JARÐVEGSFRAMKVÆMDIR vegna nýrrar keppnislaugar og líkamsræktarstöðvar við Laugardalslaug eru hafnar eftir að fyrsta skóflustunga var tekin í lok apríl sl. Reykjavíkurborg og Laugar ehf., sem er félag í eigu Björns K.

JARÐVEGSFRAMKVÆMDIR vegna nýrrar keppnislaugar og líkamsræktarstöðvar við Laugardalslaug eru hafnar eftir að fyrsta skóflustunga var tekin í lok apríl sl. Reykjavíkurborg og Laugar ehf., sem er félag í eigu Björns K. Leifssonar, eiganda World Class, standa sameiginlega að framkvæmdinni. Samningur milli Lauga og Reykjavíkurborgar var undirritaður 24. apríl sl. um samstarf, samvinnu og verkaskiptingu vegna framkvæmdanna í Laugardal, sem áætlað er að alls munu kosta 2,5 milljarða króna, þar af á líkamsræktarstöðin að kosta 1,5 milljarða. Verkinu á að vera lokið á árinu 2004.

Frumkvæði Björns en rætt var við aðrar líkamsræktarstöðvar

Samkvæmt verksamningnum mun félagið Laugar ehf. greiða borginni rúmar 158 milljónir króna fyrir byggingarréttinn á líkamsræktarstöðinni. Félagið hefur þegar greitt rúmar 24 milljónir króna og á að greiða tæpar 60 milljónir fyrir 24. maí nk. Eftirstöðvarnar, um 74 milljónir, eiga að greiðast með fjórum jöfnum afborgunum, síðast í apríl árið 2004.

Ekkert útboð fór fram á því til hvaða aðila Reykjavíkurborg myndi ganga til samstarfs við við byggingu þessa íþróttamannvirkis. Frumkvæði um líkamsræktarstöðina var alfarið Björns, að sögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, formanns Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, ÍTR.

"Bygging nýrrar 50 metra yfirbyggðrar keppnislaugar kom til umræðu á síðasta kjörtímabili og þá var hugmyndin að reisa hana í Grafarvogi. Niðurstaðan var sú að byggja hana við gömlu laugina í Laugardal og fram fór hönnunarsamkeppni meðal arkitekta, sem Ari Lúðvíksson sigraði í.

Síðan kom sú hugmynd frá Birni að tengja sundlaugarmannvirkin við allsherjar heilsuræktarmiðstöð," segir Steinunn Valdís.

Hún segir að í kjölfar þessa hafi verið leitað til annarra aðila í rekstri líkamsræktarstöðva, m.a. Hreyfingar og Jónínu Benediktsdóttur, og kannað hvort þeir hefðu áhuga. Ekki hafi þótt eðlilegt að úthluta verkefninu strax til Björns í World Class. Steinunn Valdís lítur svo á að um könnunarviðræður vegna útboðs hafi verið að ræða en þar sem aðrir en Björn hafi ekki sýnt málinu áhuga hafi ekki þótt ástæða til að fara í formlegt útboð.

Í borgarráði um miðjan mars árið 1999 var samþykkt að taka upp viðræður við Björn um málið. Viljayfirlýsing milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra og Björns var svo undirrituð í júlí sama ár.

Þar segir m.a. að borgin muni að óbreyttu kosta byggingu sundlaugarinnar og annast rekstur hennar fyrir sinn reikning en Björn kosta byggingu og rekstur líkamsræktarstöðvarinnar. Síðan segir: "Aðilar munu þó kanna hvort hagkvæmt sé fyrir báða aðila að sameina reksturinn að einhverju eða öllu leyti. Það er þó fyrst talið koma til álita eftir að nokkur reynsla er komin á reksturinn."

Aðspurð hvort þetta sé enn í gildi, segir Steinunn Valdís að tíminn verði að leiða það í ljós. Fyrst þurfi að fást reynsla af rekstri mannvirkjanna áður en farið verði að tala um sameiningu eða frekari samvinnu. Eins og þetta sé hugsað í dag ætli Reykjavíkurborg að annast byggingu og rekstur keppnislaugarinnar og fyrirtæki Björns K. Leifssonar muni sjá um líkamsræktarstöðina.