Biflíumyndir Myndlist Eiríkur Þorláksson Það kann að vera tilviljun að sýningu Ragnars Stefánssonar í Gallerí einn einn við Skólavörðustíg ber upp á páska.

Biflíumyndir Myndlist Eiríkur Þorláksson Það kann að vera tilviljun að sýningu Ragnars Stefánssonar í Gallerí einn einn við Skólavörðustíg ber upp á páska. Þó er það ólíklegt; sú nákvæmni sem kemur fram í úrvinnslu verkanna, inntak þeirra og titlar gefa berlega til kynna, að þetta sé nákvæmlega sá tími sem þeim var ætlaður.

Ragnar hefur komið nokkuð óvenjulega leið inn í myndlistina, því að hann hafði numið húsgagnasmíði og starfaði um fimm ára skeið við smíði stoðtækja og gervilima áður en hann tók til við myndlistarnám, fyrst í MHÍ og síðan í School of Visual Arts í New York. Það var ljóst á fyrstu einkasýningu hans, sem var haldin í FÍM-salnum 1989, að verktæknin var honum hugleikin. Hana nýtti Ragnar til að skapa vélræn, tignarleg verk, sem eru ólík flestu sem aðrir myndlistarmenn samtímans eru að fást við. Hérlendis er helst að verk hans minni á vinnu Magnúsar Tómassonar, sem hefur einnig nýtt sér málma og vélræna úrvinnslu þeirra til að setja fram óvenjulega myndhugsun; erlendis hafa listamenn eins og Donald Judd verið þekktir boðberar hárnákvæmra vinnubragða við frágang og samsetningu grípandi rýmisverka úr málmum.

Sýninguna í Gallerí einn einn nefnir Ragnar "Biflíumyndir". Sú stafsetning er valin af ráðnum hug, því listamaðurinn telur heiti hinnar helgu bókar myndrænna þannig en ritað á hefðbundin hátt, og þar sem verkin eru á vissan hátt myndræn túlkun orða og hugsana úr því riti, verður þetta val að teljast viðeigandi hér.

Sýningin samanstendur af þremur verkum; tvö þeirra ("Þú skalt ekki" og "Þarna") standa andspænis hvort öðru þegar komið er inn um dyr sýningarsalarins, og mynda eins konar hlið, helgan inngang; á vegg andspænis er síðan stærsta verkið, "Hugboð", í stöðu hins helgasta, eins konar altaris.

Verk Ragnars byggjast á afar vélrænni endurtekningu, þó með þeim örlitla mismun, sem gefur hverju fyrir sig eigin hljóm. Hér kemur bakgrunnur og listhugsun Ragnars til skjalanna. Á örlitlu skýringarblaði sem liggur frammi segir listamaðurinn m.a. eftirfarandi: "Ég er reynslu minnar vegna mun tengdari Baader fiskflökunarvél en Winsor olíulittúpu. Mér fyndist eðlilegast að geta staðið við vél og raðsmíðað myndlist með smátilbrigðum frá hinu dulda og óþekkta. Helst ætti verðandi eigandi að geta sett hana saman sjálfur í stofunni heima hjá sér."

Það eru þessi smátilbrigði, tilvísanir í aðra veröld og gildi hins dulda og óþekkta, sem greina verkin frá hefðbundnari málmskúlptúr, og flytja þau jafnvel á svið hugmyndalistar. Ein tilvísun er í Biblíuna (Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns) og tengir um leið hin verkin við sömu hugsun. Þetta er allt gert á sem einfaldastan hátt, því þá skyggir ekkert á samband áhorfanda og listaverks. Þetta markmið Ragnars kemur einnig fram á skýringarblaðinu: "Inntakið er sprottið úr þeim neista sem er innsti kjarni okkar allra. Þegar hann er tjáður á sem einfaldastan og hreinastan hátt verður til erting milli hins ópersónulega og vélvædda annars vegar og hins kyrra og hljóða hins vegar ... Myndlistarsýning er andleg upplifun ..."

Páskarnir eru ein helsta trúarhátíð kristinna manna um allan heim. Því miður hefur páskahátíðin hér á landi um árabil einkennst meira af skefjalausu kaupæði vegna ferminganna en af trúarlegri íhugun, og virðast alvarlegar áminningar presta litlu geta breytt þar um. Því er tæpast við því að búast að ein lítil myndlistarsýning geti frekar beint fólki til trúarinnar - en það má þó alltaf reyna, einkum ef listin nálgast trúna úr óvenjulegri átt.

Sýningu Ragnars Stefánssonar í Gallerí einn einn lýkur 4. apríl.

Ragnar Stefánsson