Costner í Dragonfly: Ástarsamband út fyrir gröf og dauða?
Costner í Dragonfly: Ástarsamband út fyrir gröf og dauða?
KEVIN Costner, sem um árabil beggja vegna við 1990, var einn helsti gulldrengur Hollywood, hefur í seinni tíð einkum tengst röð af mistökum, misheppnuðum myndum, svo mörgum að sumir hafa sem næst afskrifað hann sem fallna stjörnu.

KEVIN Costner, sem um árabil beggja vegna við 1990, var einn helsti gulldrengur Hollywood, hefur í seinni tíð einkum tengst röð af mistökum, misheppnuðum myndum, svo mörgum að sumir hafa sem næst afskrifað hann sem fallna stjörnu. Það er leitt, því Costner hefur alla burði til að halda á lofti merki hinnar þöglu, sterku karlmennskutýpu, og tekur við þeim kyndli af mönnum á borð við Gary Cooper og Clint Eastwood. Hann hefur sannað að hann getur, þegar aðstæður allar eru réttar, túlkað viðkvæmni ekki síður en hörku, og skilað persónusköpun sem er flóknari en nemur töffurum og hetjum; hann er náunginn í næsta húsi, sem þó er ekki allur þar sem hann er séður. Costner er aðlaðandi leikari, með ríka persónutöfra, hæfileika í leikstjórn, sjálfstæði, metnað og greind, en minni dómgreind. Að ekki sé minnst á óheppnina.

Niðurlægingartími hinn fyrri

Í raun má skipta ferli leikarans í tvö ólánstímabil með drjúgri velgengni þess á milli. Svo kaldhæðnislegt, sem það kann að virðast nú, hugðist Costner leggja markaðsfræði fyrir sig og stundaði nám í þeim fræðum við ríkisháskólann í Kaliforníu þegar hann fór að leika með flokki áhugamanna. Eftir að hann útskrifaðist 1978, 23 ára að aldri, fékk hann starf í markaðsmálum en sagði upp eftir mánuð og fór að þreifa fyrir sér í leiklist. Hann var á þvælingi í Hollywood milli leikhópa og leikprufa í nokkur ár en þótt mönnum litist frekar gæfulega á manninn fundu þeir honum ekki verðugan bás.

Og nú hófst niðurlægingartímabil númer 1: Í frumraun sinni fyrir kvikmyndaverin í Hollywood, gamanmyndinni Night Shift (1982) eftir Ron Howard, þjónaði Costner eins og hver annar leikmunur. Í næstu mynd, sama ár, ævisögudramanu Frances, heyrðist í honum utan myndar, en ekkert sást. Frægasta ólán Costners á þessum tíma var þó þegar Lawrence Kasdan réði leikarann í mikilvægt hlutverk í The Big Chill (1983), þ.e. hlutverk manns, sem fremur sjálfsvíg og vinirnir safnast saman til að minnast hans. Hlutverkið er semsagt sjálf grunnforsenda atburðarásarinnar og átti persóna Costners síðan að birtast á tjaldinu í afturhvörfum. Það gekk ekki eftir. Öll afturhvörfin lentu á gólfi klippiherbergisins og það eina sem sást af leikaranum var klæðnaður hans, og hár og hendur þegar útfararstjórinn undirbýr hann fyrir greftrun í upphafsatriðinu. Fyrir þetta hlutverk hafði aumingja Costner hafnað aðalhlutverkinu í spennumyndinni War Games, sem Matthew Broderick hreppti í staðinn.

Lawrence Kasdan var með böggum hildar í tvö ár vegna þess að honum fannst hann hafa brugðist leikaranum. Hann ákvað að bæta fyrir brot sitt og fékk hinn ólánssama í eitt aðalhlutverkanna í vestranum Silverado (1985). Þar lék Costner harðsnúinn byssubófa, var í nánast hverri senu og stóð sig vel.

Velgengnistími hefst

Nú snerist dæmið við og skömmu síðar var Kevin Costner kominn á hvers manns varir í kvikmyndaborginni eftir að hafa slegið í gegn í samsæristryllinum No Way Out og í hlutverki Elliots Ness í The Untouchables eftir Brian De Palma. Þessi staða styrktist enn þegar Costner lék í tveimur hornaboltadrömum í röð, Bull Durham (1988) og Field Of Dreams (1989).

Nú var engu líkara en Kevin Costner gæti ekkert gert rangt. Velgengni hans í fyrrnefndum myndum gerði honum kleift að fá fjármagn, 18 milljónir dollara, til að leikstýra fyrstu mynd sinni. Dances With Wolves (1990) var prýðilega gerður en dálítið þunglamalegur vestri um samskipti hermanns í borgarastríðinu og frumbyggja indíána. Myndin rokgekk í miðasölunni en fékk einnig mikið brautargengi á Óskarshátíðinni, hreppti sjö verðlaun, þar af fyrir bestu mynd og bestu leikstjórn.

Árið eftir byrjuðu gagnrýnendur að narta í Costner fyrir misheppnaðan enskan hreim í hlutverki Hróa hattar í mynd þáverandi vinar hans, Kevins Reynolds, Robin Hood: Prince Of Thieves. Þrátt fyrir það nart skein stjarna Costners svo skært á Hollywoodhvelfingunni að almennir bíógestir kærðu sig kollótta. Þetta sama ár, 1991, dugði stjörnublik hans til að gera pólitíska ádeilumynd Olivers Stone, JFK, gjaldgenga í miðasölunni. Þegar Costner fékk í hendur gamalt handrit Kasdans, sem nefndist The Bodyguard og var samið fyrir Steve McQueen, gerði hann fyrstu alvarlegu mistökin, því myndin sem hann lék í með söngkonunni Whitney Huston var skelfilega yfirborðsleg og væmin afþreying. Enn héldu þó bíógestir tryggð við leikarann.

Niðurlægingartími hinn seinni

Árið 1993 snerist dæmið hins vegar við: A Perfect World, sem Clint Eastwood leikstýrði og lék í á móti Costner, var dramatísk spennumynd um flótta strokufanga (Costners) undan löggunni (Eastwood) og endaði út í móa, jafnt efnislega, í miðasölunni og hjá gagnrýnendum. Það var miður því sjálfur sýndi Costner flóknari leik en oft áður. Og annað samstarfsverkefni þeirra Kasdans, vestrinn Wyatt Earp (1994), var hunsaður af áhorfendum jafnt sem gagnrýnendum.

Nú var seinna niðurlægingartímabilið hafið og átti eftir að versna. Waterworld (1995) var rándýr framtíðarsýn með heimsendisívafi, sviðsett í víðernum úthafs. Costner var sterkur í aðalhlutverkinu og myndin með stórfenglegum átakasenum, en Kevin Reynolds leikstjóri réð ekki við að skapa úr efninu þétta heild. Costner greip sjálfur inn í og reyndi að bjarga því sem bjargað varð og slitnaði þar með samstarf og vináttusamband þeirra Reynolds. Myndin kolféll og er í hópi stærstu skella sögunnar. Nú var ljóst að dómgreind Kevins Costner hafði dregið sig í hlé. Hann virðist hafa fengið snert af spámannssting, því næsta leikstjórnarverkefni hans var einnig heimsendisdrama, The Postman, sem gerist eftir kjarnorkustríð. Sjálfur lék Costner titilhlutverkið, eins konar frelsaratýpu sem vitnar í Shakespeare um leið og hann reynir sameina Bandaríkin að nýju. The Postman var annar stórskellur.

Costner virtist gjörsamlega heillum horfinn, hvort heldur sem hann valdi sér að leika á sjó eða landi. Hann prófaði að gera hvort tveggja í rómantíska dramanu Message in a Bottle (1998) en allt kom fyrir ekki; myndin er ótrúverðug, væmin og grunn. Hann prófaði að snúa aftur til hornaboltadrama í For the Love Of the Game eftir Sam Raimi en einnig hún fór fyrir lítið. Hann prófaði að snúa aftur til pólitísks ádeiludrama í Thirteen Days (2000), þar sem hann lék ráðgjafa Kennedys forseta í Kúbudeilunni, en var sjálfur til vandræða, persónan eigrandi milli forsetaskrifstofu og heimilis síns í fullkomnu tilgangsleysi. Og lægst lagðist hann í 3,000 Miles To Graceland sem bófi í Elvisgervi. Sú mynd geispaði golunni við fæðingu.

Ástin á kvikmyndunum

Þegar Kevin Costner tók við Óskarsverðlaununum fyrir Dances With Wolves sagði hann að yrði sú mynd hans helsta verk "mun ég ekki hlaupa undan skugga hennar". Ekki er alveg ljóst hvað hann átti við, en hitt er ljóst að Costner hefur aldrei afneitað mistökum sínum. Hann hefur valið verkefni sem hann hefur trúað á, burtséð frá því sem stjórnendur Hollywoodveranna eða umboðsmenn hafa viljað. "Ég hef aldrei gert mynd fyrir launatékkann (sem á mesta velgengnistímanum nam 20 milljónum dollara per mynd) og ég hef aldrei gert mynd bara vegna þess að ég hafði tíma til að gera hana. Ég hef gert þær myndir sem mig langaði til að gera," hefur hann sagt í viðtali. Hann viðurkennir að neikvæð gagnrýni undanfarinna ára hafi snert hann, en segir hana ekki breyta ákvörðunum sínum. Hann leyfir sér meira að segja að þykja vænt um skellina sína. Um The Postman hefur hann til dæmis sagt: "Mér þykir vænt um hana. Fyrir mig er hún stórkostlegt nútíma ævintýri. Fjöldi fólks hefur skrifað mér bréf um þau áhrif sem hún hefur haft á viðkomandi. Á ég að afskrifa þetta fólk? Er mælikvarðinn á gildi kvikmyndar í miðasölunni? Fyrir mig er ekki svo." Hann stóð að framleiðslu Thirteen Days vegna þess að hann taldi málefnið þarft, að endurvekja umræðuna um kjarnorkuvopn. "Heimurinn er fullur af kjarnorkuvopnum. Hvers vegna trúa menn því að við séum öruggari nú en þá? Enginn vill af þessu vita. Bandaríkin hafa þurrkað út um 400 samfélög af yfirborði jarðar. Við minnumst ekki mikið á það." Hann barðist fyrir For Love Of the Game, sem Universal-félagið gróf undan með því að klippa burt atriði svo myndin fengi lægra aldurstakmark. "Þetta er mjög góð kvikmynd. Minn leikur í henni er eins góður og ég get orðið. En ég mun aldrei fyrirgefa þeim eða gleyma hvernig þeir fóru með hana." Costner tekur fram að atriðin sem klippt voru burt hafi ekki verið með sér. "Ég er ekki að hugsa um mig, heldur myndina. Ég er að hugsa um áhorfendur sem greiða aðgangseyrinn. Ef Hollywood telur mig þar með ekki tilheyra liðsheild sinni get ég vel lifað með því."

Kevin Costner segir ást á kvikmyndalistinni á undanhaldi í draumaverksmiðjunni. Og hann er ekki af baki dottinn, því sama draumaverksmiðja er ekki alveg hætt að veita honum ný tækifæri. Reyndar er hann á leiðinni á ný upp á hestbak, því Disneyfélagið hefur trúað honum fyrir vestranum Open Range, sem hann byrjar að taka nú í júní og leikur sjálfur á móti Robert Duvall. Costner segir í viðtali við The Hollywood Reporter að Open Range sé "ljóðrænt verk um lögmál vináttunnar og fólk sem er tilbúið að deyja fyrir þau lögmál."

Dragonfly, sem frumsýnd er hérlendis um helgina, hefur gengið ívið skár en nýliðnir skellir leikarans, þótt ekki beri dómgreindinni gott vitni að hann hafnaði hlutverkinu, sem Michael Douglas hreppti í Traffic, til að taka þátt í henni. Dragonfly flokkast undir yfirnáttúrulega spennumynd um mann sem missir konuna sína en telur hana sækja á sig eftir dauðann.

"Að gera mistök er vanmetin reynsla í Bandaríkjunum," sagði Kevin Costner fyrir nokkrum árum í viðtali við Newsweek. "Fólk er svo hrætt við að gera mistök að það reynir ekkert nýtt. Ég er ekki hræddur við það. Jafnvel þótt ég tapi geri ég það þó á mínum forsendum, ekki annarra."

Vonandi hefur Costner fengið nóg af þessari vanmetnu reynslu í bili.