Brúin yfir Hvítá var útnefnd verkfræðiafrek þriðja áratugarins. Árni Pálsson verkfræðingur hannaði brúna.
Brúin yfir Hvítá var útnefnd verkfræðiafrek þriðja áratugarins. Árni Pálsson verkfræðingur hannaði brúna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VERKFRÆÐINGAFÉLAG Íslands fagnaði í gær 90 ára afmæli félagsins og notaði tækifærið til að veita viðurkenningar fyrir athyglisverðustu verkfræðiafrek síðustu aldar, eitt fyrir hvern áratug.

VERKFRÆÐINGAFÉLAG Íslands fagnaði í gær 90 ára afmæli félagsins og notaði tækifærið til að veita viðurkenningar fyrir athyglisverðustu verkfræðiafrek síðustu aldar, eitt fyrir hvern áratug.

Þá færði félagið verkfræðideild Háskóla Íslands að gjöf fartölvu og skjávarpa og áskrift að handbókinni ENGnetBASE á tölvutæku formi.

Sjö manna nefnd valdi þrjú athyglisverðustu verkfræðiafrek hvers áratugar, alls 30 verk. Eitt var síðan valið úr sem athyglisverðasta verkfræðiafrek þess áratugar.

1901-1910 - símalögn frá Seyðisfirði til Reykjavíkur

Í ágúst 1906 var sæsímastrengur tengdur í land í Seyðisfirði. Sama ár var lögð símalína milli Reykjavíkur og Seyðisfjarðar, 614 km leið. Olav Forberg var falin skipulagning og stjórnun versksins en hann varð síðar fyrsti Landssímastjórinn og einn af stofnendum Verkfræðingafélags Íslands. Sumarið 1905 var unnið að undirbúningi verksins með merkingu línustæðis og veturinn eftir voru 14.000 staurar fluttir á hestum og dregnir út á línustæðið.

Einnig tilnefnd: Vífilsstaðaspítali og Vatnsveita úr Gvendarbrunnum.

1911-1920 - Reykjavíkurhöfn

Bæjarstjórn Reykjavíkur bauð verkið út árið 1912 og hlaut danska verkfræðifyrirtækið N.C. Monberg verkið. Vélum og búnaði sem notaður var við hafnargerðina var skipað upp við gufuskipabryggjuna í Viðey og flutt þaðan í land á tveimur prömmum. Meðal þess var eimreið, járnbrautarvagnar og spor, kranar og timbur. Grjót í hafnargarðinn var sótt í Öskjuhlíð en þangað var lagt 12 km langt járnbrautarspor. Verkinu var stjórnað af ungum dönskum verkfræðingi, N.P. Kirk. Eftirlit var í höndum Knud Zimsen borgarstjóra og verkfræðings.

Einnig tilnefnd: Holræsi í Reykjavík og Loftskeytastöðin í Reykjavík.

1921-1930 - brú á Hvítá í Borgarfirði

Brúin á Hvítá hjá Ferjukoti í Borgarfirði var byggð árið 1928. Árni Pálsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, hannaði brúna og vinnuflokkar Vegagerðarinnar byggðu hana. Þetta er bogabrú í tveimur höfum, hvort um sig 51 metri en heildarlengd brúarinnar er 106 metrar. Verkið hófst í apríl og var brúin vígð sex og hálfum mánuði síðar.

Einnig tilnefnd: Ríkisútvarpið og Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði.

1931-1940 - talsamband við útlönd

Hinn 1. ágúst 1935 var talsamband við útlönd opnað á einnar rásar stuttbylgjusambandi við London og Kaupmannahöfn. Tvær radíóstöðvar voru byggðar, sendistöð á Vatnsenda og móttökustöð í Gufunesi. Umsjón með verkinu höfðu verkfræðingarnir Guðmundur Hlíðdal og Gunnlaugur Briem.

Einnig tilnefnd: Sundhöllin í Reykjavík og Ljósafossvirkjun.

1941-1950 - Hitaveita Reykjavíkur

Árið 1933 samdi bæjarstjórn Reykjavíkur um kaup á hitaréttindum að Reykjum í Mosfellssveit og var byrjað að bora það ár. Á árunum 1939-43 var lögð hitaveita í mestan hluta byggðar í höfuðstaðnum ásamt aðalæðum frá Reykjum. Hinn 17. júní 1943 var hitaveituvatni hleypt á fyrsta húsið, Listasafn Einars Jónssonar á Skólavörðuholti. Efnahagsleg áhrif hitaveitunnar voru gríðarleg auk þess sem hún var fyrirmynd annarra hitaveitna.

Einnig tilnefnd: Rafvæðing dreifbýlis og verkfræðikennsla við Háskóla Íslands.

1951-1960 - Áburðarverksmiðjan

Lög um áburðarverksmiðju gengu í gildi árið 1949 en grundvöllur fyrir framkvæmdum fékkst skömmu síðar með Marshall-aðstoðinni. Bandarískir verkfræðingar sáu um skipulagningu verksmiðjunnar og hönnun framleiðsluferla en Almenna byggingarfélagið hf. sá um verkfræðilega hönnun allra mannvirkja og annaðist byggingaframkvæmdir. Verksmiðjan tók til starfa árið 1954.

Einnig tilnefnd: Miklabraut í Reykjavík og Sementsverksmiðjan.

1961-1970 - Búrfellsvirkjun

Með Búrfellsvirkjun var jökulvatn í fyrsta skipti virkjað. Til að tryggja rekstur hennar voru gerð sérstök ísfleytimannvirki til að flytja ís sem myndaðist í ánni við ákveðin veðurskilyrði fram hjá inntaki virkjunarinnar. Þessi mannvirki áttu sér enga fyrirmynd. Bandaríska verkfræðifyrirtækið Harza Engineering sá um hönnun og útboð en Fosskraft, sem var samsteypa Almenna byggingarfélagsins, Phil & Sön og Skanska, var aðalverktaki.

Einnig tilnefnd: Reykjanesbraut og Laugardalshöll.

1971-1980 - Svartsengi

Orkuverið í Svartsengi var fyrsta orkuver sinnar tegundar í heiminum. Það notar heitan jarðsjó til upphitunar á ferskvatni, sem síðan er notað til upphitunar á húsum, átti sér ekki hliðstæðu og finna þurfti lausn á flóknum tæknilegum vandamálum. Orkuverið var byggt með hugviti, rannsóknum, þróun og hönnun íslenskra tæknimanna.

Einnig tilnefnd: Skyggnir ásamt millilandasímstöð og brýr á Skeiðarársandi.

1981-1990 - Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Embætti Húsameistara ríkisins sá um mótun hússins í samvinnu við bandarískt ráðgjafafyrirtæki varðandi fyrirkomulag og flæði í byggingunni. Byggingin er formsterk og þykir fara einkar vel í auðninni þar sem hún er staðsett, glæsilegt mannvirki og dæmi um verkmenningu þjóðarinnar.

Einnig tilnefnd: Nesjavallavirkjun og Sundahöfn.

1991-2000 - Hvalfjarðargöng

Spölur á og rekur Hvalfjarðargöng. Fyrirtækinu falið að fjármagna, hanna, grafa og reka Hvalfjarðargöng. Framkvæmdir hófust 1996 og þau voru opnuð fyrir umferð í júlí 1998. Verktaki var Fossvirki sf., sameignarfélag Skanska AB, E. Phil & Sö AS og Ístaks, sem stjórnaði framkvæmdum. Gerð ganganna er fyrsta einkaframkvæmd í samgöngum á Íslandi og ein hin fyrsta á Norðurlöndunum.

Einnig tilnefnd: Perlan og stafræn fjarskiptakerfi.