Í Landnámu er greint frá því að "Elliði", skip Ketilbjarnar gamla á Mosfelli, hafi komið í Elliðaárós og dragi árnar nafn af því. Að öðru leyti er saga Ketilbjarnar ekki tengd Elliðaánum eða dalnum. Í gegnum aldirnar hefur þetta svæði, árnar og dalurinn, haft sterkt aðdráttarafl á menn og dýr og er dalurinn sérstakur fyrir fegurð sína og friðsæld.
Þegar Innréttingarnar voru stofnaðar árið 1751 lét Skúli Magnússon reisa þófaramyllu og litunarhús í Elliðaárdalnum. Enn má sjá móta fyrir húsarústum þessara bygginga í hólmanum móts við bæjarhólinn að Ártúni.
Margar sögur eru til úr Elliðaárdalnum. Arnes Pálsson útilegumaður, sem bjó um skeið með Höllu og Fjalla-Eyvindi, á að hafa komið í þófaramylluna, líklega til að taka sér náttstað, þar fann gæslumaður Innréttinganna hann. Á Arnes þá að hafa hlaupið upp Elliðaárdalinn og sloppið frá mönnum sem veittu honum eftirför.
Morð var framið við Skötufoss árið 1704, sem sagt er frá í öldinni átjándu. Drekkingarhylur er við Skötufoss, þar var aftökustaður ógæfustúlkna sem eignuðust börn í lausaleik og báru út. Dulspakir menn og konur telja að huldufólk byggi enn dalinn og gera það grágrýtisbjörg sem eru afar heppileg fyrir þessar verur að búa í.
Þegar landið var hernumið byggði setuliðið kampa á nokkrum stöðum í Elliðaárdal. Víða eru enn í dalnum leifar stríðsminja og í Breiðholtshvarfi er skotbyrgi. Braggar sem stóðu tómir eftir að setuliðið fór voru notaðir til íbúða af íslenskum fjölskyldum sem ekki höfðu í önnur hús að venda.
Nokkuð brögð voru að því að fólk byggði sér hús í Elliðaárdal. Flest þessara húsa voru byggð án leyfis en látið átölulaust af byggingafulltrúa. Árið 1958 byrjuðu ung hjón, Haraldur Helgason og Jóhanna Helgadóttir, að byggja sér hús við Vatnsveituveg, rétt við bakka Elliðaánna. Þá var búið að byggja Hraunprýði, næsta hús við.
Fullbúið 1960
Hús Haraldar og Jóhönnu var ekki fullbúið fyrr en vorið 1960 og fluttu þá hjónin inn með börnin sín, Guðlaugu og Helga. Helgi var þá á öðru árinu en Jóhanna komin á skólaskyldualdur. Eins og mörg önnur hús á þessum slóðum var húsið byggt án leyfis, það hlaut nafnið Öxl og er ekki vitað af hverju.Ekki fannst nein brunavirðing á húsinu fyrr er árið 1980 og er því þá lýst þannig. "Nýtt íbúðarhús, byggt úr timbri, einangrað með velti, klætt utan með bárujárni á suðurhlið en vatnsklæðningu á öðrum hliðum.
Á hæðinni eru fjögur íbúðarherbergi, eldhús, baðherbergi, með v.s., handlaug og steypibaði. Innbyggðir skápar eru í húsinu, tvöfalt gler í gluggum og gólfin dúklögð. Grunnflötur hússins er 85 ferm."
Húsið er byggt í brekku og segir Jóhanna að það hafi verið mikil vinna að gera uppfyllingu undir þá hlið hússins sem snýr að götunni. Jóhanna og Haraldur teiknuðu húsið sjálf. Platan og sökklarnir undir því eru steypt og er meira vandað til þessa húss en margra sem voru byggð á þessum tíma.
T.d. var ekkert notað af kassatimbri í bygginguna eins og títt var með hús sem byggð voru á þessum tíma. Allt efni var keypt nýtt. Húsið er klætt að utan með dökkri vatnsklæðningu, það er með hallandi skúrþaki sem er lagt járni.
Jóhanna segir að mágur sinn, Jón Helgason, hafi aðstoðað þau við bygginguna. Nokkrum árum eftir að Haraldur og Jóhanna fluttu í húsið fékk það full réttindi til þess að standa. Á svipuðum tíma byggðu þau stóra verönd verönd meðfram þremur hliðum þess.
Gróskumikill garður
Gróskumikill garður er í kring sem fjölskyldan ræktaði saman. Þar eru myndarlegar aspir, reyniviður og grenitré. Í garðinum baka til er stór grágrýtissteinn sem sumir telja að sé bústaður huldufólks.Það voru mikil viðbrigði fyrir fjölskylduna að flytja í Elliðaárdalinn, en áður höfðu þau búið í miðbænum þar sem stutt var í alla þjónustu og barnaskóla. Jóhanna sem ekki hafði bílpróf, tók sig til og lærði á bíl, annað var ekki hægt. Haraldur vann hjá Flugfélaginu á Reykjavíkurflugvelli en Jóhanna var heima og gætti bús og barna og sá að mestu um aðdrætti til heimilisins.
Næstu matvöruverslanir voru í Selásnum og Blesugróf en þangað er drjúgur spölur. En þó að erfitt væri að búa utan þéttbýliskjarnans og að heita mátti uppi í sveit, var það vel til vinnandi. Fyrir mestu var að eiga sitt eigið hús. Frelsið var líka mun meira en í bænum, eina hættan fyrir börnin var áin og Árbæjarstíflan.
Eins og að framan greinir var langt í alla þjónustu. Fyrstu árin eftir að Jóhanna og Haraldur fluttu að Öxl var mjólkin keypt af Elínu Pétursdóttur Blöndal sem bjó í Eddubæ nokkuð ofar í dalnum. Helgi og Jóhanna muna vel eftir því þegar þau hjóluðu með mjólkurbrúsa á stýrinu til Elínar. Auk þess að hafa kýr var Elín með dálítið hænsnabú.
Elín Blöndal var þekkt fyrir áhuga sinn á trjárækt og einnig var hún góður listmálari. Eddubær er nú horfinn en trjálundurinn sem Elín gróðursetti í kringum bæinn sinn stendur eftir vegfarendum til yndisauka.
Nokkru frá Eddubæ stóð húsið Hvíld sem aðallega var notað á sumrin. Húsið Birkilundur stóð ofar í dalnum, þar var búið árið um kring. Eddubær, Hvíld og Birkilundur voru rifin um svipað leyti. Sennilega voru þessi hús byggð án leyfis byggingafulltrúa þó að þau fengju að standa.
Neðar í Elliðaárdalnum risu allmörg hús Breiðholtsmegin við ána. Mörg þeirra er búið að rífa núna. þegar húsið Öxl var byggt var ekki búið að byggja Höfðabakkabrúna.
Frá Öxl blasir við Árbæjarstíflan, oft sést laxinn stökkva móti fossinum undir göngubrúna á leið sinni upp ána. Á þessum árum var mikið berjaland í Elliðaárdalnum og ekki orðum aukið að þar hafi verið sæluríki manna og dýra.
Þegar Jóhanna og Haraldur fluttu að Öxl var ekki komin skipulögð byggð í Breiðholtið, Hraunbæinn eða Selásinn, en nokkur hús voru þar á stangli, flest byggð sem sumarbústaðir en í mörgum þeirra búið allt árið. Ekki liðu mörg ár frá því að fjölskyldan flutti að Öxl þar til farið var að byggja í Breiðholti og Hraunbæ.
Neðra Breiðholtið var fljótlega fullbyggt og gekk Helgi í Breiðholtsskóla nema tvo fyrstu veturna sem hann var í Austurbæjarskólanum. Guðlaug systir hans, sem er nokkrum árum eldri, var í Austurbæjarskólanum og fór með skólabílnum sem sótti skólakrakkana í úthverfin.
Fjölskyldan í Öxl var ekki með bú en Haraldur byggði dúfnahús baka til við íbúðarhúsið og ræktaði bréfadúfur í félagi við tengdason sinn, Kristin Bjarnason.
Á sumrin fóru Haraldur og tengdasonurinn austur að Hrauneyjarfossi og slepptu fuglunum. Það tók dúfurnar um klukkustund að fljúga heim. Ratvísi þessarra fugla er með eindæmum eins og þegar farið var með þær að Grímsstöðum á Fjöllum og allar komust heim.
Yfirnáttúrlegur atburður
Þegar Guðlaug er spurð að því hvort hún hafi ekki orðið vör við huldufólk segist hún ekki hafa séð það. En henni er í fersku minni atvik sem átti sér stað þegar hún var barn. Faðir hennar var að vinna við húsið þegar hann lagði frá sér kalkkúst á stóra steininn bak við húsið, en þegar hann ætlaði að grípa til kústsins var hann horfinn og líkast því að jörðin hefði gleypt hann.Ári síðar var kústurinn á steininum rétt eins og Haraldur skildi við hann árið áður. Á þessu hefur engin skýring fundist en óneitanlega hefur fjölskyldan hugsað um þetta. Helga er eins farið og móður hans og systur, hann hefur ekkert séð neitt yfirnáttúrlegt en rengir ekki sögur sem tengjast álfum og huldufólki í dalnum.
Kona að nafni Erla Stefánsdóttir sem þekkt er fyrir að sjá álfa og dvergabyggðir hefur kortlagt bústaði þessara vera í Elliðaárdalnum. Af kortinu að dæma er húsið Öxl í miðri byggðinni.
Haraldur lést sumarið 1996. Jóhanna býr áfram í húsinu og hjá henni er fullorðinn dóttursonur hennar. Helgi og Elísabet Kvaran kona hans eru tíðir gestir í Öxl eins og Guðlaug og Kristinn ásamt barnabörnunum.
Öxl er stílhreint hús sem fellur vel að landslaginu og gróðrinum í kring. það er hitað upp með olíukyndingu þó að hitaveitustokkurinn sé þar skammt frá.
Þó að umferð hafi aukist og byggðin færst nær ríkir einhver undrafriður yfir þessum stað. Þegar greinarhöfundur stendur framan við húsið syngur lóan sitt dírrin dí og tveir svanir synda á lóninu við Árbæjarstífluna. Nokkrir knapar koma á gæðingum sínum og fara Vatnsveituveginn á hlemmiskeiði.