Verslun Deilt um tekjuskráningu póstkröfusölu vegna virðisaukaskatts VERSLUNARRÁÐ Íslands hefur sent skattrannsóknastjóra ríkisins bréf þar sem óskað er eftir því að fyrirmæli hans til fjölmargra verslunarfyrirtækja að undanförnu varðandi tekjuskráningu...

Verslun Deilt um tekjuskráningu póstkröfusölu vegna virðisaukaskatts

VERSLUNARRÁÐ Íslands hefur sent skattrannsóknastjóra ríkisins bréf þar sem óskað er eftir því að fyrirmæli hans til fjölmargra verslunarfyrirtækja að undanförnu varðandi tekjuskráningu póstkröfusendinga, verði endurskoðuð. Í bréfinu segir að með tilliti til reglna Pósts og símamálastofnunarinnar sé það ótvírætt að vara sem send er í póstkröfu teljist ekki afhent fyrr en póstkrafan hefur verið innleyst. Almennt séð álítur Verslunarráð að þá eigi söluskráning að eiga sér stað.

Skv. 8. gr. reglugerðar nr. 501/1989 um tekjuskráningu og bókhald virðisaukaskattskyldra aðila og reglugerð nr. 531/1989 um sjóðvélar skal skráning sölu í sjóðvél fara fram um leið og sala eða afhending vöru á sér stað. Skiptir ekki máli í þessu sambandi hvort um er að ræða staðgreiðsluviðskipti, afborgunar- eða lánsviðskipti, greiðslukortasölu eða póstkröfusölu. Þetta kemur fram í bréfi skattrannsóknarstjóra til Austurbakka sf. þar sem gerð er athugasemd við að póstkröfusala fyrirtækisins er ekki skráð í sjóðvél. Í bréfinu segir ennfremur að verði ekki bætt úr þessum annmörkum innan 45 daga muni lögregla verða fengin til þess að stöðva atvinnurekstur Austurbakka þar til nauðsynlegar úrbætur hafi verið gerðar.

Árni Þór Árnason, framkvæmdastjóri Austurbakka, sagðist hafa leitað eftir áliti Verslunarráðs á þessum fyrirmælum skattrannsóknarstjóra. Í kjölfarið sendi ráðið bréf til skattrannsóknastjóra þar sem óskað er eftir endurskoðun þessara fyrirmæla. Fresturinn sem ég fékk rennur út um miðjan apríl og ég er tilbúinn til þess að láta reyna á þetta og fara út í prófmál," sagði Árni Þór. Hann sagði ennfremur að í lauslegri athugun kæmi í ljós að um 20% af póstkröfum eru ekki leystar út og því óraunhæft að skrá þetta sem sölu um leið og pantað er.

Steingrímur Ari Arason, hagfræðingur hjá Verslunarráði Íslands, sagði málið snúast um það hvenær pöntuð vara sem send er með póstkröfu teljist seld og hvenær ekki. Hann sagði Verslunarráð yfirleitt halda fast í þá grundvallarreglu að vara teljist seld við afhendingu til kaupanda. Hins vegar væru til undantekningar frá þessari reglu og það væri álit ráðsins að söluskráning vöru sem send er með póstkröfu skuli eiga sér stað við greiðslu kröfunnar. Þessi niðurstaða ráðsins er m.a. fengin að teknu tilliti til ofangreindra reglna Póst og símamálastofnunar. Steingrímur sagði Verslunarráð myndi bíða fram yfir páska eftir viðbrögðum skattrannsóknarnefndar.