Með því að nýta saman hæðarmismun og gróður má skapa skjólgóða laut, en hér myndar hún skjól fyrir pottasvæðið.
Með því að nýta saman hæðarmismun og gróður má skapa skjólgóða laut, en hér myndar hún skjól fyrir pottasvæðið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hér á landi er mikið rætt um veður og er það ekki að ástæðulausu því samkvæmt mælingum er Ísland eitt vindasamasta land heims. Logn er því veður sem varir stutt og öll sólbaðsiðkun háð því að finna eða skapa skjólgóða staði.
Hér á landi er mikið rætt um veður og er það ekki að ástæðulausu því samkvæmt mælingum er Ísland eitt vindasamasta land heims. Logn er því veður sem varir stutt og öll sólbaðsiðkun háð því að finna eða skapa skjólgóða staði.

Þessir staðir þurfa líka að snúa þannig að sólin eigi gott með að skína á þá. Þannig er það samspil skjólmyndunar og sólargangs sem skipta mestu máli fyrir útivistariðkun á sólardögum í garðinum.

Hvernig sólin og skjólið spila saman

Á hverjum stað eru svokallaðar ríkjandi vindáttir. Þetta eru áttir sem vindurinn blæs oftast úr. Ríkjandi vindáttir geta verið mismunandi eftir árstíðum. Sumum vindáttum fylgir yfirleitt rigning eða væta en aðrar eru algengari í björtu veðri og því þurrari.

Þetta er bæði breytilegt eftir landshlutum og eftir því hver afstaða fjalla er. Þannig hefur til dæmis Esjan þau áhrif að þegar norðaustanátt er yfir landinu geta verið austan, norðaustan, norðan eða norðvestan áttir allt eftir því hvar á höfuðborgarsvæðinu maður er staddur.

Á suðvesturhorni landsins er algengasta áttin suðaustlæg. Þetta er jafnframt ein vætusamasta áttin. Önnur mjög algeng átt er norðlæg og norðaustlæg. Þessum norðlægu áttum fylgir yfirleitt bjart veður og sólskin. Þess vegna er mikilvægt þegar verið er að hanna útivistarsvæði í garðinum að skýla sig fyrir þessum áttum því útivistin er skemmtilegust í björtu og þurru veðri. Annar fylgifiskur staðbundinna vindátta er trekkur milli húsa en baráttan við hann getur verið erfið.

Einn mikilvægasti skjólgjafinn í venjulegum garði er íbúðarhúsið sjálft. Lögun þess og hvernig það er staðsett á lóðinni geta orðið til þess að mynda mjög gott skjól eitt og sér.

Þannig eru skot sem snúa í suðaustur heit á morgnana og skot sem snúa í suðvestur heit seinnipart dags og á kvöldin. Af þessum sökum geta óvæntir staðir við húsið verið mjög skjól- og sólríkir og þess vegna nýst til að drekka morgunkaffið.

Það eru einnig til dæmi þess að í ákveðnum vindáttum magni afstaða og staðsetning hússins upp trekk. Þegar þetta gerist þarf að skoða þessa staði vel og athuga hvort hægt sé að beina trekknum frá setu- og sólbaðssvæðum. Það sem er erfiðast að eiga við er þegar vindar blása ofan af þaki, en þá getur lega skjólveggja jafnvel magnað upp áhrif vindanna.

Besta leiðin til þess að nýta það skjól sem húsið myndar er að nota skjólveggi sem beina vindinum utar í garðinn og gera það að verkum að skjólsvæðin við húsið verða stærri. Skjólveggirnir eru ýmist gerðir úr timbri, steypu eða þá hlaðnir. Í mörgum tilfellum er einnig hægt að notast við umhverfisvænni aðferðir eins og gróður eða hæðir og hóla.

Skjólmyndun með tréveggjum

Það fyrsta sem þarf að hafa í huga þegar verið er að mynda skjól er hvernig vindur hagar sér. Það skiptir miklu máli að átta sig á því að við skrúfum ekki fyrir vindinn með því að setja upp skjól heldur erum við að beina vindinum annað. Ef settur er upp veggur þvert á vindstefnuna þá erum við ekki að stoppa vindinn því loftið í vindinum verður alltaf að fara eitthvað.

Vindur lyftir sér yfir vegginn og smýgur einnig framhjá honum. Þannig myndast skjólsvæði hlémegin við vegginn. Vindurinn hverfur ekki heldur þrýstir hann sér yfir vegginn og myndar skjólsvæði hlémegin við hann en að sama skapi er trekkurinn mjög sterkur efst á veggnum þar sem hann er að þrýsta sér yfir.

Ef skjólveggir eru reistir án þess að hugsa áhrif þeirra til enda er alltaf hætta á að í sumum áttum verði til hvirflar. Þannig getur t.d. skjólveggur hlémegin við hús tekið á móti vindi frá þakinu og beint honum inn á dvalarsvæðið. Um staðsetningu og hæðir skjólveggja gilda ákveðnar reglur. Ef veggirnir eiga að verða hærri en 180 cm þá þarf að sækja um leyfi til byggingarfulltrúa. Að sama skapi þarf veggur sem er í þessari hámarkshæð að vera sem nemur hæðinni (í þessu tilfelli 180 cm) fyrir innan lóðamörk.

Þegar verið er að nota gróður til þess að mynda skjól er yfirleitt verið að hugsa til lengri tími. Það þarf líka að spá í hvort skjól fáist allt árið eða bara yfir sumarið. Fljótlegasta leiðin til þess að fá skjól er að nota víðiplöntur en margar þeirra geta náð 1,5-2 m á 5-10 árum. Þar sem plássið er nóg og möguleiki á því að bíða eftir að trén vaxi getur verið upplagt að nota sitkagreni eða blágreni. Þannig næst skjól allan ársins hring þar sem grenið heldur barrinu yfir vetrartímann.

Skjólmyndun með hæðum og hólum

Hæðir, hólar, brekkur, gjótur og lautir eru oft skjólsælir staðir í íslenskri náttúru. Það er því upplagt að líkja eftir þessum aðstæðum í görðum til þess að skapa skjól fyrir útivistarsvæði fjölskyldunnar. Það má einnig nota þessa aðferð til að mynda skjól fyrir gróður og hraða þannig vexti hans.

Það er gömul hefð fyrir því að gera skeifu úr jarðvegi til að mynda skjól. Þetta er áberandi við marga af eldri sumarhúsum landsmanna. Þá hefur jarðvegi verið rutt upp í 1-2 m háan ílangann, skeifulaga grasþakinn hól en slíkir hólar eru oft nefndir manir. Hóllinn er þannig í laginu að þægilegt er að leggjast í grasbrekkuna í innanverðri skeifunni.

Algengast er að þessar skeifur snúi mót suðri eða suðvestri þannig að sólin skíni vel á þær en veiti jafnframt skjól fyrir öllum norðlægum áttum. Til þess að auka skjólið jafnvel enn meira er hægt að lækka svæðið skjólmegin manarinnar og útbúa þannig laut.

Staður fyrir þvottasnúrur

Þó að aðalbaráttan snúist um að búa til skjól er það vel þess virði að velta því fyrir sér til hvers eigi að nýta vindasamari hluta garðsins, t.d. þá staði sem vindur hefur magnast vegna staðsetningar skjólveggja.

Slíkur staður er upplagður fyrir þvottasnúrur því góður blástur er ómissandi til þess að þvotturinn þorni sem fyrst. Það er einnig hægt að setja upp litlar vindmyllur til skrauts á þessa staði eða jafnvel vindhörpur sem mynda þýða tóna þegar vindurinn leikur um þær.