John Culver
John Culver
"ÉG tel að breska konungsveldið hafi mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn, sérstaklega þá gesti sem eiga ekki slíku að venjast," segir John Culver, sendiherra Breta á Íslandi.

"ÉG tel að breska konungsveldið hafi mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn, sérstaklega þá gesti sem eiga ekki slíku að venjast," segir John Culver, sendiherra Breta á Íslandi. "Ferðamennirnir velta því þá gjarnan fyrir sér hvernig eitthvað sem virst getur svo gamaldags eigi sinn stað í nútímanum. Maður þarf þó ekki annað en að ganga niður Whitehall að morgni til og sjá þann mikla fjölda fólks sem fylgist með varðaskiptunum til að sannfærast um aðdráttaraflið sem konungsfjölskyldan hefur. Og persónulega þá vona ég að heimsókn þeirra fái þá líka til að velta fyrir sér þeim gildum sem við Bretar tengjum konungsfjölskyldunni."

Aðdráttarafl konungsfjölskyldunnar verkar þó ekki síður sterkt á heimamenn, en að sögn Culver hefur sá mikli áhugi sem almenningur hefur sýnt krýningarafmælinu komið breskum fjölmiðlum verulega í opna skjöldu. "Það er greinilega mjög mikill áhugi meðal almennings sem virðist telja fulla ástæðu til að fagna krýningarafmælinu og að 50 ára stjórnartíð þessarar drottningar sé hið besta mál." Culver bætir við að þótt þær raddir heyrist stundum í breskum fjölmiðlum að þingbundin konungsstjórn eigi lítið erindi á 21. öldinni sýni skoðanakannanir að almenningur sé á allt öðru máli."Ég tel líka að kongungsríkið sem slíkt hafi, undir stjórn drottningar þróast í takt við tíðarandann. Það má að sjálfsögðu alltaf rökræða um það hvort nokkur nái að fylgja tíðarandanum fullkomlega, en drottningin og konungsfjölskyldan hafa sannarlega verið mjög meðvituð um að reyna slíkt," segir Culver og bendir á sem dæmi að hin síðari ár hafi Elísabet tekið upp á því að borga skatta líkt og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Elísabet er sögð vel að sér í málefnum samfélagsins og má sem dæmi nefna að drottningin les daglega öll stóru dagblöðin sem gefin eru út í Bretlandi. "Þeir tíu forsætisráðherrar sem farið hafa með stjórn landsins á þeim tíma sem drottningin hefur setið í hásæti hafa allir minnst þessa sérstaklega. Drottningin er þá ekki bara vel lesin í þeim skilningi að hún hafi kynnt sér ríkismálin og viti hvað dagblöðin segi, heldur virðist hún líka geta haldið betur í við hugsanagang þjóðarinnar en sumir stjórnmálamannanna hafa getað."

Tímar nýrra vona

Culver var aðeins fjögurra ára gamall er Elísabet tók við af föður sínum, en hann segir andrúmsloftið engu að síður hafa verið minnisstætt. "Þetta var tími nýrra vona og það skilaði sér jafnvel til þeirra sem voru jafnungir og ég. Stríðinu var lokið, miklar þjóðfélagsbreytingar voru að eiga sér stað í Bretlandi og ég tel að krýning drottingarinnar hafi náð þeim anda vel. Hér vorum við við upphaf hinnar nýju aldar Elísabetar eins og það var gjarnan kallað. Fólk minntist þá þess gróskutíma sem ríkti á tímum Elísabetar I, nú gafst annað tækifæri til að upplifa slíkt og ég minnist þessa sem spennandi tímabils."

Culver segir fylgismenn drottingar jafnt sem lýðveldissinna þá sammála um að Elísabet hafi allt frá fyrstu árum verið hún sjálf. Bæði stöðug og samviskusöm. "Einn af þeim fréttabútum sem sýndir hafa verið hjá breskum sjónvarpsstöðvum undanfarið í tengslum við krýningarafmælið sýna drottninguna halda ræðu rétt rúmlega tvítuga að aldri og þar segir hún: "Ég mun tileinka líf mitt því að þjóna þegnum mínum."

Þetta hjómar sérkennilega í dag og ekki hvað síst úr munni ungrar konu, en hún hefur svo sannarlega staðið við orð sín og gert það sem hún hét fyrir öllum þessum árum og fyrir það nýtur hún óneitanlega virðingar."