Bankamenn merkja af aukinni eftirspurn eftir lánsfé að þensluskeið sé að hefjast: Ávöxtunarkrafa bankabréfa er nú orðin 8% BANKAMENN merkja að þensluskeið sé að hefjast, m.a. á aukinni eftirspurn eftir útlánum og þróun gjaldeyrisviðskipta.

Bankamenn merkja af aukinni eftirspurn eftir lánsfé að þensluskeið sé að hefjast: Ávöxtunarkrafa bankabréfa er nú orðin 8%

BANKAMENN merkja að þensluskeið sé að hefjast, m.a. á aukinni eftirspurn eftir útlánum og þróun gjaldeyrisviðskipta. Jafnframt hafa raunvextir verið að hækka á verðbréfamarkaði og eru ástæður þess meðal annars taldar fjárþörf húsnæðislánakerfisins, mikið framboð húsbréfa og annarra skuldabréfa, ásamt versnandi lausafjárstöðu bankakerfisins. Raunávöxtun bankabréfa hefur t.d. hækkað frá áramótum og er nú allt að 8% en sala þeirra hefur verið lítil það sem af er árinu miðað við sama tíma í fyrra.

"Okkur virðist að aukin útlán fari fyrst og fremst til heimilanna og það heyrist einnig af töluverðum innflutningi og sölu á varanlegum munum og neysluvörum," sagði Valur Valsson formaður Sambands íslenskra viðskiptabanka.

Þá hefur framboð á skuldabréfum aukist á á verðbréfaþingi sem hefur valdið hækkun raunvaxta. Þannig er ávöxtunarkrafa húsbréfa nú 7,9% og bankar hafa boðið bankabréf með allt að 8% vöxtum. Eiríkur Guðnason stjórnarformaður Verðbréfaþings Seðlabankans sagði að Seðlabankinn hefði undanfarið keypt heldur meira af spariskírteinum ríkissjóðs en hann hefði selt og því hefði ávöxtunarkrafa þeirra verið hækkuð í 7,25%.

Ragnar Önundarson, hjá Íslandsbanka, sagði, að Íslandsbanki hefði selt bankabréf fyrir um 200 milljónir frá áramótum. "Bankinn heldur aftur af sér í þeim efnum vegna þess að ávöxtunarkrafan er komin í 8%. Kaupendur vilja heldur kaupa húsbréf og atvinnutryggingasjóðsbréf á sambærilegri ávöxtun. Við getum ekki tekið inn fé á 8% ávöxtun og lánað út á 6,5-8,25% sem eru útlánsvextir bankans. Þetta er komið í þær hæðir að bankabréf nýtast okkur ekki nema með því að hækka almenna útlánsvexti. Við höfum áður lýst því yfir að við munum halda okkar vöxtum óbreyttum fram á vor enda hafa engar þær breytingar orðið í verðlagsforsendum sem réttlæta almennar breytingar á óverðtryggðum vöxtum. Hins vegar er þróunin nú augljós staðfesting á því sem við höfum sagt að ríkissjóður og stofnanir sem starfa með ábyrgð ríkissjóðs ráða raunvaxtastiginu í landinu. Bankarnir ráða þar engu um."

Már Guðmundsson efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra sagði að ástæður þessarar raunvaxtahækkunar væri aðallega húsbréfakerfið og versnandi lausafjárstaða bankanna. Eiríkur Guðnason tók undir þessar skýringar en sagðist þó telja, að þarna væri um skammtímasveiflu að ræða, og hvatti eigendur húsbréfa að bíða með að selja þau.

Alþingi samþykkti nýlega lánsfjárlög þar sem áform eru um verulega innlenda lántöku. Már Guðmundsson sagði að raunvaxtahækkun nú kæmi lántökuákvörðunum ríkisins ekkert við. Áform ríkisins væru aðeins tölur á blaði en gerðirnar hefðu áhrif á lánsfjármarkaðinn. Hann benti á, að ríkið hefði ekkert breytt vöxtum á spariskírteinum frá áramótum. Það væri ávöxtunarkrafan á Verðbréfaþingi Seðlabankans sem hefði hækkað og ríkið hefði engin áhrif á það.