Varnarsamstarf EB: Ísland, Tyrkland og Noregur taki þátt Utanríkisráðherrar Evrópubandalagsins (EB) samþykktu á fundi sínum í Lúxemborg í fyrrakvöld að leita leiða til að Ísland, Noregur og Tyrkland verði þátttakendur í auknu varnarsamstarfi Evrópuríkja.

Varnarsamstarf EB: Ísland, Tyrkland og Noregur taki þátt Utanríkisráðherrar Evrópubandalagsins (EB) samþykktu á fundi sínum í Lúxemborg í fyrrakvöld að leita leiða til að Ísland, Noregur og Tyrkland verði þátttakendur í auknu varnarsamstarfi Evrópuríkja. Að sögn Sveins Björnssonar, skrifstofustjóra utanríkisráðuneytisins, er athyglisvert að þessi yfirlýsing skuli koma nú frá Evrópubandalaginu. Hann segir að hugmyndir í þessa veru hafi verið ræddar innan ráðuneytisins og að óbeint sé að þeim vikið í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis sem lögð var fram í nóvember á síðasta ári.

Utanríkisráðherrafundur EB í Lúxemborg var sá fyrsti sem eingöngu snýst um varnar- og öryggismál. Samkomulag varð um að bandalagið yrði fyrr eða síðar að hefja varnarsamstarf fyrst á annað borð væri búið að ákveða að mótun utanríkisstefnu yrði sameiginleg. Ekki er ljóst hvenær varnarsamstarf EB hefst né með hvaða hætti það verður. Rætt er um aðlögunartímabil sem vari fram að aldamótum. Einnig vilja margir að VesturEvrópusambandið, varnarbandalag níu EB-ríkja af tólf, gegni auknu hlutverki í öryggissamstarfi Vestur-Evrópuríkja.

Sveinn Björnsson bendir á að í skýrslu utanríkisráðherra sé vikið að þessu efni. Í inngangskafla sem heitir "Aðlögun að breyttum aðstæðum" er fjallað um varnar- og viðskiptahagsmuni Íslands: "Í varnarmálum hefur mikilvægi tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna aukist, en jafnframt er það Evrópubandalagið, sem er orðið stærsti markaðurinn fyrir íslenskar útflutningsvörur. Ólíkt því sem gerist meðal bandamanna í VesturEvrópu, þar sem horfur eru á frekari samtvinnun efnahagssamstarfs og samvinnu á sviði öryggismála, er nú hætt við að þessir tveir þættir íslenskrar utanríkisstefnu greinist að í auknum mæli."

Í skýrslunni segir að tveir möguleikar séu hugsanlegir að minnsta kosti. Annars vegar taki Evrópubandalagið við hlutverki Atlantshafsbandalagsins og þá stæðu Íslendingar frammi fyrir "afar erfiðu vali" en hlytu þó að taka tillit til þess að "öryggi landsins yrði tæpast tryggt í varnarsamstarfi með ríkjum Evrópubandalagsins einvörðungu". Þó sé líklegri sá kostur að EB-ríki sjái sér áfram hag í varnarsamstarfi við ríki NorðurAmeríku á vettvangi NATO þrátt fyrir að Evrópa taki meiri ábyrgð á eigin vörnum. Nauðsynlegt sé hins vegar að "Ísland leggi á það ríka áherslu í samskiptum við ríki Evrópubandalagsins að óeðlilegar tálmanir verði fjarlægðar í viðskiptum ríkja, sem samleið eiga í öryggis- og varnarmálum,..."

Sjá frétt á bls?