að það sigldi hraðbyri í gjaldþrot. Þá hafa bandarískir greiningarsérfræðingar verið litnir hornauga allt frá því að netfyrirtækjabólan sprakk og olli hruni á markaðnum. Þóttu þeir fara offari í meðmælum sínum með fyrirtækjum sem vart voru meira en nafnið eitt.

Því má segja að hratt hafi grafið undan trúverðugleika bandarískra greiningarsérfræðinga og hafa sum fjármálafyrirtækin brugðist við þessu með því að setja starfsmönnum sínum vinnureglur. Til að mynda hefur fjármálarisinn HSBC bannað sérfræðingum sínum að mæla með því að menn bíði með að kaupa eða selja hlutabréf í fyrirtæki. Nú mega þeir einungis mæla með kaupum eða sölu auk þess sem hlutfall kaup- og sölueinkunna verður að vera nokkuð jafnt.

Gagnrýnin verður æ háværari

Yfirvöldum hefur hins vegar ekki þótt nóg að gert og finnst tími til kominn að settar verði víðtækar almennar reglur um greiningardeildirnar enda verður gagnrýnin æ háværari.

Hinar nýju tillögur NYSE og NASD urðu til í kjölfarið. Reglunum er ætlað að koma í veg fyrir að sérhagsmunir nái að lita greiningar sérfræðinganna m.a. með því að takmarka viðskipti sérfræðinganna með verðbréf sem þeir fjalla sjálfir um. Um þetta eru flestir sammála. Einnig með því að tilgreina í greiningum viðskiptatengsl fjármálafyrirtækisins við fyrirtækið sem er til umfjöllunar og með því að hamla því að sérfræðingar fjármálafyrirtækis tjái sig um fyrirtæki sem það stýrir hlutafjárútboði fyrir. Mörgum þykja þessar meginreglur hinar eðlilegustu og þær hljóti að leiða til heilbrigðari viðskiptahátta. Hins vegar eru þeir sem meðal annars gagnrýna reglur um þagnarskyldu í kjölfar útboðs. Í því sambandi hefur verið bent á að með þessu sé verið að múlbinda sérfræðingana í óeðlilega langan tíma. Þeim sé meinað að láta í ljós skoðanir sínar og það ýti undir að þagnartímabilin verði misnotuð af öðrum.

Ólíkar aðstæður hér á landi

Bandarískur fjármálamarkaður er mun eldri en sá íslenski og að því er margir telja, mun þroskaðri. Hann hefur á síðastliðnum fáum árum vaxið hratt úr grasi og eftir hina gríðarlegu uppsveiflu þessara ára á verðbréfamarkaði eru menn nú að staldra við og endurskoða mál sem þessi, þ.e. hlutleysi greiningardeildanna.

Yfirmenn greiningardeilda og fjármálaeftirlits á Íslandi eru sammála um að við búum við aðrar aðstæður en Bandaríkjamenn. Hérlendar fjármálastofnanir hafa t.a.m. sett starfsmönnum sínum vinnureglur í samræmi við tilmæli frá Fjármálaeftirlitinu (FME).

FME fylgist grannt með umfjöllun greiningardeilda

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir Fjármálaeftirlitið hafa á undanförnum misserum fylgst grannt með opinberri umfjöllun greiningardeilda, einkum umfjöllun þeirra um verðbréf og fyrirtæki á markaði.

"Í þessu efni hefur Fjármálaeftirlitið hugað sérstaklega að því hvort fjármálafyrirtæki þar sem greiningardeild starfar hafi einhverra hagsmuna að gæta vegna þeirra fyrirtækja sem greining beinist að og þá hvort og hvernig slíkum tengslum er komið á framfæri í greiningunni sjálfri. Fjármálaeftirlitið hefur í nokkrum tilvikum gert athugasemdir við umfjöllun greiningardeilda vegna þessa."

Páll Gunnar segir Fjármálaeftirlitið hafa í lok síðasta árs sent út fréttatilkynningu þar sem bent hafi verið á að í umfjöllun greiningardeilda hafi ekki í öllum tilvikum komið fram hvort fjármálafyrirtæki eigi hagsmuna að gæta í þeim aðila sem kynntur er sem fjárfestingarkostur. Jafnframt hafi þeir sem ætluðu að byggja fjárfestingu sína á ráðgjöf fjármálafyrirtækja og greiningardeilda á vegum þeirra verið hvattir til að leita upplýsinga um hagsmuni fjármálafyrirtækjanna gagnvart viðkomandi fjárfestingarkosti.

"Fjármálaeftirlitið hefur einnig hugað að sjálfstæði greiningardeilda í eftirliti sínu með Kínamúrum, en fjármálafyrirtæki hafa á undanförnum mánuðum verið að laga starfsemi sína að leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins um það efni sem gefin voru út í fyrrahaust.

Í framhaldi af þessum verkefnum hefur Fjármálaeftirlitið gefið helstu fjármálafyrirtækjum til kynna að það sé að huga að setningu sérstakra leiðbeinandi tilmæla um greiningardeildir með það að markmiði að styrkja hlutlægni í starfsemi þeirra." Páll segir Fjármálaeftirlitið hafa átt viðræður um þetta við forsvarsmenn greiningardeilda og líklega verði gefið út umræðuskjal um málið síðar á árinu.

Íslenskar reglur taka mið af Norðurlöndum

Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður rannsóknar og greininga hjá Búnaðarbankanum, segir vel hugsanlegt að setja sérstakar reglur hér á Íslandi líkt og stefnt er að í Bandaríkjunum.

"Þó verður að gæta vel að því að markmið reglusetningarinnar séu afar skýr, þannig að tryggt verði að tilganginum verði náð. Að mínu mati yrði tilgangurinn fyrst og fremst neytendavernd og það er alls ekki sjálfgefið að nákvæmt regluverk tryggi slíka vernd."

Edda Rós segir hlutverk greiningaraðila mjög mikilvægt fyrir verðbréfamarkaðinn, bæði við miðlun upplýsinga og skoðanaskipti, en þetta tvennt leggi grunninn að virkri verðmyndun verðbréfa.

"Það er vel hægt að hugsa sér aðstæður þar sem reglur sem ætlað er að vernda neytendur geta í raun skaðað neytendur. Í umræðunni í Bandaríkjunum hefur t.d. verið bent á að með því að koma tímabundið í veg fyrir að ákveðnir sérfræðingar tjái sig um fyrirtæki og útboð, geti það valdið skoðanaleysi á markaðnum. Þá geti t.d. komið upp sú staða að einhverjir aðilar sjái hag sinn í því að taka skortstöðu í hlutabréfum og lýsa samtímis yfir neikvæðri skoðun á bréfunum í skjóli þess að enginn komi með andstæða skoðun. Þessi aðili hefur þar með óeðlileg áhrif á verðmyndun og það myndist tímabundið hagnaðartækifæri á kostnað annarra fjárfesta."

Hún segir rétt að hafa í huga að reglur í Bandaríkjunum taki mið af regluverki þar, en íslenskt regluverk tekur mið af reglum á Norðurlöndunum. Því sé ekki hægt að heimfæra bandaríska umræðu beint á íslenskar aðstæður.

"Þessi mál eru stöðugt í gerjun og í síðasta mánuði [febrúar] áttu greiningadeildir bankanna t.d. frumkvæði að fundi með fulltrúum fjármálaeftirlitsins um reglur og siðferði. Þá hefur Búnaðarbankinn nýlega sett nýjar og strangari verklagsreglur fyrir verðbréfasviðið.

Þegar upp er staðið tel ég að almennt regluverk, fremur en nákvæmt, sé líklegast til að þjóna tilgangi neytendaverndar á verðbréfamarkaði. Fyrirtæki og greiningarsérfræðingar sem ætla sér að lifa af til lengri tíma verða að ávinna sér traust og það verður ekki nema með því að miðla réttum upplýsingum og gera góðar greiningar. Það er því hagur verðbréfafyrirtækjanna að setja sjálf strangar innanhússreglur og fylgja þeim eftir. Öðru vísi haldast menn ekki í bransanum," segir Edda.

Viðbrögð við vandamálum hafa verið skjót

Ársæll Valfells, deildarstjóri greiningardeildar Landsbanka Íslands, segir umræðuna í Bandaríkjunum áhugaverða og ýmislegt megi af henni læra.

"Kannski er stærsti lærdómurinn að aðstæður hér eru ekki þær sömu og í Bandaríkjunum. Íslenskur fjármálamarkaður er enn ungur og hefur ekki þróast án vaxtarverkja. Aftur á móti hafa viðbrögð þeirra aðila sem koma að starfsemi fjármálamarkaða við vandamálum verið skjót og má segja að með tilurð Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) hafi form þessara samskipta styrkst mikið."

Ársæll bendir á að nú séu þingaðilar að VÞÍ skuldbundnir af reglum þingsins auk þess að starfa undir eftirliti FME. VÞÍ hafi sett þingaðilum siðareglur þar sem m.a. er tekið á þáttum eins og heiðarleika og sanngirni, bestu framkvæmd, upplýsingaskyldu og svo hagsmunarárekstrum og misnotkun á aðstöðu. Þá hafi FME með leiðbeinandi tilmælum skilgreint nánar þann ramma sem bankar og verðbréfafyrirtæki verði að starfa eftir.

"Í tilmælum FME er skýrt tekið á málefnum starfsmanna þessara fyrirtækja og er tilgangur reglnanna að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfsemi fjármálafyrirtækja og draga úr hættu á hlutdrægni við meðferð og afgreiðslu mála.

Í grein 4.1.8. í tilmælunum FME er svo fjallað sérstaklega um starfsmenn í ráðgjöf og greiningu og þar er skýrt tekið fram að starfsmönnum er óheimilt að nýta sér innri greiningu fyrirtækis til að hagnast persónulega í verðbréfaviðskiptum ef niðurstöður greiningar eru öðrum viðskiptamönnum ekki aðgengilegar, "þó þær byggi alfarið á opinberum upplýsingum, enda falla greiningar sem byggja á trúnaðarupplýsingum undir ákvæði IV. kafla laga um verðbréfaviðskipti."

Ofangreind atriði sýna í okkar huga að mjög skýrt er tekið á í núverandi reglum um hugsanlega hagsmunaárekstra sem geta komið upp annars vegar milli fjárfestis og fjármálastofnunar og hins vegar milli hagsmuna fjárfestis og persónulegra hagsmuna starfsmanna fjármálastofnunarinnar.

Varðandi umræðuna sem á sér stað í Bandaríkjunum þá er hún nauðsynleg, sérstaklega í ljósi þeirra mála sem upp hafa komið varðandi hagsmunaárekstra fjárfesta og fagaðila. Það er sjálfsagt að bæta þessari umræðu við okkar eigin en í okkar huga eru aðstæður þar ekki sambærilegar við aðstæður hér," segir Ársæll.

Verklagsreglur íslenskra fjármálafyrirtækja taka á flestum þáttanna

Almar Guðmundsson, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, segir flest þeirra atriða sem bandarísku reglurnar taka til í raun snerta verklagsreglur innan íslenskra fjármálafyrirtækja, sem þurfa samþykki Fjármálaeftirlitsins.

"Að mínu mati fela lágmarkskröfur FME um efni verklagsreglna í dag í sér flest þau atriði sem eru til umfjöllunar í Bandaríkjunum núna. Reglunum er einmitt ætlað að taka á atriðum er varða mögulega hagsmunaárekstra. Í einhverjum tilvikum kynni að vera ástæða til að hnykkja nákvæmar á atriðum er varða greiningardeildir en mér sýnist að þær reglur sem við höfum starfað eftir í Greiningu ÍSB séu í samræmi við tillögur NYSE og NASD."

Almar nefnir að þóknanir til starfsmanna greiningardeilda, sem tengjast verðbréfaviðskiptum bankans hafi aldrei viðgengist í Íslandsbanka eða hjá öðrum hérlendis.

"Í þessu felast augljósir hagsmunaárekstrar sem tekið er á í lágmarkskröfum FME. Það er í raun ótrúlegt að þetta hafi viðgengist í Bandaríkjunum."

Hvað varðar útgáfu greiningar í kjölfar hlutafjárútboðs segir Almar það reglu innan bankans að gefa ekki út greiningar fyrst um sinn þegar um er að ræða frumútboð í umsjón Íslandsbanka þrátt fyrir að ekki sé fjallað um það með beinum hætti af hálfu FME. Hann segist þeirrar skoðunar að gefi greiningardeild umsjónaraðila útboðs út greiningu um félag skömmu eftir útboð eða á meðan á því stendur, beri að taka það skýrt fram að viðkomandi fjármálafyrirtæki hefur hagsmuna að gæta.

Almar vitnar líkt og Ársæll í reglu 4.1.8 í leiðbeinandi tilmælum FME í sambandi við hömlur á því að starfsmaður greiningardeildir gefi út greiningu á fyrirtæki eftir að hann hefur keypt eða selt bréf í því.

Greiningardeild Kaupþings kaus að tjá sig ekki um málið.

Af umsögnum íslenskra aðila má ráða að þær breytingar sem fyrirhugaðar eru í Bandaríkjunum séu margar hverjar þegar um garð gengnar hérlendis. Frjálsræðið sem bandaríski markaðurinn hefur búið við hefur nú verið tekið til endurskoðunar og vitanlega munu einhverjir því fylgjandi og aðrir mótfallnir. Hvort breytingarnar verða hinum almenna fjárfesti til hagsbóta mun tíminn leiða í ljós.

soffia@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.