BERGLIND Eik Guðmundsdóttir útskrifaðist frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ 25. maí sl. með meðaleinkunnina 9,7. Þar með varð hún dúx skólans.

BERGLIND Eik Guðmundsdóttir útskrifaðist frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ 25. maí sl. með meðaleinkunnina 9,7. Þar með varð hún dúx skólans. Berglind var í svokölluðu hraðnámi, þar sem hún var með það góðar einkunnir úr grunnskóla, og lauk því stúdentsprófinu á þremur árum.

Þrátt fyrir það tókst henni að dúxa, en 9,7 er meðaltal einkunna úr öllum áföngum sem hún tók á þessum árum. Fékk hún fjórar áttur, átta níur og rúmlega fjörutíu tíur.

Berglind, sem verður nítján ára í sumar, segir aðspurð í samtali við Morgunblaðið að það hafi að sjálfsögðu kallað á ákveðna vinnu að ná góðum árangri. Einnig skipti máli að ná ákveðinni tækni. "Þetta er spurning um að vinna jafnt og þétt, mæta í tímana, ná góðum glósum og lesa efnið vel yfir," segir hún. Jafnframt því sem hún sinnti náminu var hún gjaldkeri nemendafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Einnig segist hún stunda íþróttir. Í viðurkenningarskyni fyrir góðan námsárangur hlaut Berglind ýmsar bækur í verðlaun á útskriftardaginn. Aðspurð hvað hún hyggist taka sér fyrir hendur í haust segist Berglind stefna á læknisfræði við Háskóla Íslands.