Ríkið kaupir SS-húsið: Kjötvinnsluhúsið nýtt fyrir listastarfsemi RÍKISSJÓÐUR keypti í gær stórhýsi Sláturfélags Suðurlands við Laugarnesveg og þar verður í framtíðinni miðstöð æðri listmenntunar.

Ríkið kaupir SS-húsið: Kjötvinnsluhúsið nýtt fyrir listastarfsemi

RÍKISSJÓÐUR keypti í gær stórhýsi Sláturfélags Suðurlands við Laugarnesveg og þar verður í framtíðinni miðstöð æðri listmenntunar. Kaupverðið er 430 milljónir en þar af greiðir ríkið 300 milljónir með tíu fasteignum. Brunabótamat SS-hússins er um 670 milljónir króna.

SS-húsið er 4.375 fermetrar að grunnfleti, en gólfflötur er 10.295 fermetrar og það er um 50 þúsund rúmmetrar. Brunabótamat þess er um 670 milljónir en söluverðið er 430 milljónir. Ríkið greiðir 300 milljónir með ýmsum fasteignum, 50 milljónir eru staðgreiddar og 80 milljónir verða greiddar með tveimur skuldabréfum, öðru til þriggja og hinu til sjö ára. Ólafur Ragnar Grímsson, fjármálaráðherra, og Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, undirrituðu samninginn í gær en í gærkveldi staðfestu stjórnarmenn SS samninginn á Hvolsvelli.

Eignirnar sem SS tekur upp í söluna eru tíu talsins. Í Reykjavík er það húseignin að Engjateigi 1, þar sem Dansstúdíó Sóleyjar er til húsa. Húseigin að Súðarvogi 6, þar sem Rækjuverksmiðja Ingimundar var, gamla fangelsið að Síðumúla 24-26, tólf ára gamall grunnur að fangelsi sem er að Tunguhálsi 6 og hluti tveggja hæða nýlegs skrifstofuhúsnæðis að Funahöfða 7. Í Kópavogi er það húsið við Fannborg 6, sem var í eigu Hagvirkis. Gamla Kjarvalshúsið að Sæbraut 1 á Seltjarnarnesi gengur einnig upp í kaupverðið. Íbúðarhúsin að Álfaskeiði 50 í Hafnarfirði og Aratúni 26 í Garðabæ ganga einnig upp í kaupin svo og íbúðarhúsið að Hæðargötu 15 í Njarðvík.

Í framtíðinni á SS-húsið að hýsa meginhluta starfsemi Leiklistarskóla Íslands, Mynlista- og handíðaskóla Íslands og Tónlistarskóla Reykjavíkur. Að auki er líklegt að Listdansskóli Þjóðleikhússins fái þar inni og hugsanlega fær Þjóðleikhúsið afnot af húsinu fyrir verkstæði og geymslu. Ekki verður þó flutt strax í húsið því mikið á eftir að gera áður en hægt verður að hefja þar starfsemi og er reiknað með að það kosti um 300 milljónir.

"Það eru vissulega blendnar tilfinningar sem fylgja því að selja þetta hús, sem átti að hýsa aðalstöðvar og kjötvinnslu SS. Við höfum lagt alla okkar alúð í byggingu þess og beðið með óþreyju eftir að flytja hingað. En tímarnir breytast og aðstæður einnig," sagði Steinþór Skúlason, forstjóri SS. Hann óskaði nýjum eigendum til hamingju með húsið og sagðist fullviss að þar yrði miðpunktur lista í landinu.

Steinþór sagði í samtali við Morgunblaðið að þetta væru á vissan hátt nauðasamningar. "Það er viss neyð að hafa aðeins einn viðsemjanda í fasteignaviðskiptum, en að öðru leyti eru þetta ekki nauðasamningar. Fasteignirnar sem við tökum upp í henta okkur reyndar ekki og verða því allar settar á sölu," sagði Steinþór.

Menntamálaráðherra sagði þetta stóra stund. "Þetta er mikil stund fyrir mig og fleiri sem höfum mænt hingað inn á Laugarnesið um nokkurra missera skeið. Hús þetta hefur gengið undir nafninu SS-húsið en því hefur ekki enn verið gefið nafn. Í mínum huga heitir það Listahúsið í Laugarnesi, eða LL-húsið," sagði Svavar Gestsson.

Bjarni Daníelsson, skólastjóri Myndlista- og handíðaskóla Íslands, sagði að þetta væri einn merkasti atbuður í sögu lista á Íslandi í áratugi og Magnús Árni Magnússon, fulltrúi nemenda, sagði að nemendur hefðu brugðist skjótt við, enda búnir að bíða lengi eftir viðundandi húsnæði, og stofnað Nemendafélag væntanlegs listaháskóla Íslands.

Í dag verður opið hús frá klukkan 14 til 17 þar sem nemendur og kennarar Leiklistarskólans, Myndlista- og handíðaskólans og Tónlistarskólans í Reykjavík munu láta "kjötvinnslustöðina iða af lífi í samræmi við þá framtíð sem nú blasir við", eins og segir í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Morgunblaðið/Júlíus

SS-húsið sem hýsa mun æðri listamenntun í landinu á komandi árum.

Funahöfði 7 Reykjavík.

Tunguháls 6 Reykjavík.

Súðarvogur 6 Reykjavík.

Álfaskeið 50 Hafnarfirði.

Sæbraut 1 Seltjarnarnesi.

Aratún 26 Garðabæ.

Engjateigur 1 Reykjavík.

Fannborg 6 Kópavogi.

Síðumúli 24-26 Reykjavík.

Hæðargata 15 Njarðvík.