Guðmundur Einar Sölvason fæddist á Séttu í Séttuhreppi 9. desember 1918. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut að kvöldi 12. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Verónika Kristín Brynjólfsdóttir, f. 26.9. 1886, d. 9.1. 1981, og Sölvi Andrésson, f. 12.6. 1889, d. 23.8. 1956. Systur Guðmundar eru Herborg Arndís, maki Kristinn Lárusson, látinn, Guðrún Karítas, maki Sigurjón Guðmundsson, látinn. Fóstur- og uppeldisbræður Guðmundar voru Guðni Árnason, f. 27.9. 1927, d. 21.6. 2000, maki Agnes Steinadóttir; Guðmundur Karlsson, f. 20.3. 1932, maki Oddbjörg Kristjánsdóttir.

Guðmundur kvæntist Þóru Mörtu Þórðardóttur, f. 27.3. 1924. Foreldrar hennar voru Svanfríður Aðalbjörg Guðmundsdóttir og Þórður Matthíasson frá Ólafsvík. Börn Guðmundar og Mörtu eru: 1) Kristín Guðmunda, f. 2.8. 1946, maki Mogens Thaagaard, f. 5.4. 1948. Börn: Margrét Thaagaard, maki Óli Fjalar Böðvarsson. A: Sunna Kristín; B: Steinunn Eva, C: Móeiður Kara. Martha Ann Thaagaard, maki Paul Henriksen; Ester Björg Thaagaard maki Auðunn Ragnarsson. A: Andrea Björk; B: Emil Andri. Guðmundur Magnús Thaagaard. 2) Brynjólfur Ingi, f. 16.3. 1949, maki Guðný Björg Hallgrímsdóttir, f. 29.8. 1950. Börn: Þórdís Ósk, maki Enrique Ramon Sanches. A: Íris Hadda; B: Enrique. Birgir A: Sölvi Már. B: Arnór Ingi. Hallgrímur A: Guðný Björg. 3) Vala Steinunn.

Guðmundur ólst upp á Sléttu til níu ára aldurs. Þá flutist hann með foreldrum sínum að Tungu í Fljóti og síðar í Stakkadal.

Guðmundur lærði vélstjórn og var til sjós á sínum yngri árum. 1946 hóf hann störf hjá Ísbirninum sem vélstjóri og vann þar til áramóta 1988. Og hjá Eimi frá 1988 til 1993

Útför Guðmundar fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Í huga okkar áttu stað, sem hjartað hlúir og gætir. Fuglarnir kvaka, þeir syngja lag, um kærleikans gleði stundir. Náttúran glóir, það lýsir af þér, vorið það sameinast sumri. Lífsins yndi nú aftur er, engill í sælunnar lundi. (Þórdís Ósk Brynjólfsdóttir)

Elskulegur tengdafaðir minn er látinn. Hann sem var alltaf svo hlýr og yndislegur og alltaf tilbúinn til að rétta hjálparhönd. Mikið eigum við öll eftir að sakna hans. Orð geta ekki lýst því hvernig mér líður, en ég veit að núna líður þér vel, þar sem þú ert kominn heim til ástvinanna hinum megin. Takk fyrir góðu stundirnar, elsku tengdapabbi.

Elsku Marta mín, guð gefi þér, börnunum þínum og okkur öllum styrk til að standast þessa raun.

Hvíl í friði, Guðmundur minn.

Þín tengdadóttir

Guðný Björg.

Ástkær afi minn lést síðastliðinn föstudag á Landspítalanum við Hringbraut.

Fyrst þegar ég hugsa út í þetta allt saman, afi minn, þá verð ég að viðurkenna að ég fann meira til léttis en sorgar þegar ég fékk fréttirnar að þú værir dáinn. Það er léttir að hugsa til þess að þér líði betur núna en þína seinustu daga meðal okkar.

Ég man hvað ég hlakkaði alltaf til þegar ég og Gummi ætluðum að koma í heimsókn til þín og ömmu. Og líka alltaf á morgnana þegar ég var hjá þér og þú gerðir handa okkur hafragraut, ég fékk sykur út á minn en þú fékkst þér smá salt. Þú og amma voruð líka oft að reyna að fá okkur Gumma til þess að vakna með þér eldsnemma á morgnana til þess að fara með þér í morgunsund. Ekki tókst ykkar það oft því að við litlu grislingarnir ykkar vorum yfirleitt svo þreyttir á morgnana.

Endalaust gæti ég talið upp góðu stundirnar okkar, afi, því að án gríns þá man ég ekki eftir því að við höfum nokkurn tímann átt slæma né leiðinlega stund þegar við vorum saman.

En núna þegar ég sit hérna með tárin í augunum en er jafnframt brosandi af því að hugsa um þig, afi minn, þá langar mig að skrifa það sem ég einhvern veginn náði aldrei að segja við þig þó að ég hafi vissulega ætlað mér það: "Afi minn, ég elska þig." Megi guð og allir hans englar veita ömmu og börnum hennar styrk í þessari raun og jafnframt gæta þín, afi minn.

Hallgrímur Brynjólfsson.

Einstakur maður er farinn á vit hins óþekkta. Hlutverki hans í leikriti lífsins lokið.

Engan hef ég þekkt, sem sagði svo margt með þögninni einni saman. Fáa hef ég þekkt, með svo sterka nærveru. Skopskyn að mínu skapi, skarpt og djúpt. Jafnaðargeðið einstakt. Mótaður af stórkostlegri náttúru Hornstrandanna, þar sem nátturuöflin hafa vafalítið lagt sitt á vogarskálarnar.

Höfðingi við kveðjum þig í dag. Það er sárt. En þú hefur mótað góðar minningar í hug okkar allra. Þær munu fylgja okkur um ókomna tíð.

Við þökkum af heilum hug samfylgdina. Það eru forréttindi að eiga samleið með svo mætum manni.

Aðstandendum öllum vottum við djúpa samúð, um leið og við þökkum þeim góðan skilning á vináttunni, sem við metum mjög mikils.

Elsku Marta mín, þú mikla og mæta kona. Þú veist hvar þú hefur okkur.

Hvíl í friði. Þökk fyrir allt og allt.

Fyrir hönd fjölskyldu minnar.

Kristín E. Guðjónsdóttir.

Elsku afi og langafi. Okkur langar að segja nokkur orð og þakka þér fyrir allt sem þú gafst okkur af kærleik þínum og visku. Sá tími sem við áttum saman kemur nú skýrt fram og yljar um leið og hann kallar fram tár eigingirninnar. Nú ertu farinn í ljósið kærleiksríka og nýtur hins mikla anda á betri stað. Að gefa sig að sársaukanum er nokkuð sem er hluti af eðlilegu lífi. Öll þurfum við þennan samhljóm til að geta verið stöðugri. Dagsljósið og náttmyrkrið stíga léttan dans og það sama á við um sæluna og sorgina. Raunveruleg sæla birtist okkur ekki fyrr en við höfum tekið á sorginni hvort sem okkur líkar betur eða verr, Guð er alltaf með okkur og það huggar sárt hjartað.

Að finna friðinn innra með mér veitir mér styrk og trú á Guð. Ég þakka þér, kæri Herra, þú mikli andi fyrir allt sem þú hefur fært okkur og sýnt. Allan þann tíma sem þú gafst okkur saman, sem lifir nú áfram í ljúfsárri minningunni.

Í huga okkar áttu stað,

sem hjartað hlúir og gætir.

Fuglarnir kvaka, þeir syngja lag,

um kærleikans gleði stundir.

Náttúran glóir, það lýsir af þér,

vorið það sameinast sumri.

Lífsins yndi nú aftur er,

engill í sælunnar lundi.

(Þórdís Ósk Brynjólfsdóttir)

Elsku afi, láttu þér líða vel á nýja staðnum. Dóttir mín sagði við mig er ég útskýrði brottför þína: Hann langafi minn fór til Guðs og er nú orðinn engill. Ég er sammála henni, við lifum, þroskumst og verðum englar.

Elsku kæra amma og langamma, Guð gefi þér styrkinn og ljósið sem þú þarfnast til að takast á við þau spor sem bíða þín. Við elskum þig.

Elsku pabbi og afi, Kristín og Vala Steinunn, Guð gefi ykkur styrkinn og ljósið sem þið þarfnist til að takast á við þau spor sem bíða ykkar. Við elskum ykkur.

Þórdís Ósk Brynjólfsdóttir,

Íris Hadda Jóhannsdóttir, Enrique Ramon Sanchez,

Enrique Ramon Brynjólfs.

Guðný Björg.