MARGMIÐLUNARSKÓLINN verður í framtíðinni sérstakur skóli innan Iðnskólans í Reykjavík samkvæmt samkomulagi milli Rafiðnaðarskólans og Prenttæknistofnunar, sem áður ráku skólann í sameiningu, og Iðnskólans.

MARGMIÐLUNARSKÓLINN verður í framtíðinni sérstakur skóli innan Iðnskólans í Reykjavík samkvæmt samkomulagi milli Rafiðnaðarskólans og Prenttæknistofnunar, sem áður ráku skólann í sameiningu, og Iðnskólans. "Með samkomulaginu sameinast Margmiðlunarskólinn Iðnskólanum sem mun reka hann sem deild eða sérstakan skóla," segir Baldur Gíslason, skólameistari Iðnskólans. Hann verður einnig skólastjóri Margmiðlunarskólans með sameiningunni.

Skólagjöld Margmiðlunarskólans verða felld niður, að sögn Baldurs, því til að byrja með verður skólinn á framhaldsskólastigi innan Iðnskólans og innritunargjöld í samræmi við það. Margmiðlunarskólinn mun flytjast í húsnæði Iðnskólans. Hluti af tækjabúnaði Margmiðlunarskólans verður fluttur í Iðnskólann, að sögn Baldurs.

Byggt ofan á grunnnám

Margmiðlunarnámið í Iðnskólanum verður í stórum dráttum á sömu nótum og áður, að sögn Baldurs.

"Í Iðnskólanum er kennt grunnnám af sama toga og það sem kennt er í Margmiðlunarskólanum og við munum byggja þetta nám ofan á það. Því er óhætt að segja að Margmiðlunarskólinn verði skóli innan skólans, við ætlum að nemendur fari ekki inn í margmiðlunarnámið nema að loknu undirbúningsnámi í framhaldsskóla."

Stefnt er að því að nám í Margmiðlunarskólanum verði tvö ár eftir framhaldsskóla. Inntökuskilyrði verða tveggja ára nám í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum, sveinspróf í bókagerðagreinum, tölvubrautum, nám af listnámsbrautum eða annað sambærilegt nám. "Við munum leggja metnað okkar í að sinna þeim nemendum sem flytjast með skólanum, gagnvart þeim höfum við ákveðnum skyldum að gegna," segir Baldur. Þá á hann von á að einhverjar fjöldatakmarkanir verði á náminu í framtíðinni.

Góð viðbót við nám Iðnskólans

Sameiningin tekur gildi frá og með deginum í dag, 1. júní, og munu því þeir nemendur Margmiðlunarskólans sem eru að ljúka námi, brautskrást frá margmiðlunardeild Iðnskólans í Reykjavík. Samkvæmt samkomulagi munu nýir og eldri nemendur, vegna næstu anna, verða innritaðir í Iðnskólann og námið auglýst og kynnt á hans vegum.

Baldur segir að Rafiðnaðarskólinn og Prenttæknistofnun muni ekki koma að rekstri Margmiðlunarskólans. Hann segir að undirbúningur sameiningarinnar hafi staðið um hríð en rekstarerfiðleikar fóru að gera vart við sig hjá Margmiðlunarskólanum í byrjun ársins.