Afmæliskveðja: Jón Múli Árnason Heill og sæll, góði vin! Var það ekki einmitt um þessi mánaðamót árið 1946 sem Jónas I útvarpsstjóri réð þig til þularstarfa? Mig minnir það fastlega. Það hefur

þá líklega verið frá 1. degi aprílmánaðar, þegar þú varst rétt búinn að leggja fyrstu kvartöldina að baki. Síðan eru liðin 45 ár og nær allan þann tíma hefur þú lagt Ríkisútvarpinu til einn sterkasta dráttinn í andlitsmynd þess. Svo að hér varekki um neitt aprílgabb að ræða árið 1946. Í rauninni held ég að segja megi um Jónas I að hannhafi verið býsna glúrinn við mannaráðningar.

Nú eru reyndar liðin fáein ár síðan þú hættir almennum þularstörfum, en þó heyrist til þín vikulega í djassþættinum, og mun okkur mörgum þykja það mikil bót í máli. Hérlendis er enginn annar eins kunnáttumaður og þú um þá tónlistargrein, og væri maklegt að þú yrðir sæmdur prófessorsnafnbót út á þekkingu þína og fræðslu á þvísviði. Svo er ekki lítilsverð þín eigin tónsköpun. Þótt hún flokkist undir "hin léttu lögin" láta þau yfirleitt svo þægilega í eyrum, að manni glaðnar í geði. Þau verða áreiðanlega sungin áfram um ókomnar tíðir. Á sviði ljóðs og lags (og á leiksviði) hefur samstarf ykkar bræðranna, Jónasar og þín, verið sérlega skemmtilegt.

Víst væri margs að minnast frá samveru okkar í útvarpinu á fjórða áratug, en ég rifja ekki neitt af því upp hér. Frá minni hlið séð brá aldrei neinum skugga á samstarfið, semvar þó æði mikið samanlagt. Oft var líka brugðið á glettni í tilsvörum okkar í milli. Sjálfur ertu húmoristi af fyrstu gráðu og hefur ekki burðast með fýlupoka um dagana. Hinsvegar getur dottið í þig að beita stríðni og nokkrum ólíkindalátum, eins og t.d. þegar einhverjir vilja stimpla þig sem síðasta stalínistann á voru landi. Þú kippir þér lítt uppvið slíkt og hefur bara gaman af að bera í bætifláka fyrir "þann gamla".

Þetta minnir mig á að þakka þér fyrir aðalhlut þinn að því að kynna mér Garðaríki, þegar þú varst í hlutastarfi hjá MÍR árið 1964 og settir saman þriggja manna sendinefnd þangað austur, svokallaða "menningarsendinefnd" (ég set gæsalappir til vonar og vara). Þá opnaðist sæti á síðustu stundu að kalla og í það skelltirðu mér. Úr þessu varð ein bezta utanlandsreisa mín enda hafði ég hina ágætustu ferðafélaga. Minnast má þess að þann hinn sama dag sem við skoðuðum Kremlarsöfn var Krústjoff, manninum sem fletti ofan af Stalín, bolað úr sínum háa sessi þegjandi og hljóðalaust, þótt það fréttist raunar ekki opinberlega fyrr en viðvorum komnir til Leníngrað daginneftir. Nú er upp runnin önnur öld austur þar sem fær vonandi farsæla þróun áfram.

Búið er að leggja niður Varsjárbandalagið, og förum við þá ekki senn að lifa þann dag að NATO verði úr sögunni og erlent herlið hypji sig héðan á brott. Það sem fyrir augu okkar og eyru bar úr Landsímahúsinu 30. marz 1949 (daginn fyrir afmæli þitt það árið), þegar vopnlaus smáþjóð lét innlimast í hernaðarbandalag, geymist að vísu en óþarft er að viðhalda áratugum saman þeirri óværu sem af hlauzt og hefur amað þjóðlífi okkar fram yfir flest annað og sundrað þjóðareiningu.

Jón minn góður. Þessi afmæliskveðja er lítilfjörleg. Taktu viljann fyrir verkið. En berðu kveðju konu þinni og dætrum með ósk um að við lifum öll þann dag er við getum um alfrjálst höfuð strokið. Látum svo ekki EB-glýju villa okkur sýn. Kært kvaddur.

Baldur Pálmason