Bandaríkin: Þriðja flugfélagið á barmi gjaldþrots Florída. Frá Atla Steinarssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. BANDARÍSKA flugfélagið Midway óskaði á mánudagskvöld eftir greiðslufresti á skuldum sínum í samræmi við lög um gjaldþrot.

Bandaríkin: Þriðja flugfélagið á barmi gjaldþrots Florída. Frá Atla Steinarssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

BANDARÍSKA flugfélagið Midway óskaði á mánudagskvöld eftir greiðslufresti á skuldum sínum í samræmi við lög um gjaldþrot. Midway er þriðja flugfélagið í Bandaríkjunum sem leitar slíkrar leiðar út úr fjárhagsvanda sem sagður er til kominn vegna hækkandi eldsneytisverðs í upphafi átakanna við Persaflóa og tekjuhruns vegna hræðslu flugfarþega við stríðsátök og skemmdarverk. Hin félögin tvö sem fengið hafa greiðslufrest á skuldum eru Pan Am og Continental.

Erfiðleikarnir sem átökin við Persaflóa sköpuðu flugfélögunum knésettu fjórða bandaríska flugfélagið, Eastern, endanlega í janúar sl. en það hafði þá mánuðum og árum saman barist við fjallháan skuldabagga.

Forráðamenn Midway-félagsins segja eignir þess nema 7,8 milljónum dollara en skuldirnar 22,5 milljónum dollara. Þeir segjast enn bjartsýnir á að félagið geti unnið sig út úr vandanum, því flugfargjöld fari nú hækkandi, eldsneytisverð lækkandi og farþegum fjölgi ört eftir lok styrjaldarinnar við Persaflóa.

Midway hefur aðalstöðvar í Chicago en flýgur til 53 staða í Bandaríkjunum, Virgineyjum og Bahamaeyjum. Starfsmenn þess eru 5.700 talsins, þar af 1.600 í Chicago.

Eins dauði er annars brauð. Vegna beiðninnar um greiðslufrest á skuldum féllu hlutabréf í Midway um þriðjung í verði. Hlutabréf United Airways hækkuðu hins vegar um rúma fimm dollara hvert bréf og hlutabréf í American Airways um rúma tvo dollara.

Ýmis önnur bandarísk flugfélög eiga í miklum fjárhagsvanda og hafa einna helst bjargað sér frá mánuði til mánaðar og með sölu flugvéla.