Gimbill gúla þembir gleður sig og kveður : "Veit ég, þegar vetur vakir, inn af klaka hnýfill heim úr drífu harður kemst að garða góðir verða gróðar gefnir sauðar efni." (Sláttuvísa.)
Jónas Kristjánsson ritar fróðlega grein í Lesbók Morgunblaðsins 27. apríl síðastliðinn og færir rök fyrir því að kvæðið Hrafnagaldur sé eldra en áður var talið. (Sophus Bugge taldi að kvæðið væri frá 17. öld, ekki miklu eldra en uppskriftirnar sem það hefur varðveist á.) Þar sem ég hef heyrt sagt, á grundvelli athugana Jónasar, að "í ljós hafi komið" að kvæðið sé frá 14. öld, get ég ekki orða bundist og langar að koma á framfæri þeirri skoðun minni að harla ólíklegt, ef ekki óhugsandi sé að kvæðið sé svo gamalt, a. m. k. í þeirri mynd sem það hefur varðveist. Meginástæða þess að ég tel að kvæðið sé ungt er sú, að bragur þess fylgir ekki skýrum takmörkunum sem giltu í fornum kveðskap. Þessar takmarkanir byggðu á fornri hljóðdvöl sem svo er kölluð. Til að reyna að skýra þetta má taka orð eins og gleður og kveður . Þessi orð (með grönnum sérhljóðum) höfðu í fornu máli létt áhersluatkvæði, en hins vegar höfðu orð eins og hálar og tálar, sem við nú tölum um að hafi breið sérhljóð, þung áhersluatkvæði að fornu. Þessi hljóðdvalarmunur skipti máli í fornum kveðskap: Einungis þungu atkvæðin gátu borið fullt ris. Þess vegna er t. d. óhugsandi að eftirfarandi dróttkvæð vísa Jónasar Hallgrímssonar sé ort fyrir hljóðdvalarbreytingu:
Gimbill gúla þembir
gleður sig og kveður :
"Veit ég, þegar vetur
vakir, inn af klaka
hnýfill heim úr drífu
harður kemst að garða
góðir verða gróðar
gefnir sauðar efni."
(Sláttuvísa.)
Skáletruðu orðin í vísunni höfðu í fornu máli létt áhersluatkvæði sem gátu ekki borið ris eins og þau eru látin gera hér; fer það auðvitað vel í máli Jónasar Hallgrímssonar, en gengur ekki fyrir hljóðdvalarbreytingu. Talið er að hin nýju hljóðdvalarlögmál taki gildi á 16. öld, þótt nokkur merki megi sjá um þau í kveðskap frá 15. öld, og eins eimir ögn eftir af gömlum takmörkunum í kveðskap frá 17. öld.
Höfundur Hrafnagaldurs fellur í svipaða "gryfju" og Jónas Hallgrímsson, hafi hann viljað láta líta svo út sem kvæðið væri fornt. Bragarhátturinn minnir á fornyrðislag, en hrynjandin er í átt við það sem kallað hefur verið kviðuháttur og er (í vissum skilningi) taktfastara afbrigði fornyrðislags. Kvæði sem ort voru undir þessum háttum fyrir hljóðdvalarbreytingu notuðu ekki orð eins og gleður og kveður til að fylla tvíliði. Þetta kemur hins vegar fyrir í Hrafnagaldri. Í textanum sem birtur er í Lesbókinni þann 27. apríl hef ég fundið eftirfarandi 7 dæmi um línur þar sem tvö létt orð að fornri hljóðdvöl eru látin mynda tvíliði í sömu línu: vanir vitu (1. vísa); grunar guma (3. vísa); dáins dulu (3. vísa); dvelur í dölum (6. vísa); ofan komu (7. vísa); mat af miði (19. vísa); mön af glóar (24. vísa). Hins vegar er þess að geta að dæmin eru flest í fyrri hluta kvæðisins, og margar vísurnar virðast ekki brjóta gegn fornum bragvenjum.
Það er því hugsanlegt að vísur kvæðisins séu misgamlar, og sá sem setti Hrafnagaldur saman (ekki seinna en á 17. öld) hafi haft einhverjar gamlar vísur, en bætt nokkrum við frá eigin brjósti.
EFTIR KRISTJÁN ÁRNASON
Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands.