INDVERJAR vísuðu í gær á bug yfirlýsingum Pakistana um að þeir hefðu hert tökin á íslömskum öfgamönnum og kváðust vera að íhuga viðbrögð við því. Sagði varnarmálaráðherra Indlands, að engin lausn væri í sjónmáli.

INDVERJAR vísuðu í gær á bug yfirlýsingum Pakistana um að þeir hefðu hert tökin á íslömskum öfgamönnum og kváðust vera að íhuga viðbrögð við því. Sagði varnarmálaráðherra Indlands, að engin lausn væri í sjónmáli.

Lal Krishna Advani, innanríkisráðherra Indlands, sagði í gær, að ekkert benti til, að Pakistanstjórn reyndi að koma í veg fyrir árásir inn í Kasmír. Sagði hann, að Pakistanar hefðu í raun haldið uppi hernaði gegn Indverjum í tvo áratugi og nú væru Indverjar að hugleiða alvarlega hvernig því skyldi svarað. George Fernandes, varnarmálaráðherra Indlands, sagði að ekkert benti til, að lausn fyndist á deilunni í bráð.

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði hins vegar í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, að vísbendingar væru um, að Pakistanstjórn væri að láta til skarar skríða gegn íslömskum öfgamönnum.

Bandaríkjamenn, Bretar, Ástralir, Kanadamenn og Nýsjálendingar hafa ráðlagt þegnum sínum að yfirgefa Indland og Pakistan og í gær bættust Frakkar í þann hóp. Hefur flestum stjórnarerindrekum þessara ríkja verið sagt að fara heim og Sameinuðu þjóðirnar ákváðu í gær að senda heim fjölskyldur starfsmanna sinna í ríkjunum.

Nýju-Delhi, Washington. AP, AFP.