Miroslav Klose fagnaði með lipurlegu heljarstökki eftir að hann skoraði annað mark sitt af þremur í stórsigri Þjóðverja, 8:0, á Sádi-Arabíu á HM í knattspyrnu í Sapparo í Japan.
Miroslav Klose fagnaði með lipurlegu heljarstökki eftir að hann skoraði annað mark sitt af þremur í stórsigri Þjóðverja, 8:0, á Sádi-Arabíu á HM í knattspyrnu í Sapparo í Japan.
ÞJÓÐVERJAR voru ekki langt frá því að jafna markametið í lokakeppni HM er liðið skellti slöku liði Sádi-Araba, 8:0, í fyrsta leik liðanna í E-riðli sem fram fór í Sapporo í Japan.

ÞJÓÐVERJAR voru ekki langt frá því að jafna markametið í lokakeppni HM er liðið skellti slöku liði Sádi-Araba, 8:0, í fyrsta leik liðanna í E-riðli sem fram fór í Sapporo í Japan. Markametið er í eigu Ungverja sem lögðu El Salvador að velli á Spáni árið 1982, 10:1. Árið 1954 skoraði Ungverjaland níu mörk gegn Kóreu og 1974 gerði Júgóslavía slíkt hið sama gegn Zaire. Þetta er stærsti sigur Þjóðverja til þessa en árið 1954 lagði liðið Tyrki, 7:2, og lið Mexikó, 6:0, í Argentínu árið 1978. Lærisveinar Rudi Völlers verða ekki dæmdir út frá þessum leik því lið Sáda var með eindæmum slakt.

Miroslav Klose skoraði þrennu og öll með skalla, en þeir Michael Ballack, Carsten Jancker, Thomas Linke, Oliver Bierhoff og Bernd Schneider bættu við mörkum. Reyndar skoraði Jancker mark í upphafi leiksins sem var dæmt af, en að flestra mati gerði dómari leiksins mistök í því tilviki. Þjóðverjar skoruðu fjögur mörk í hvorum hálfleik fyrir sig og áttu Sádar eitt skot að marki í öllum leiknum.

Rudi Völler sagði fyrir keppnina að liðið ætlaði sér í átta liða úrslit. "Leikmenn liðsins voru ótrúlega einbeittir frá upphafi til enda og það leyndi sér ekki að allir voru tilbúnir í verkefnið. Við vorum reyndar aldrei í vafa að okkur tækist að leggja Sáda að velli," sagði Völler.

Nasser Al Johar þjálfari Sádi-Araba tók á sig alla ábyrgð. "Ég er vonsvikinn en ég ber ábyrgðina á þessum úrslitum. Hinsvegar eigum við enn möguleika og við ætlum að sýna hvað í okkur býr í næstu leikjum," sagði Al Johar.

Tomasson skellti Úrúgvæ

Danski landsliðsmaðurinn Jon Dahl Tomasson var í aðalhlutverkinu þegar Danir lögðu Úrúgvæ að velli í fyrsta leik liðanna á HM, en Tomasson skoraði bæði mörk Dana í 2:1 sigri þeirra. Dario Rodriguez jafnaði metin á 47. mínútu, með viðstöðulausu skoti utan af velli og má búast við að mark Rodriguez sé nú þegar líklegt til þess að verða valið glæsilegasta mark keppninnar. Tomasson kom Dönum yfir á 44. mínútu og hann skallaði knöttinn af krafti í slá og inn á þeirri 82., og tryggði Dönum sigur. Tomasson er á leið til ítalska liðsins AC Milan í haust eftir áralanga dvöl hjá Feyenoord í Hollandi.

Leikur Dana var yfirvegaður og gefur góð fyrirheit um framhaldið á meðan lið Úrúgvæ virtist ekki í jafnvægi. Alvaro Recoba átti besta færi þeirra í fyrri hálfleik. Morten Olsen þjálfari Dana var að vonum ánægður með sigurinn en hann var í liði Dana sem sigraði Úrúgvæ, 6:1, á HM í Mexíkó árið 1986.

"Við náðum tökum á leiknum eftir 25 mínútur. Það er mikilvægt að ná hagstæðum úrslitum í fyrsta leik á stórmóti. Slíkt eykur sjálfstraust leikmanna. Að mínu mati var sigur okkar sanngjarn og við sýndum það að leikmenn okkar eru í betra líkamlegu ásigkomulagi."

Olsen bætti því við að Frakkar væru enn sigurstranglegir þrátt fyrir áfallið gegn Senegal.

"Við megum búast við gríðarlega erfiðum leik nk. fimmtudag gegn Frökkum."

Þjálfari Úrúgvæ var upplitsdjarfur þrátt fyrir tapið en margir spekingar telja að liðið fari ekki langt án þess að grafa fyrst upp hinn kunna "grófa" leikstíl liðsins.

"Við lékum vel í dag en Danir skoruðu þegar mest á reyndi. Við höfum hinsvegar ekki gefist upp og æltum að berjast í næstu tveimur leikjum," sagði Victor Pua.

Þess ber að geta að Jon Dahl Tomasson á ættir sínar að rekja til Íslands, afi hans var Íslendingur, fæddur í Hafnarfirði, og sonur hans, Bjarne, er faðir Jon Dahls.

Líf í Írum án Roy Keane

Leikmenn írska landsliðsins og hinn umdeildi Mick McCarthy þjálfari liðsins sýndu að það er líf í liðinu þrátt fyrir fjaðrafokið í kjölfar þess að fyrirliði liðsins, Roy Keane, var sendur heim á leið áður en keppnin hófst. Írar áttu í höggi við Kamerún í fyrsta leik E-riðils í gær og lyktaði leiknum með jafntefli, 1:1.

Lið Kamerún sýndi ágæta takta og sýndi á köflum að þar fer lið sem getur náð langt í keppninni, en leikur þess þótti kraftmikill en að sama skapi lipur.

Patrick Mboma skoraði fyrra mark leiksins á 39. mínútu fyrir Kamerún eftir undirbúning Samuel Eto. Shay Given markvörður Íra mátti hafa sig allan við á 18. mínútu er hann varði glæsilega frá Eto.

Matt Holland jafnaði metin fyrir Íra á 52. mínútu með bylmingsskoti eftir að Raymond Kalla varnarmanni Kamerún mistókst að hreinsa frá marki sínu.

Írar voru mun sterkari í síðari hálfleik og aðeins tréverkið á marki Kamerún kom í veg fyrir að Robbie Keane skoraði á 82. mínútu en knötturinn small í stöng.

Mick McCarthy sagði eftir leikinn að þungu fargi hafi verið létt af sér og leikmönnum sínum.

"Síðasta vika var okkur erfið. Það var gott að fara með eitt stig í farteskinu úr þessum leik. Viðureignin var góð auglýsing fyrir íþróttina og við náðum að sýna mun betri leik í síðari hálfleik. Allir leikmenn liðsins eiga hrós skilið og fá klapp á bakið frá mér," sagði McCarthy.

"Ég skoraði tvö mörk í undankeppninni sem voru svipuð þessu marki. Það var því gott að sjá knöttinn í netinu. Við erum með eitt stig og það skipti öllu máli að tapa ekki þessum leik. Núna sjáum við bara til hvað við getum gert í framhaldinu," sagði Matt Holland markaskorari Íra.

Winfried Schafer þjálfari Kamerún var vonsvikin í leikslok, sérstaklega í ljósi þess að lið hans átti gott færi á 51. mínútu en skömmu síðar skoraði Matt Holland jöfnunarmarkið. "Við stýrðum fyrri hálfleik en Írar þeim síðari þannig að jafntefli eru kannski sanngjörn úrslit. Aftur á móti fengum við tækifæri til þess að komast í 2:0 en þess í stað gerum við varnarmistök og fáum á okkur mark. Ég var órólegur í síðari hálfleik er Írar sóttu í sig veðrið. Lið þeirra á eftir að koma á óvart," sagði Schafer.