HÉR á eftir verður reynt að endursegja efni Hrafnagaldurs, í mjög fáum orðum samkvæmt þeirri reglu að "fæst orð hafa minnsta ábyrgð". Ég hef stuðst við eldri endursagnir og þýðingar á erlend mál. Þær eru að vísu býsna margbreytilegar og hver annarri ólíkar, og hef ég hirt það sem mér þykir síst með ólíkindum, en stundum fylgi ég einvörðungu eigin brjóstviti.
Varnagla þyrfti að hafa við hvert atriði í endursögninni, ef vel væri, því að hver afbökunin rekur aðra í kvæðinu. En þessi endursögn hefur þann kost með sér, eins og fyrri skýringar, að hún mun seint verða hrakin; engin hætta er á því að nokkru sinni fáist fastur botn í þetta marglemstraða kvæði.
1. v. Líklega vantar ekkert framan á kvæðið, en fyrsta vísan er eitthvað úr lagi færð eins og aðrar. Lýst er ástandi eða athöfnum ýmissa vera í öðrum heimi.
2.-5. v. Sitthvað er ískyggilegt með ásum, þungir draumar og loft lævi blandið. Dvergum virðist einnig farnast illa, og Alsviður, sem líklega er jötunn, fellir þá og safnar þeim saman. Vissa manna dylst í Mímisbrunni.
6.-8. v. Djúpvitur eða fróðleiksþyrst dís sem Iðun nefnist hefur hnigið frá aski Yggdrasils og "dvelur í dölum". Hún er álfa ættar, yngst eldri barna Ívalds (líkl. sama vera sem Ívaldi sem nefndur er í Grímnismálum). Hún unir illa ofankomu sinni undir meiðinum, en þar er hún "að kundar Nörva", þ.e. líklega hjá Nótt Nörvadóttur (í næturmyrkri). Goðin sjá hana syrgja og fá henni úlfsbelg; hún færist í hann og breytir við það lyndi sínu og útliti og gerist lævís. (Ef til vill svo að skilja að hún hafi öðlast yfirskilvitlega þekkingu eða spádómsgáfu í úlfsbelgnum.)
9.-15. v. Óðinn sendir "vörð Bifrastar", þ.e. Heimdall, til að fræðast af Iðuni, en um hana er höfð kvenkenningin "Gjallar sunnu gátt".
Bragi og Loftur (þ.e. Loki) "báru kviðu" (vitni) með Heimdalli. Guðirnir eru nefndir Rögnir og Reginn (líklega hér aðeins almenn guðaheiti). Þeir gólu galdur og riðu göndum "að ranni Heimis", sem hlýtur að vera bústaður Iðunar. Óðinn hlustar í Hliðskjálf um "langa vegu". Hinn vitri vörður guðanna (Heimdallur) og förunautar hans ("brauta sinnar") spyrja "veiga selju", þ.e. Iðuni, hvort hún viti uppruna, ævi og endalok heimsins. En hún svarar guðunum engu, og tár falla af hvörmum hennar. Hún gerist dáðlaus, hendur hennar falla, svimi svífur yfir höfuð hennar. Þeir sóttu því fastar að henni sem hún synjaði þverlegar, en orð þeirra komu fyrir ekki.
16.-19. v. Fyrirliði þessarar spurnarferðar, vörður Gjallarhorns (þ.e. Heimdallur), hélt heim til Óðins og hafði í fylgd með sér ættingja Nálar (Loka), en skáldið (Bragi) varð eftir til að varðveita gyðjuna (Grímnis grund, Iðuni). Þeir berast á Fornjóts sefum (þ.e. vindum) og koma til Vingólfs, hallar Óðins. Þar varpa þeir kveðju á æsi sem sitja við ölteiti. Óska þeir Hangatý (Óðni) heilla í öndvegi, og biðja guðina (día) sitja sæla að sumbli með Yggjungi (Óðni). Að ráði Bölverks (Óðins) sitja goðin á bekk og seðjast af Sæhrímni (geltinum), en Skögul (ein af valkyrjum) skenkir minnishorn af skaptkeri Hnikars (Óðins).
20.-22. v. Yfir máltíðinni spyrja hin háu goð Heimdall og Loka margs af ferðinni, hverjar spár eða spakmál sprundið (Iðun) hafi kennt þeim. Gekk svo uns húma tók að kveldi. Þeir létust hafa farið lítt fræga erindisleysu, enda mundi verða torvelt að véla svo um að svör fengjust af konunni. En Ómi (Óðinn) svaraði: "Nótt skal nema nýræða til," það er að segja, menn skulu nota nóttina til nýrra ráða; allt til morguns skal hver sem orkar leggja ný ráð til heilla ásum.
23.-25. v. Nú er dagur liðinn að kveldi. Goðin ganga frá gildinu og kveðja Hropt (Óðin) og Frigg. Síðan hefst för Hrímfaxa, hests næturinnar.
Dellings mögur (dagurinn) keyrir hest sinn yfir mannheim, hann er settur gimsteinum og mön hans glóir. Hann hverfur undir ystu rót jörmungrundar (jarðarinnar). Ýmsar vættir eru taldar sem nú ganga til rekkju.
26. v. Sólin (álfröðull) kemur upp að nýju, goðin rísa úr rekkju og nóttin sækir norður í Niflheim. Hornþytur heyrist frá Himinbjörgum. Þar er Heimdallur að blása í horn sitt og kveðja goðin til þings.
Það skyldu menn hafa í huga að undanfarandi endursögn Hrafnagaldurs er gerð úr sundurlausu brotasilfri, og að inn á milli þeirra torráðnu efnisatriða sem rakin hafa verið eru enn torráðnari klausur og jafnvel heilar vísur sem ekki hefur verið reynt að ráða í. Þar á ofan hefur glatast hluti aftan af kvæðinu, líklega talsvert langur ef þar hefur farið forgörðum hinn raunverulegi "hrafnagaldur Óðins".
En dýrmætar slitrur hafa þó eftir lifað. Sophus Bugge, sem vildi bægja kvæðinu frá Eddusafninu, viðurkennir að það skorti ekki djúpar hugsanir og fagrar lýsingar - "det mangler ikke Tankedybde og skjönne Skildringer". Og svo sem kvæðið er til okkar komið, með sínu hljómfagra tungumáli og torráðnu merkingu, hlýtur það að hræra hug okkar og knýja okkur til að glíma við hinar flóknu ráðgátur.
Gömlum bókmenntaverkum sem laskast hafa í tímans rás eins og Hrafnagaldri Óðins hefur stundum verið líkt við ævaforna og illa leikna myndastyttu. Styttan hefur veðrast í regni og vindum og síðan legið grafin í moldu í mörg hundruð ár. Útlimirnir hafa brotnað af, og veit nú enginn hvernig þeir hafa litið út meðan þeir voru heilir í sínum réttu stellingum.
Bolurinn einn er eftir, en hann er bæði rispaður, höggvinn og blakkur af elli. En þó lifir nóg eftir til að kveikja aðdáun okkar og hugmyndaflug.
Við göngum umhverfis líkneskjuna og skoðum hana í krók og kring, dáumst að hinum mjúku línum og hinum þrýstilegu vöðvum. Með ímyndun okkar fyllum við í skörð og eyður og reynum að kalla hina fornu listasmíð fram fyrir hugarsjónir okkar eins og hún var forðum daga, í allri sinni dýrð.
En aldrei tekst okkur það til fullnustu; og það er einmitt glíman við hið óræða, leitin að hinu ófinnanlega sem færir okkur unað. "Allt sem á að geta náð tökum á okkur verður að vera dularfullt eða óráðið," segir Sigurður Nordal í ritgerð sinni Brot. "Meðan ein lína er til af kvæði er sál þess ekki týnd, þó hún eins og blakti á skari. Það er þessi undramáttur brotanna sem gerir mörg fornkvæði svo töfrandi og aldrei verður skýrður með ljósum orðum ... Hamingjunni sé lof fyrir vanmátt málfræðinganna, að Völuspá verður aldrei skýrð, að því oftar sem ég les hana því dýpra villist ég inn í skógarmyrkur skáldskapar og goðsagna."
Þessi orð geta einnig átt vel við Hrafnagaldur Óðins, jafnvel enn betur en við Völuspá. Það höfum við sannreynt á leiðangri okkar um rökkvað torleiði hins forna fræðiljóðs. Oft hefur förin verið torsótt og fálmandi; en henni hefur einnig fylgt gleði og ánægja, því að meðal fallinna stofna og fúinna greina skógarins standa mörg lifandi tré, með angandi laufum. Og niður á milli trjákrónanna gægjast "geislar álfröðuls" sem leitast við að vísa okkur á rétta leið.