Hlutabréf Bók um hlutabréfamarkaðinn á Íslandi er komin út NÝLEGA kom út bók með upplýsingum um þróun, stöðu og framtíð hlutabréfamarkaðar á Íslandi. Í bókinni eru m.a. erindi sem haldin voru á ráðstefnu Verðbréfamarkaðs Íslandsbanka um...

Hlutabréf Bók um hlutabréfamarkaðinn á Íslandi er komin út

NÝLEGA kom út bók með upplýsingum um þróun, stöðu og framtíð hlutabréfamarkaðar á Íslandi. Í bókinni eru m.a. erindi sem haldin voru á ráðstefnu Verðbréfamarkaðs Íslandsbanka um hlutabréfaviðskipti á Íslandi í tilefni 5 ára afmælis Hlutabréfamarkaðarins hf., HMARKS, síðastaliðið haust. VÍB annast rekstur og framkvæmdastjórn HMARKS og sá um útgáfu bókarinnar ásamt Framtíðarsýn hf.

Þeir sem fluttu erindi á ráðstefnunni voru Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Granda, Baldur Guðlaugsson, stjórnarformaður HMARKS, Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Eimskips, Svanbjörn Thoroddsen, deildarstjóri hlutabréfaviðskipta hjá VÍB, Sigurður B. Stefánsson, framkvæmdastjóri VÍB og Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins.

Í bókinni Hlutabréfamarkaður á Íslandi" eru erindin birt í fullri lengd ásamt myndefni sem fylgdi þeim. Þar er leitað svara við ýmsum spurningum varðandi íslenskan hlutabréfamarkað. Að auki eru í bókinni erindi Árna Vilhjálmssonar um mótun reglna um starfsemi hlutabréfamarkaðar, sem hann flutti á aðalfundi HMARKS í maí á síðasta ári og viðauki með margvíslegu talnaefni sem ekki hefur verið gefið út áður. Viðaukinn inniheldur m.a. upplýsingar um gengi hlutabréfa einstakra fyrirtækja árin 1987 til 1990, raunávöxtun hlutabréfa á þessum árum, eiginfjárhlutfall einstakra atvinnugreina á Íslandi á síðasta áratug, dreifingu hlutafjár einstakra helstu almenningshlutafélaga og útgáfu nýrra hlutabréfa á árunum 1971 til 1990.

Í frétt frá VÍB segir að tilgangurinn með útgáfu bókarinnar sé að gefa fólki kost á að nálgast á auðveldan hátt upplýsingar um íslensk hlutafélög, hlutabréf þeirra og viðskiptaumhverfið. Bókin fæst í helstu bókaverslunum landsins, en einnig má panta hana hjá Framtíðarsýn hf. í síma 91678263.

HLUTABRÉFA-

MARKAÐUR Bók um hlutabréfamarkaðinn á Íslandi er nýkomin út. Í henni er að finna erindi ýmissa fróðra manna um íslenska hlutabréfamarkað, stöðu hans, þróun og framtíð.