Skilyrði fyrir þátttöku s-afrískra íþróttamanna á Ólympíuleikunum í Barcelona: Sameini samtök sín á hálfu ári Jóhannesarborg. Reuter.

Skilyrði fyrir þátttöku s-afrískra íþróttamanna á Ólympíuleikunum í Barcelona: Sameini samtök sín á hálfu ári Jóhannesarborg. Reuter.

ALÞJÓÐA Ólympíunefndin (IOC) veitti Suður-Afríkumönnum hálfs árs frest í gær til þess að sameina margskipta íþróttahreyfingu landsins undir einum hatti ef þeir vildu eiga von um að geta tekið þátt í Ólympíuleikunum í Barcelona á næsta ári.

Sérstök sendinefnd IOC hefur kynnt sér ástand íþróttamála í Suður-Afríku undanfarna daga og þær tilslakanir sem F.W. de Klerk forseti hefur gert á aðskilnaðarstefnu stjórnar hvíta minnihlutans. Átti nefndin meðal annars fund með de Klerk en hann hefur heitið því að í júni verði búið að uppræta öll lög um kynþáttaaðskilnað, sem er ein af forsendum þess að Suður-Afríkumenn fái á ný aðild að hinni alþjóðlegu íþróttahreyfingu.

Nefndin hrósaði þeim framförum sem orðið hefðu og sagði að nú þegar yrði sérstökum samtökum (INOCSA), sem stofnuð hefðu verið í þeim tilgangi að sameina fimm megin íþróttasamtök landsins undir einum hatti, veitt bráðabirgðaaðild að IOC. Yrði INOCSA að uppfylla ákvæði Ólympíusáttmálans og taka upp samband við og öðlast viðurkenningu annarra afrískra blökkumannaríkja.

Boltinn er því hjá SuðurAfríkumönnum sjálfum en deilur hafa verið á milli íþróttasamtaka landsins um sameiningu og réttmæti þess að hraða sameinginu þeirra í því skyni að geta keppt á Barcelona-leikunum sumarið 1992. Eftir að sendinefnd IOC hafði birt skilyrði sín í gær sögðust þrenn íþróttasamtök blökkumanna og ein samtök hvítra reiðubúin til tafarlausrar sameiningar. Er þá aðeins eftir ein íþróttasamtök hvítra sem sagst hafa vilja fara hægt í sakirnar.