Á námsárum mínum fyrir miðja síðustu öld lögðu móðurmálskennarar áherzlu á, að nemendur notuðu smáorðið að í sambandi við margar samtengingar, enda væri það upprunalegt í íslenzku máli, en hefði svo fallið niður í almennu tali.

Á námsárum mínum fyrir miðja síðustu öld lögðu móðurmálskennarar áherzlu á, að nemendur notuðu smáorðið að í sambandi við margar samtengingar, enda væri það upprunalegt í íslenzku máli, en hefði svo fallið niður í almennu tali. Má þar nefna sem dæmi samtengingar eins og því að, af því að, svo að o.s.frv. Þetta var einnig tekið skýrt fram í málfræðibókum. Býst ég raunar við, að svo sé enn gert. Hins vegar veit ég ekki, hversu mikil áherzla er nú lögð á að benda nemendum á þennan mun. Hitt sé ég aftur á móti við blaðalestur, að bæði blaðamenn og aðrir, sem skrifa í blöðin, sleppa mjög oft þessum hluta tengingarinnar. Sama hygg ég, að sjá megi einnig oft í bókum og tímaritum. Virðist þetta óneitanlega benda til þess, að þessu atriði sé lítið sinnt í kennslu og nemendur hafi hér frjálst val. Eru þá dæmi sem svo: Hann gerði þetta af því hann mátti til. Hann verður kyrr svo þú getir farið. Í þessum dæmum og mörgum öðrum er kommunni síðan sleppt á undan tengingunni samkv. þeim að mínum dómi þarflausu kommureglum, sem komið var á 1974 og hafa í reynd lítið gert annað en rugla marga herfilega í ríminu. Samkv. því, sem gilti í þessum efnum lengst af fram eftir síðustu öld, hefðu menn ritað ofangreindar setningar þannig: Hann gerði þetta, af því að hann mátti til. Jafnvel má breyta hér aðeins um og skrifa: Hann gerði þetta af því, að hann mátti til. Hér kemur greinilega fram áherzlumunur, sem síður kemst til skila, ef menn sleppa að. Hér vil ég einungis benda lesendum á þetta til umhugsunar. Svo er aftur annað atriði, sem sjálfsagt er að minna á í þessum pistlum og er gagnstætt því, sem hér hefur verið fjallað um. Er það notkun smáorðsins að með samtengingum, þar sem það á alls ekki heima. Verður það til umræðu í næsta pistli.

- J.A.J.