Iðnaður Versnandi afkoma Hoogovens Hoogovens, hollenska fyrirtækið í Atlantal- hópnum, birti nýlega ársreikning 1990. Hreinn hagnaður Hoogovens á síðasta ári varð 298 milljónir gyllina (9,4 milljarðar króna).

Iðnaður Versnandi afkoma Hoogovens Hoogovens, hollenska fyrirtækið í Atlantal- hópnum, birti nýlega ársreikning 1990. Hreinn hagnaður Hoogovens á síðasta ári varð 298 milljónir gyllina (9,4 milljarðar króna). Velta fyrirtækisins var 8,7 milljarðar gyllina (274 milljarðar króna). Hagnaðurinn minnkaði um 60% milli ára og veltan um 9,3%. Hreinn hagnaður af reglulegri starfsemi varð 292 milljónir gyllina og minnkaði um 114 milljónir gyllina frá fyrra ári. Óreglulegir liðir skýra því að þremur fjórðu hlutum lækkun heildarhagnaðar. Í skýrslu Hoogovens er spáð talsvert minni hagnaði á þessu ári.

Rekstrarhagnaður fyrir skatta varð 660 milljónir gyllina (20,8 milljarðar króna). Þar af skilaði álframleiðsla 127 milljónum gyllina og stálframleiðsla 230 milljónum gyllina. Almenn verðlækkun málma olli því að hagnaður af álframleiðslu varð rúmlega þriðjungi minni en 1989. Hagnaður af stálframleiðslu minnkaði hins vegar um meira en helming, þótt hráefnisverð héldist óbreytt.

Hoogovens ætlar að minnka arðgreiðslur til hluthafa um tæplega fjórðung. Þrátt fyrir það hækkaði verð á hlutabréfum fyrirtækisins þegar ársreikningurinn var lagður fram. Fjárfestar höfðu búist við mun lakari afkomu á síðasta ári og flestir reiknuðu með tapi á þessu ári.

Sérfræðingar hafa skiptar skoðanir um stöðu Hoogovens. Sumir telja útlitið bjart úr því fyrirtækið hagnaðist á ári almenns samdráttar. Aðrir benda á að Hoogovens hafi áður skellt skuldinni á Persaflóastríðið. Nú sé hins vegar talað um þróun til hins verra. Í skýrslu fyrirtækisins er spáð vaxandi erfiðleikum í stálframleiðslu og verðlækkun á álmörkuðum.