Ingibjörg Erlendsdóttir fæddist í Tíðagerði á Vatnsleysuströnd 9. nóvember 1915. Hún lést á heimili sínu í Reykjavík 21. apríl síðastliðinn. Barn að aldri fluttist hún að kirkjustaðnum Kálfatjörn ásamt foreldrum sínum Erlendi Magnússyni útvegs- og kirkjubónda frá Tíðagerði, f. 12. maí 1890, d. 19. nóvember 1975, og Kristínu Gunnarsdóttur frá Skjaldakoti, f. 4. apríl 1899, d. 14. janúar 1957. Ingibjörg ólst upp á Kálfatjörn ásamt systkinum sínum Ólafi, f. 23. okt. 1916, Herdísi, f. 18. des. 1917, Magnúsi, f. 4. des. 1918, d. 30. maí 2000, Gunnari, f. 7. febrúar 1920, d. 11. nóv. 1995, og Kristni Erlendi Kaldal Michaelssyni, f. 5. apríl 1934, d. 6. júní 1996, en hann var tekinn sem ungbarn í fóstur af Erlendi og Kristínu og ólst upp í systkinahópnum.

Ingibjörg nam við Kvennaskólann í Reykjavík 1931-1933, var kennari á Vatnsleysuströnd 1934-1939, tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1942. Hún hafði smábarnaskóla í Reykjavík 1942-1947 en gerðist þá kennari við Miðbæjarskólann í Reykjavík og kenndi þar þar til hann hætti starfsemi 1969. Þá var hún fastráðin kennari við Austurbæjarskóla til ársins 1980 og sem stundakennari nokkur ár eftir það. Á árunum 1970-1976 sérhæfði hún sig á námskeiðum í kennslu sex ára barna.

Ingibjörg tók virkan þátt í félagsstörfum. Hún átti sæti í stjórn Ungmennafélagsins Þróttar á Vatnsleysuströnd 1934-1940, í stjórn Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 1962, í stjórn Kennarafélags Austurbæjarskóla 1970-78, Kennarafélags Miðbæjarskóla um langt skeið. Hún var formaður í orlofsnefnd húsmæðra í Gullbringusýslu 1973-83 og síðan ritari þar, sat í stjórn Kvenfélagasambands Íslands, var virk í Sjálfstæðisfélaginu Hvöt, sat í áfengisvarnarnefnd kvenna í Reykjavík og Hafnarfirði og var formaður skólanefndar Skóla Ásu Jónsdóttur.

Ingibjörg eignaðist soninn Friðrik H. Ólafsson tannlækni 25. september 1946 með Ólafi H. Auðunssyni, f. 31. des. 1905, d. 20. okt. 2000. Friðrik var að mestu alinn upp á Kálfatjörn eða fram til 1959 er Ingibjörg og Ólafur hófu sambúð í Reykjavík, fyrst á Hjarðarhaga 30 en síðan á Háaleitisbraut 43. Ólafur átti fyrir dótturina Hafdísi, f. 1935, og kjörsoninn Aðalbjörn, f. 1945. Ólafur var frá Dalseli undir Eyjafjöllum, einn af 11 systkinum sem öll eru nú látin.

Friðrik kvæntist 1965 Soffíu Guðrúnu Ágústsdóttur, starfs- og námsráðgjafa, og eiga þau tvö börn 1) Erlend Steinar, sjávarútvegsfræðing, f. 5. sept. 1965 í sambúð með Ingu Margréti Birgisdóttur rekstrarfræðingi á Akureyri, f. 26.9. 1969 og 2) Ingibjörgu Sunnu, f. 9. maí 1972 og á hún soninn Óðin Þór Óðinsson. Þau Soffía Guðrún og Friðrik skildu. Friðrik hóf sambúð með Guðrúnu Erlu Gunnarsdóttur, hjúkrunarforstjóra árið 1980 og á með henni fósturdótturina Elísabetu, f. 15. febrúar 1980. Elísabet býr með Guðmundi Halldórssyni. Þau Guðrún Erla og Friðrik skildu.

Linda Rós Michaelsdóttir kennari flutti til Ingibjargar og Ólafs árið 1966 en hún hafði alist upp á Kálfatjörn eftir foreldramissi frá árinu 1961. Linda Rós er gift Steingrími Ara Arasyni og eiga þau þrjú börn, Herdísi, f. 2. mars 1980, Valborgu, f. 6. júní 1982, og Vilhjálm, f. 14. apríl 1985.

Útför Ingibjargar fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Jarðsett verður í Kálfatjarnarkirkjugarði.

Elsku amma.

Í stað þess að vera alveg ömmulaus, vorum við systkinin svo heppin að eiga þig og Díu systur þína að. Þú varst besta amma sem nokkurt barn getur hugsað sér og gerðir engan greinarmun á okkur frá hinum barnabörnum þínum. Ég veit að ég tók því sem sjálfsögðum hlut en ég verð þér ævinlega þakklát.

Fyrstu minningarnar eru frá því þegar þú sóttir mig í leikskólann. Þú sagðir mér fyrir stuttu að ég hefði alltaf verið ein að dunda mér þegar þú komst. Ég hefði þá ljómað upp í hvert skipti sem ég sá þig standa í dyrunum og hlaupið til þín til þess að faðma þig. Ég man að á leiðinni heim lét ég þig setjast á hvern einasta kubb sem á vegi okkar varð og þú lést þig hafa það því mér fannst það svo ofboðslega sniðugt. Eftir hádegismat lastu svo með mér, fórst með ljóð fyrir mig eða lést mig syngja fyrir þig. Og þú kallaðir mig alltaf "blástjörnurnar tvær". Við spiluðum líka mikið og ef til vill er það þín vegna sem ég er svona tapsár í dag, því þú leyfðir mér alltaf að vinna. Gleðiviðbrögð mín leyndu sér ekki og þá varstu vön að segja: "As you like fyrir ofan læk."

Mér hefur alltaf þótt gott að koma að heimsækja þig, spjalla við þig um daginn og veginn og svo auðvitað spila. Þannig var það amma mín, að sama hversu þú eltist þá varstu jafnung í sál og áður.

Þú saknar okkar örugglega alveg jafnmikið og við söknum þín, en nú ert þú komin til afa og ég veit að þér líður betur. Takk fyrir allt amma mín, ég elska þig.

Valborg.

Elsku amma. Maður trúir því eiginlega ekki enn þá að þú sért ekki uppi á Háó, þú hefur alltaf verið þar og því er erfitt að ímynda sér þetta öðruvísi. Það verður ekki eins að koma til Reykjavíkur eftir að þú er farin, við söknum þín mikið.

Þú áttir hins vegar góða ævi og afrekaðir margt og því getur þú kvatt sátt. Þú varst orðin ósköp þreytt og veikburða undir það síðasta og hinn mikli baráttuandi þinn að mestu horfinn. Það er ekki ólíklegt að afi hafi séð þetta og komið og náð í þig, enda eflaust orðinn þreyttur á biðinni.

Við kveðjum þig sátt og þakklát fyrir þær stundir sem við áttum saman. Við eigum margar ógleymanlegar minningar sem við yljum okkur við. Þær hverfa aldrei.

Biðjum að heilsa afa.

Erlendur Steinar og Inga Margrét.

Elsku amma mín. Ég sit hér andvaka og tárin renna niður kinnarnar er ég minnist þín. Þú varst alltaf svo ljúf og góð við mig. Gafst mér svo mikið af hlýju og mínum uppáhalds kökum. Ég man vel eftir því þegar ég var lítil stúlka, þá var ég oft hjá þér í pössun. Þá leyfðir þú mér að vera þín hægri hönd í bakstrinum, en oft þvældist ég fyrir, sérstaklega þegar mér datt það í hug að fara í feluleik með þér. Sá leikur var ef til vill ekki ýkja merkilegur en þegar ég hugsa til baka er það dálítið fyndið að því leyti, að ég faldi mig alltaf undir undirpilsinu þínu og þú þóttist alltaf vera að leita að mér og á endanum fannstu mig og varðst mjög undrandi.

Þessar minningar sem við eigum saman eru mér mikils virði og þær munu alltaf vera til staðar. Það er sárt að hugsa til þess að þú skulir vera farin frá mér. Ég tel mig vita að þú sért komin á góðan stað með góðu fólki sem þykir mjög vænt um þig og gleður það mig að afi skuli hafa tekið á móti þér.

Elsku amma mín, mundu bara að ég elska þig og að þú varst besta amma í heimi.

Þitt barnabarn,

Elísabet Guðrún

Friðriksdóttir.

Ingibjörg Erlendsdóttir var um margt óvenjuleg kona. Hún var falleg, gáfuð og bar mikla persónu. Uppgjöf var henni framandi. Bak við elskulegt og menningarlegt fas bjó óbugandi vilji og stefnufesta og hún kunni því betur að fá að ráða ferðinni. Hún naut sín vel á mannamótum og var höfðingi heim að sækja. Hún var á margan hátt heimsborgari í sér þó að hún byggi alla ævi á Íslandi og þótti gaman að hinum ýmsu blæbrigðum mannlegra samskipta.

Þegar ég staldra við og fer í huganum yfir áratugi samskipta og vináttu sem hófst þegar ég var ellefu ára gömul er það þrennt sem stígur ljóslifandi fram og kveikir í hjartanu: Hvað íslensk ljóð léku henni á tungu og voru einhvern veginn eins og hluti af henni. Hún hafði afar næma málkennd og á hennar vörum voru ljóð ekki utanaðlærðar hendingar, þótt hún hefði óskeikult ljóðaminni, heldur unaður tungumálsins í sinni dýrustu mynd.

Í annan stað var hún afburða kennari, ekki aðeins í skólastofunni heldur í öllu sínu lífi. Hún drakk í sig hvers kyns fróðleik og var sífellt að kenna og miðla hvar sem hún var stödd. Það sem hún hafði einhvern tíma numið hvarf ekki frá henni upp frá því og samferðamenn hennar nutu góðs af þessum fróðleiksbrunni sem hún jós úr til beggja handa af miklu örlæti.

Mest yljar mér þó minningin um það sem hún var börnum mínum, Herdísi, Valborgu og Vilhjálmi. Hún var amma þeirra, vinur og fræðari. Fylgdist afar vel með öllu sem þeim viðkom frá því þau sáu dagsins ljós, lét sig varða hvaðeina sem þau tóku sér fyrir hendur og var næm á þarfir þeirra og tilfinningar. Sérstaklega var fallegt samband þeirra Vilhjálms, vinátta þeim báðum dýrmæt og óháð aldri og aðstæðum.

Sjálf bjó ég á heimili Ingibjargar árin sem ég var í landsprófi og menntaskóla og tengdist henni þá sterkum böndum en áður hafði ég búið í fimm ár á Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd í umsjá Herdísar systur hennar og Erlendar föður þeirra sem voru mér eins og góð fóstra og góður afi.

Ég á þessu fólki margt að þakka og það er mín önnur fjölskylda.

Á kveðjustund þakka ég Ingibjörgu Erlendsdóttur af hjarta fyrir samfylgdina og hvað hún auðgaði líf barna minna.

Öðrum ástvinum hennar óska ég guðs blessunar.

Linda Rós Michaelsdóttir.

Stigapallurinn okkar er hljóður núna, þar sem hún Ingibjörg er farin. Hún bar með sér lífsgleði og trú á lífið og var gott til hennar að leita. Ávallt vorum við, ég og synir mínir, velkomin til hennar, en strákarnir skutust oft yfir til hennar og var það fleira en pönnukökulyktin sem heillaði þá. Verður hennar sárt saknað af okkur.

Ég sendi ættingjum hennar okkar samúðarkveðju.

Gunnhildur og synir.

Valborg.