Landbúnaður Birgðavandamál hjá MF vegna góðrar tíðar Hvolsvelli. AÐALFUNDUR Mjólkurbús Flóamanna var haldinn í Njálsbúð þriðjudaginn 19. mars sl. Á fundinum kom fram að staða mjólkurbúsins er mjög góð.

Landbúnaður Birgðavandamál hjá MF vegna góðrar tíðar Hvolsvelli.

AÐALFUNDUR Mjólkurbús Flóamanna var haldinn í Njálsbúð þriðjudaginn 19. mars sl. Á fundinum kom fram að staða mjólkurbúsins er mjög góð. Hið góða tíðarfar ársins 1990 leiddi til aukinnar framleiðslu seinni hluta ársins og því eru miklir fjármunir bundnir í birgðum. Að öðru leyti er lausafjárstaða fyrirtækisins góð.

Þá kom fram að flutningskostnaður á mjólkurlítra var sá sami í krónum talið 1990 og 1989 og lækkaði því um 0,4% milli ára. Veltufjárhlutfall var 1,73 árið 1989 en er 1,66 árið 1990.

Á svæði mjólkurbúsins eru nú 512 kúabú og hefur þeim fækkað um helming á síðustu 30 árum. Hins vegar hefur mjólkurframleiðslan aukist um 10 millj. lítra á sama tima.

Í máli bænda kom fram að nokkur uggur er í mönnum vegna mjólkurkvótans. Á fyrri hluta síðasta árs var útlit fyrir að skortur yrði á mjólk og fengu bændur þá leyfi til að framleiða 15% uppí kvóta ársins 1991. Hið góða tíðarfar á sl. ári gerði það að verkum að framleiðslan jókst verulega, og nú hafa bændur framleitt meira en ráð var fyrir gert. Því óttast margir að síðasta hluta ársins verði fjöldi bænda búinn með kvóta sinn. Þá telja bændur á Suðurlandi, að svæðið í heild hafi heldur lítinn kvóta og að eitthvað þurfi að gera í þeim málum svo ekki komi til mjólkurskorts. Á fyrri hluta síðasta árs keypti MBF nokkurt magn af mjólk annars staðar frá.

Á fundinum kom fram almenn ánægja með hina góðu afkomu mjólkurbúsins. Að loknum kosningum og venjulegum aðalfundarstörfum voru flutt fræðsluerindi frá Mjólkursamsölunni og Osta- og smjörsölunni, og nýi búvörusamningurinn kynntur. Í máli manna kom fram að það væri stöðug barátta að koma með nýjar vörur og að ná stærri markaði. Þá benti Magnús á Lágafelli á að MS-ís úr vélum væri aðeins hægt að fá á einum stað á Suðurlandi en það væri í Fossnesti. Þetta væri markaður sem vert væri að huga betur að því þetta væri besta leiðin til að koma mjólkurafurðum í fólk með brosi á vör.

Minnst var á skýrslu sem kynnt verður síðar en hún fjallar m.a. um stöðu mjólkurbúa á landinu. Þar kemur m.a. fram að framleiðslugeta mjólkurbúanna er allt að áttfalt meiri en framleiðslan er í dag.

­ S.Ó.K.