20. apríl 2002 | Innlendar fréttir | 492 orð

Tilhæfulausar aðdróttanir

MORGUNBLAÐINU hefur borizt eftirfarandi yfirlýsing frá dómstóli ÍSÍ í lyfjamálum, sem undirritaðir hafa óskað birtingar á: Þeir Birgir Guðjónsson og Júlíus Hafstein hafa gert að umtalsefni í Morgunblaðinu að undanförnu niðurstöðu dómstóls ÍSÍ í fjórum...
MORGUNBLAÐINU hefur borizt eftirfarandi yfirlýsing frá dómstóli ÍSÍ í lyfjamálum, sem undirritaðir hafa óskað birtingar á:

Þeir Birgir Guðjónsson og Júlíus Hafstein hafa gert að umtalsefni í Morgunblaðinu að undanförnu niðurstöðu dómstóls ÍSÍ í fjórum lyfjamálum sem hann fjallaði um fyrir ári.

Við undirrituð skipuðum dómstólinn. Af greinum þessum verður helst ráðið að við höfum átt þátt í einhverju samsæri forystumanna íþróttahreyfingarinnar til þess að halda hlífiskildi yfir íþróttamönnum sem gerast sekir um lyfjamisnotkun. Þrátt fyrir að okkur sé þvert um geð að taka þátt í svo lágkúrlegri umræðu sem þessari teljum við okkurt skylt að láta nokkur orð falla til varnar mannorði okkar og starfsheiðri.

Við fullyrðum að hvorki Ellert B. Schram né einhver annar úr forystu ÍSÍ hafði eða reyndi á nokkurn hátt að hafa áhrif á störf eða niðurstöðu dómsins, heldur aðeins Birgir sjálfur og þeir talsmenn ákærðu sem fluttu mál þeirra, eins og vera ber.

Voru þær leikreglur, sem dómstólnum eru settar, því í einu og öllu í heiðri hafðar.

Í ákæruskjali Birgis gegn tveimur körfuknattleiksmönnum gerði hann sjálfur þær kröfur ,,að með tilliti til ákvæða um mildandi ástæður í 12. gr." [reglugerðar um lyfjaeftirlit] um viðurlög telji ,,Heilbrigðisráð að Lyfjadómstóll ÍSÍ meti hversu víðtækt bannið verði".

Með vísan til þessarar kröfugerðar, sem skýrð var ákærðu í hag til samræmis við almennt viðurkennd sjónarmið í refsimálum, þótti refsing þeirra hæfilega ákveðin útilokun frá þátttöku í íþróttaæfingum og íþróttakeppni, sem fram fer á vegum ÍSÍ, sambandsaðila þess eða félaga eða deilda innan þeirra í einn mánuð frá 17. apríl 2001 en þann dag tók gildi bráðabirgðabann ákærðu til þátttöku í keppni á vegum ÍSÍ, sambandsaðila þess eða deilda innan þeirra samkvæmt heimild í 8. gr. reglugerðar um lyfjaeftirlit.

Sjálfur hafði Birgir haft forgöngu um að bjóða körfuknattleikskonu að fella niður refsingu hennar ef hún játaði brot sitt. Engin heimild er fyrir slíkum samningum í lögum eða reglugerðum ÍSÍ. Í reglugerð þeirri, sem körfuknattleikskonan var talin hafi brotið, voru engin refsiákvæði og því ekki um annað að ræða en að sýkna.

Það er því ljóst að kröfugerð Birgis í þremur þessara mála var ekki í neinu samræmi við þann furðulega málflutning sem hann hefur haft frammi í fjölmiðlum eftir uppkvaðningu dómanna.

Í fjórða málinu var um að ræða erlendan leikmann sem sem fallið hafði á lyfjaprófi erlendis og hafði mál hans verið afgreitt þar. Varð því ekki hjá því komist að vísa þessu máli frá dómi.

Við undrumst mjög skrif þessara tveggja manna og frábiðjum okkur með öllu þær aðdróttanir að við höfum brugðist skyldum okkar sem dómarar í umræddum málum. Grein Júlíusar er vonandi rituð af vanþekkingu um efnið en ekki verður annað séð en að grein Birgis sé skrifuð gegn betri vitund hans. Væru þeir báðir menn að meiru bæðust þeir afsökunar á þessum skrifum sínum.

Þeir, sem vilja kynna sér málið, eru hvattir til þess að lesa dómana og þær reglugerðir sem niðurstöður þeirra byggjast á en hvort tveggja má finna á heimasíðu ÍSÍ.

Örn Höskuldsson

Helgi I. Jónsson

Jóhannes Albert Sævarsson

Brynjólfur Jónsson

Ragnheiður Karlsdóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.