Martin kynnir Óskarshátíðina: Skyldi hann sjálfur eignast styttu?
Martin kynnir Óskarshátíðina: Skyldi hann sjálfur eignast styttu?
FERILL Steves Martins er orðinn býsna fjölskrúðugur; hann hefur þróast frá uppistandi og brandaraskrifum yfir í galnar gamanmyndir yfir í alvarlegri hlutverk, handritsskrif og skáldskap.

FERILL Steves Martins er orðinn býsna fjölskrúðugur; hann hefur þróast frá uppistandi og brandaraskrifum yfir í galnar gamanmyndir yfir í alvarlegri hlutverk, handritsskrif og skáldskap. Þetta hefur gerst á alllöngum tíma, enda Martin orðinn 57 ára gamall og nýtur orðið ekki síður virðingar en vinsælda fyrir fjölhæfni sína.

Jim Carrey hefur fetað þessa braut í humátt á eftir Martin en á þó langt í land enda mun yngri maður. Carrey hefur verið að reyna að sanna að hann sé meira en geifluglaður sprelligosi að hætti Jerrys Lewis, en Steve Martin er fyrir löngu búinn að því. Carrey hefur ekki enn tekist að skapa sér persónuleika sem leikari; hans hæfileikar birtast frekar með tæknilegum kúnstum og það er eitthvað kalt og útreiknað við framgöngu hans, þrátt fyrir hamsleysið. Steve Martin með sitt gráhvíta hár hefur yfirbragð feimins, umkomulauss hversdagsmanns, sem bælir niður í sér léttgalinn villimann og berst við að missa ekki stjórn á lífi sínu. Carrey bælir ekkert; hann er allur á útopnu. Þegar best lætur nær Martin að miðla af manneskjulegri hlýju tilvistarvanda einstaklings sem nútíminn er að éta upp.

Villti, tryllti náunginn

Ef þetta hljómar of alvöruþrungið er rétt að benda á að Steve Martin er heimspekimenntaður frá Kaliforníuháskóla, en, vel að merkja, stundaði þar einnig nám í leikhúsfræðum. Hann var hlédrægur og einrænn táningur, en fékk mikla útrás í að tileinka sér "hitt og þetta" úr heimi leiklistar og skemmtibransa, til dæmis steppdans, fjölleikakúnstir, töfrabrögð, enda fékk hann sumarstarf í Töfrabúðinni í Disneyland, og banjóleik, sem hann varð reyndar feikiflinkur í. Að loknu námi velti hann því fyrir sér að gerast heimspekikennari en æringinn í honum náði yfirhöndinni. Martin fór að semja grín fyrir sjónvarpsstjörnur á borð við The Smothers Brothers, Dick Van Dyke, Glen Campbell, John Denver og Sonny og Cher. Stöku sinnum var honum leyft að koma fram í þáttunum en uppistand lagði Martin ekki fyrir sig fyrr en seint á 7. áratugnum. Þá hafði hann flutt sig um set til Kanada og kom fram reglulega í skemmtiþætti sem nefndist Half the George Kirby Comedy Hour. Á fyrstu árum 8. áratugarins var Steve Martin orðinn eftirsótt opnunaratriði á rokkkonsertum, kom fram síðhærður og skeggjaður í litríkum klæðnaði og sagði dópbrandara. Fljótlega sneri hann þó blaðinu við og breytti um sviðsímynd; hann varð vel klædda snyrtimennið sem kemur upp um brjálæðinginn í sér með því að falla í stafi yfir eigin aulabröndurum, setti upp kanínueyru eða ör í gegnum höfuðið. Vörumerki hans voru fastir frasar eins og "Excu-u-use me!", "Happy feet!" og, ekki síst, "I am one wild and crazy guy!" Þessi karakter sló rækilega í gegn, ekki síst hjá ungu kynslóðinni, sem fann samhljóm með manni sem umhverfið reynir að staðla en sprengir sig frjálsan.

Ekki svo vitlaus

Þegar leið á 8. áratuginn fór Martin að þreytast á uppistandsgríninu og þreifaði fyrir sér í kvikmyndum. Hann kom fram í hinni misheppnuðu tónlistarmynd Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band (1978), þar sem hann flutti Maxwell's Silver Hammer, en fyrsta aðalhlutverkið var The Jerk ári síðar, sem hann skrifaði einnig handritið fyrir. Myndin var útfærsla á uppistandskarakternum, einum voða vitlausum, og voru senurnar misfyndnar. Carl Reiner leikstýrði. Í sjálfu sér hefði Martin getað haldið áfram að unga út svona skyssumyndum í anda Jerrys Lewis, en sem betur fer stóð metnaður hans til fjölþættari verkefna. Hann leikstýrði og lék í stuttmyndinni The Absent-Minded Waiter, sem færði honum Óskarstilnefningu og tók þá áhættu að leika í söng- og dansdrama Dennis Potters, Pennies From Heaven, sem innihélt prýðileg atriði en hékk trauðla saman sem heild. Næst komu þrjú samstarfsverkefni þeirra Reiners, Dead Men Don't Wear Plaid (1983), lunkin skopstæling á gömlu einkaspæjaramyndunum sem tengdi myndefni þeirra fimlega við nýleikin atriði, The Man With Two Brains (1983), þar sem Martin lék sjálfsupptekinn skurðlækni og Kathleen Turner flagð undir fögru skinni, og All Of Me (1984), sem var tímamótamynd á ferli Martins og blandaði gamni og alvöru í hárréttum hlutföllum. Martin fór á algjörum kostum í hlutverki manns sem lendir í bölvuðum hremmingum með búkinn á sér þegar sál Lily Tomlin tekur sér þar bólsfestu! Þarna sannaði Martin getu sína sem leikari, en ekki bara grínari, og myndin markaði einnig þau tímamót að hann kynntist við tökurnar bresku leikkonunni Victoria Tennant og var kvæntur henni til 1994.

Aukin alvara

Eftir All Of Me fór Steve Martin að jarðtengja húmor sinn betur; hinn geggjaði leikstíll vék fyrir mildari og mannlegri túlkun. Til marks um þetta er ekki síst nútímaleg útgáfa Martins á sögunni um Cyrano de Bergerac, Roxanne (1987). Myndir hans á þessum árum voru misjafnar en hann tók aukna áhættu með hverju verkefni. Hann var til dæmis ekkert sérlega geðugur sem stressaður kaupsýslumaður sem lendir í slagtogi með óhefluðum alþýðumanni Johns Candy í hinni bráðfyndnu Plains, Trains and Automobiles (1989) eftir John Hughes. Hann fann nýja dýpt sem örvæntingarfullur faðir í Parenthood (1989) eftir Ron Howard og ekki síður í grafalvarlegu hlutverki kvikmyndaframleiðanda í dramanu Grand Canyon (1991) eftir Lawrence Kasdan. Martin samdi og lék í L. A. Story (1991), laglegu en lágstemmdu svari við Manhattan Woodys Allen. Og hann naut mikillar hylli sem afbrýðissamur faðir brúðarinnar í rómantísku gamanmyndinni Father Of the Bride (1991) og framhaldi hennar. Ekki var hann alveg jafn trúverðugur sem platprédikari í Leap Of Faith (1992).

Hann færði stöðugt út kvíarnar, lék á sviði í Beðið eftir Godot undir stjórn Mikes Nichols og skrifaði leikritið Picasso at the Lapine Agile. Hann lék afar myrkan karakter í flókinni og snjallri spennumynd Davids Mamet, The Spanish Prisoner (1992) en sneri aftur til grínsins í The Out-of-Towners á móti Goldie Hawn. Skopádeilan Bowfinger (1999) var bráðvel samin og leikin af Martin, þar sem hann var mislukkaður en úrræðadrjúgur kvikmyndaframleiðandi á móti Eddie Murphy. Nýja myndin, Novocaine, sem frumsýnd verður hérlendis á næstunni, er blanda af gamni og spennu, gerð af nýjum leikstjóra, David Atkins, og leikur Martin tannlækni sem á fellur grunur um morð eftir að kynþokkafullur sjúklingur dregur hann á tálar. Og senn verður gerð mynd eftir metsöluskáldsögu hans, Shop Girl. Um það verkefni hefur hann sagt, að ýmsir framleiðendur hafi falast eftir því. "Ég sagði: Ef þið haldið að þið getið tekið þessa bók, breytt henni og snúið á haus, Hollywoodvætt hana og skipt um endi þá... verðið þið að greiða hátt gjald." Þetta minnir á önnur ummæli Martins: "Ég hef aldrei sóst eftir öðru en heiðarlegum vikulaunum fyrir heiðarlegt dagsverk!" Og: "Mín skoðun er sú, að kynlíf sé það fallegasta, eðlilegasta og heilbrigðasta sem falt er fyrir peninga..."