Halldór þurfti að bíða í klukkustund við varðstöð Ísraelshers í Nablus, á leið sinni í skóla sem Íslendingar áttu þátt í að byggja. Síðan þurftu Íslendingarnir að taka á sig klukkustundar krók til að forðast ófriðarsvæði.
Halldór þurfti að bíða í klukkustund við varðstöð Ísraelshers í Nablus, á leið sinni í skóla sem Íslendingar áttu þátt í að byggja. Síðan þurftu Íslendingarnir að taka á sig klukkustundar krók til að forðast ófriðarsvæði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra fór í gær til Nablus, þar sem hann heimsótti Al Aqrabanieh-skólann, sem byggður var með aðstoð Íslendinga.

HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra fór í gær til Nablus, þar sem hann heimsótti Al Aqrabanieh-skólann, sem byggður var með aðstoð Íslendinga. Utanríkisráðherra þurfti að bíða í klukkustund við varðstöð Ísraelshers við Nablus á leiðinni í skólann og þurfti svo að taka á sig klukkustundar krók til að forðast átakasvæði. Í skólanum var íslensku gestunum tekið fagnandi, en síðan lá leiðin í flóttamannabúðirnar í Jenín.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hóf heimsókn sína til sjálfstjórnarsvæða Palestínumanna í Betlehem í fyrradag þar sem hann skoðaði Fæðingarkirkjuna og ummerki um fjörutíu daga umsátur Ísraelshers um kirkjuna nú í vor. Hann heilsaði einnig upp á börn sem nutu skemmtunar trúða fyrir utan kirkjuna, þáði hnetur og rúsínur að gjöf frá götusala og heimsótti ráðhúsið í Betlehem þar sem honum var m.a. sýndur uppsprengdur peningaskápur sem Palestínumenn segja að Ísraelsher hafi rænt. Þá voru ráðherranum sýndar skemmdir á og við Fæðingarkirkjuna og skriðdrekaför á götum. Mest er þó eyðileggingin í menningar- og fræðslumiðstöð sem reist var fyrir gjafafé frá sænsku þjóðinni en þar hafði Ísraelsher aðsetur á meðan á hernaðaraðgerðunum stóð.

"Mér fannst ákaflega hátíðlegt að koma að þeim stað þar sem frelsarinn er fæddur," sagði Halldór eftir að hafa skoðað sig um í borginni. "Þetta er staður sem er afskaplega sterkur í huga allra Íslendinga. Á sama tíma erum við hins vegar að verða vitni að þeirri miklu eyðileggingu sem hér hefur átt sér stað. Ég sé hér margt sem hefur gerst sem ég held að verði aldrei skýrt. Það má vel vera að það sé alltaf þannig þegar stríð og átök geisa en það er til dæmis erfitt að sjá rökin fyrir því að ráðast inn á skrifstofur borgarinnar og eyðileggja þar öll gögn."

Halldór sagði það einnig hafa haft mikil áhrif á sig að heyra að börn í bænum kæmust ekki í skóla og sjá fjölmargar verslanir við Fæðingarkirkjuna lokaðar þar sem engir ferðamenn komi lengur til Betlehem. "Það er alveg ljóst að lífið hérna getur ekki haldið áfram nema þetta breytist og að það að ná samningum hlýtur að vera sigur allra. Það getur ekkert verið verra en þetta."

Nablus. Morgunblaðið.