25. maí 2002 | Menningarblað/Lesbók | 1974 orð | 6 myndir

Stöðvarfjörður

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árbók Ferðafélags Íslands 2002 ber heitið: Austfirðir frá Álftafirði til Fáskrúðsfjarðar. Bókin kemur út í lok maímánaðar. Hér er birt efni úr kafla um Stöðvarfjörð.

Stöðvarfjörður hefur sérstöðu meðal austfirskra byggða. Upp frá stuttum firði gengur nær óbyggður dalur girtur háfjöllum en mannlíf að mestu einskorðað við fiskiþorp sem byggst hefur upp sólarmegin fjarðar. Gegnt þorpinu eru einhver formfegurstu fjöll á landinu með einkennistinda í Súlum og fyrir dalstafni mætast fjallgarðarnir sunnan og austan fjarðar í Jökultindi hæstum fjalla. Austurhlíðarnar eru grænar upp undir eggjar en sunnanmegin leikur mosinn sína litasinfóníu í samspili ljóss og skugga. Úti fyrir er blátt hafið með ósýnilegum röstum eins og böndum undan ystu nesjum og fjölda miða, þeirra á meðal Glöggvur. Um miðja 20. öld stóð hvert hús í Kirkjubólsþorpi í grænu túni upp frá höfn og fiskiðjuveri en byggðin hefur síðan orðið þéttari og kallast nú Stöðvarfjörður.

Frá upphafi byggðar er greint í Landnámu svofelldum orðum: "Þórhaddur hinn gamli var hofgoði í Þrándheimi á Mæri. Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærina-helgi á allan fjörðinn og lét engu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Hann bjó þar alla ævi og eru frá honum Stöðfirðingar komnir." (Landnáma, s. 307-308.) Minna ummæli þessi á náttúruvernd á okkar dögum.

Jarðir í Stöðvarfirði voru fram eftir öldum þrjár að talið er, Hvalnes sunnan fjarðar, Stöð andherjinn austan Stöðvarár og Kirkjuból út með að austan að mörkum við Gvendarnes, sem átti kirkjusókn að Stöð þótt skráð væri í Fáskrúðsfjarðarhreppi. Síðan fjölgaði býlum hér sem annars staðar og fyrir einni öld voru þau orðin nokkuð á annan tug með hjáleigum. Við stiklum á stóru sólarsinnis um fjörðinn og byrjum þar sem frá var horfið í Hvalnesskriðum.

Frá Kambanesi inn á Jökultind

Litlu utan við Merkikamb er gróin brekka milli gilja undir Súlum og heitir Ragnhildarjaðar eftir konu sem þar skilaði barni í heiminn. Utar taka við Hvammar, gamalt engjapláss undir Mosfelli (547 m), áður komið er út í Kambaskriður. Arnarkambur er mjór berggangur sem liggur út í sjó utan við Ytrihvamm og Arnartindar heita ystu tindar á fjallsrananum upp af Hvalneshálsi. Utan við Kambaskriður taka við Staðarbrekkur sem þjóðvegur liggur nú eftir áður en sveigt er inn til Stöðvarfjarðar. Kambaskriður voru áður fyrr nefndar Staðarbrekkuskriður svo sem sjá má af Sóknalýsingunum (s. 451 og 474). Staðar-nafnið vísar líklega til ítaka Þingmúlakirkju forðum og voru brekkurnar fyrrum skógivaxnar.

Líklegt er að nesið milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur hafi í öndverðu heitið Hvalnes eins og aðaljörðin sunnan fjarðar og Kambanesnafnið fyrst komið til um og eftir 1800. Svo mikið er víst að Olavius talar um Hvalnes í ferðabók sinni 1774 og á uppdráttum frá þessum tíma ber nesið heitið Hvalnes og skriður sunnanvert við það heita enn Hvalnesskriður. Ekki er ljóst hvenær kotin Kambar og Heyklif fyrst byggðust út úr Hvalnesi, það síðarnefnda þó til komið 1703. Þegar Magnús Bergsson í Stöð skráði lýsingu Stöðvarsóknar 1839 heyrði Heyklif undir Þingmúlabrauð í Skriðdal og svo var einnig háttað um meginhluta Hvalnesjarðar. Hann nefnir sagnir þess efnis að Kambar hafi fyrrum verið stekkur frá Heyklifi (s. 451).

Kambanes sker sig frá fjallgarðinum milli Breiðdals og Stöðvarfjarðar utan við Staðarbrekkur með lágu og um 600 m breiðu Eiði. Utan við það er hraunaklasi, fornar hjallabrúnir, sem rísa hæst í Hnútu (81 m) utanvert fyrir miðju nesi. Kollur hennar hefur sennilega verið sker í sjávarborði við ísaldarlokin. Nesið er vogskorið að sunnan og norðan, þar sem hraunbríkur leggja til efni í tanga en malarfjörur eru víða á milli. Bæjarstæðin á Kömbum og Heyklifi eru austan undir hraunbríkum og skilur Heyklifshraun milli túna. Bærinn Kambar, í eyði síðan 1944, var upp af Kambafjöru sunnan á nesinu. Nafnið er sótt í Kamb, tvo örmjóa, samsíða gatkletta í fjöruborði við Hólagjögur (Hólgjögur) inn af Kambafjöru. Uppsátur var í Heyklifsbót neðan túns en utar er Illibás, Stekkur og viti reistur 1920. Hafmegin á nesinu eru klungur með Syðri- og Eystri-Rastarhæl sem útverði og Iðusker og Fjarðarboða hvort til sinnar handar úti fyrir. Jónsbás er smávik milli kletta á nesinu norðanverðu, notaður sem lending í sunnanáttum. Í Pálskvos við Skútuklöpp litlu innar var um tíma afbýli kallað Klöpp og bjó þar um 1900 Páll Sveinsson með ómegð. Pútnahraun er upp af Skútuklöpp en innar tekur við Selavík allbreið inn að Borgarnesi í landi Hvalness. Mýrlent er inn með hlíðum og smáhraun en grunnir vogar með ströndinni uns komið er í Hvalnesfjöru þar sem var uppsátur. "Hvalnesshöfn ... er mjög ósjáleg lending" segir í sóknarlýsingu. Á Hagakletta innan bæjar eða á Carlsklett neðan túns breiddu menn hvítan dúk ef óskað var flutnings yfir fjörðinn og kom þá bátur frá þorpinu handan við. Tvíbýli var lengst af á Hvalnesi, kallað Útpartur og Innpartur. Síðast bjuggu á Hvalnesi Bjarni Methúsalem Jónsson og Elísabet Sigurðardóttir. Jörðin fór í eyði 1960 er þau fluttu að Óseyri við fjarðarbotn, þar sem synir þeirra bjuggu enn um aldamótin 2000 og hafa haft nytjar af Hvalnesi.

Vegurinn yfir Hvalnesháls

Um Hvalnesháls lá reiðgata fyrrum ofan við Kambaskriður og þá farið úr Ytri-Hvammi upp á Steinahjalla. Völvuleiði er austan gamla vegarins um 2 m norðan við vörðu yst á hálsinum. Magnús Bergsson lýsir 1839 veginum um Hvalnesháls þessum orðum í framhaldi af frásögn um leiðina yfir Víkurheiði: "Hinn alfaravegurinn er sunnan megin fjarðarins og liggur fram [út] og upp eftir Hvalnesshálsi og þaðan vestur yfir skriður þær (Hvalnesskriður nefndar) er liggja niður frá Arnartindum og Súlunum, næsti bær við veginn að austan er Hvalnes en Breiðdalsmegin Snæhvammur. Vegurinn er ei langur en mjög ógreiðfær og víða klitróttur, einkum austan megin í hálsinum hvar niðurhröpuð björg liggja um hann og gamlar urðir sem lítt mögulegt er úr vegi að ryðja; í skriðunum er vegurinn krókóttur og sumsstaðar nokkuð tæpur. Hann er árlega ruddur á vorum en þess gætir ei lengi því litlar sem engar menjar þeirrar vegabótar sjást á næsta ári, stundum ei á næsta hausti, þar rigningar og hlaup aflaga þær með öllu í soddan bratta; ber það því stundum við að hestar tapast ofan fyrir þær og einstöku sinnum menn." (Sóknalýsingar, s. 459-460.)

Álaugará er skammt innan bæjar komin af Súlnadal, miklum hamrasveig sem varðaður er af Mosfelli, Súlum og Lambafelli. Neðan til í Lambafelli er þykkt fagurlega stuðlað basaltinnskot og norður af því gengur litrík öxl úr líparíti. Yst á henni stendur allhá gnípa nefnd Loðinstrýta og Engjahjalli grænn neðan undir.

Innan við Álaugará heitir Hvalnesströnd allt inn í Hvalneskrók við fjarðarbotn. Upp frá henni eru tvær dalhvilftir, Tóttárdalur og Garðsárdalur, sem samnefndar ár falla niður úr. Byrgitangi er milli Álaugarár og Tóttár og inn og upp frá honum Illumýri og Illumýrarstapi í sjó, en Tómagil innan við. Tóttárdalur er vestan við Lambafell en inn og upp af honum er Hádegistindur (861 m), eyktamark frá Stöð, og niður af Hrafnahnjúkar efri og neðri. Hádegistindur er sama fjall og Snæhvammstindur í Breiðdal. Mór var sóttur í Tóttárdal frá Hvalnesi og gengin Skágata um Skágötubotn og efst í Ræningjabotni til bæjar. Upp af miðjum Garðsárdal er Merkitindur en innan við Dýjatindur og austur úr honum gengur mjó öxl sem skilur milli Garðsárdals og Fossdals. Nautastígur liggur úr Fossdal norðan í fjallsöxlinni yfir á Geldsauðahjalla á Garðsárdal, þar sem fyrrum var heyjað. Kúahjalli er neðan kletta og var oftast farinn milli dala.

Ógurleg landsynningsveður

Veðursælt má almennt teljast í Stöðvarfirði, einkum sleppa menn vel við norðanátt, því að þá getur verið nánast logn á Stöðvarfirði þótt hart blási í næstu fjörðum. Öðru vísi er þessu farið með suðaustanveður sem standa af fjalli og geta orðið feikna hörð á vissum stöðum í firðinum. Magnús Bergsson dregur upp litríka mynd af slíkum óveðrum í sóknarlýsingu sinni 1839, sem hér verður gripið niður í (s. 448):

"Harka og afl þessara veðra er framúrskarandi og ógurlegt, þau taka fjörðinn frá ysta til innst í einlægt rok upp á móts við tinda, flytja stundum steina úr stað, sem eru meðalmanns tak, rykkja jafnvel hálffreðnum þökum af húsum, kippa króm og hjöllum frá veggjum og endog rífa naglföst borð af húsaræfrum. Um afl og óstjórn veðra þessara eru margar sögur, sem ótrúlegar virðast mættu, hvörra hér verður ei getið."

Í Fossá eru margir fossar nafnlausir og tekur þar einn öðrum fram. Upp af er Fosshlíð með götuslóða í átt að Fossdalsskarði, sem raflína liggur um, en Fanndalsskarð er litlu utar. Timburgatnaskarð er innar, milli Timburgatnatinds ytri, öðru nafni Nóntinds, og Timburgatnatinds innri. Nóntindur er eyktamark frá Stöð, allhár utanvert en lækkar inn að Timburgatnaskarði. Norður af gengur Nóngil djúpt og mikið niður í Stöðvardal og hefur skilað af sér Nónurð. Innan við hana er allstórt svæði kallað Hvalnessel, gilskorið land undir Selbrúnum og nær að Innsta-Selgili. Selstaða var þar fram yfir 1800 og skömmu fyrir 1840 bjó þar í eitt eða tvö ár með dætrum sínum tveimur Ástríður Eiríksdóttir ekkja eftir Jón Þorsteinsson vegghamar sem fengið hafði leyfi til að byggja á selinu. (Sóknalýsingar, s. 454. Minnisblað frá Önnu Þorsteinsdóttur frá Óseyri 2001). Stöðvará hefur fyrir alllöngu brotið niður tætturnar. Innan við Selgil eru Eyrar með ánni, Langahlíð upp af þar sem selið stóð og liggur Skágata upp hlíðina að Lönguhlíðarklettum neðan undir hamraflugum Breiðatinds. Tvö gil, Tvígil, eru innan við Lönguhlíð og Stórilækur gegnt Brennistöðum fellur niður af Stórulækjarbrúnum. Kistufjall (Lágafjall í sóknarlýsingu, s. 435) er ofar og nær að Gunnarsskarði utan undir Gunnarstindi. Gunnarsnafnið er rakið til smala á Árnastöðum í Breiðdal en hann var í tygjum við stúlku í Hvalnesseli. Spann hún band yfir skarðið og kippti í þegar hún vildi hitta elskhuga sinn. Þetta var áður farsími kom í brúk. (Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir í Múlaþingi 24). Þar niður af er hlíðin mjög gilskorin en grasflákar inn með Stöðvará og heita Hrútabotnar. Úr því þrengist um, áin komin í gil og fer að draga í dalstafn. Tveir uppháir tindar eru innan við Gunnarstind, heita til samans Klofatindur, og innan við er hvilft í fjalli nefnd Þúfutindsdalur og Þúfutindur hár kollur innan við hann. Styttist þá í Jökultind (sjá ramma).

Jökultindur og grennd

Jökultindur líkist glæstum píramída þar sem hann rís upp af hásléttu í um 1000 m hæð rétt inn af stafni Stöðvardals. Tindurinn er þrístrendur, skriðurunninn til hálfs en síðan taka við blágrýtishamrar, eitt hraunlag af öðru að hátindi. Nálgast má Jökultind úr öllum áttum en einna styst er að honum af Reindalsheiðarvegi eða aðeins um 2 km úr Reindalsheiðarskarði og liggur þá leiðin út Eggjar framhjá tindunum Njáli og Beru. Einnig er þangað hindranalaus leið inn úr Stöðvardal, um 11 km vegalengd í loftlínu frá Stöð að tindi og 1100 m á fótinn á þeirri leið. Auðveldast er að ganga á sjálfan tindinn að suðaustan, þeim megin sem snýr að Stöðvarfirði, en príla þarf þar upp nokkur klettahöft. Ekki liggja nú teljandi jökulfannir við tindinn en þó er einhver ís undir urð að norðvestan og þar niður af allhár urðarrani. Þetta er ólíkt því sem Magnús Bergsson dregur upp mynd af í sóknarlýsingu sinni 1839, en þar segir hann m. a. (s. 436):

"Við byggð eru öngvir jöklar í sókn þessari en ofan með Jökultindi austan megin hans, upp af vestanverðum stafni Stöðvardalsins, liggur Jökultangi sem er áfastur breiðri jökulsléttu er liggur þar norður af og sést ei framan úr byggðinni; úr þessari jökulsléttu ganga fleiri tangar, einn fram undir Þúfutind að vestan og annar austur af henni fram á brýr eins afdals er skerst upp og vestur í fjöllin úr vestanverðum stafni Fáskrúðsfjarðar. Þessi jökull er enginn eiginlegur jökull heldur einungis tilorðinn af gömlum snjógaddi er samfrosið hefur ár af ári og ei náð að þiðna á sumrum; hann hefur því engar byltingar eður gang né heldur neinn merkjanlegan vöxt, hann er sléttur að ofan og vel gengur en einungis sprungóttur í töngunum sem líkast til kemur af því að vatnið gjörir í hann grafninga af því það rennur þar á honum í meira hallanda."

Magnús Bergsson var rómaður göngumaður, heilsugóður og fór fótgangandi um sókn sína fram um nírætt. Af ofangreindri lýsingu verður ekki betur séð en hann hafi komið að Jökultindi, svo greinargóð er frásögnin. Afdalurinn sem hann getur um er líklega Jökuldalur austan Tungudals í Fáskrúðsfirði en suður af Jökultindi hallar niður í Tinnudalsdrög.

EFTIR Hjörleif Guttormsson

Höfundur er náttúrufræðingur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.