LAGADEILD Háskóla Íslands hefur nú í fyrsta skipti sent nýstúdentum um land allt bréf þar sem fram fer kynning á lagadeildinni. Að sögn Kolbrúnar Lindu Ísleifsdóttur, kennslustjóra lagadeildar HÍ, er þetta m.a.

LAGADEILD Háskóla Íslands hefur nú í fyrsta skipti sent nýstúdentum um land allt bréf þar sem fram fer kynning á lagadeildinni. Að sögn Kolbrúnar Lindu Ísleifsdóttur, kennslustjóra lagadeildar HÍ, er þetta m.a. gert til að bregðast við aukinni samkeppni íslenskra menntastofnana um verðandi laganema. Jón Steinar Gunnlaugsson, sem ráðinn hefur verið prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, frá og með næsta hausti segir að það veki auðvitað sérstaka athygli ef lagadeild Háskóla Íslands taki upp á því að skrifa nýstúdentum sérstakt bréf til að hræða þá frá því að setjast í lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hann segir að lagadeild Háskólans í Reykjavík muni hefja kennslu næsta haust og sinna þar fullri lagakennslu, þ.e. útskrifa fullnuma lögfræðinga.

Í kynningarbréfinu er vakin athygli á því að lagadeild HÍ er eina lagadeildin sem býður upp á laganám til embættisgengis hérlendis. Orðrétt segir: "Lagadeild Háskóla Íslands er eina háskóladeildin sem útskrifar lögfræðinga með embættispróf, en það (eða sambærilegt próf) er forsenda þess að fá að starfa sem lögmaður eða dómari hér á landi."

Um þetta segir Kolbrún Linda: "Þetta er kynning á lagadeild Háskóla Íslands sem er og hefur verið eina deildin sem býður enn upp á fullgilt embættispróf í lögfræði." Fram til þessa hefur lagadeildin ekki haft þann háttinn á að eiga samskipti við verðandi laganema áður en nám hefst, fyrr en skráningar liggja fyrir.

Í bréfinu er m.a. fjallað um uppbyggingu laganámsins og samstarf við aðrar háskóladeildir.

Kolbrún segir að tilurð bréfsins sé einnig tilkomin vegna ákveðinnar gagnrýni sem komið hafi fram á lagadeildina, sem lýtur að meintri einsleitni í deildinni. Þannig hafi verið gagnrýnt að laganemar séu steyptir í sama mót og læri allir það sama án þess að eiga val í námi. Þetta segir Kolbrún að hafi breyst mikið á undanförnum tveimur áratugum og nú standi laganemum margfalt fleiri valmöguleikar til boða innan deildarinnar en fyrr á árum. "Þeir sem segja að laganámið hafi lítið breyst, eru kannski þeir sem útskrifuðust milli 1970 og 1980 og vita því ekki um þær breytingar sem gerðar hafa verið á lagadeildinni síðan þá," segir Kolbrún Linda.

Lögum verði breytt

Jón Steinar Gunnlaugsson, sem ráðinn hefur verið prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík frá og með 1. september nk., segir að lagadeild Háskólans í Reykjavík muni hefja kennslu næsta haust og sinna fullri lagakennslu, þ.e. útskrifa fullnuma lögfræðinga. "Fram að þessu hefur eins og menn vita bara verið starfandi á Íslandi ein háskóladeild sem útskrifar lögfræðinga; lagadeild Háskóla íslands," segir hann og bætir því við að með tilkomu lagadeildar Háskólans í Reykjavík virðist sem upp sé komin samkeppni, vegna hennar. "Það vekur auðvitað sérstaka athygli ef lagadeild Háskóla Íslands tekur upp á því að skrifa nýstúdentum sérstakt bréf til að hræða þá frá því að setjast í lagadeild Háskólans í Reykjavík á þeirri forsendu að þeir lögfræðingar sem þaðan útskrifast muni ekki fá réttindi til að starfa sem lögmenn og dómarar." Jón Steinar segir það vera hreina fjarstæðu að fara fram með þessum hætti. "Það er að vísu rétt að í núgildandi lögum um lögmenn er sérstaklega vitnað í Háskóla Íslands, þ.e. að skilyrði fyrir því að fá réttindi sé að hafa lokið embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands. En ástæðan fyrir því að sá skóli er nefndur í lögunum er auðvitað sú að það er eini skólinn sem hefur útskrifað lögfræðinga."

Jón Steinar segir að það geti þó ekki verið að nokkrum, allra síst lögfræðimenntuðum manni, detti það í hug að það verði hægt í íslenskum lögum, þegar önnur lagadeild hafi tekið til starfa, að veita lagadeild HÍ einhver sérréttindi í því að útskrifa lögfræðinga. "Það myndi sennilega vera brot á almennum reglum um jafnræði sem gilda í samfélaginu," segir Jón Steinar, og bætir því við að það veki auðvitað mikla undrun að ný lagadeild við Háskólann í Reykjavík trufli virðulega prófessora við lagadeild HÍ svo mjög að þeir sendi frá sér bréf sem vitnað er til hér að ofan. "Það er ástæða til að taka það fram að það er enginn vafi á því að lögum verður breytt þannig að ekki verður gert upp á milli skólanna að þessu leyti."

Ekki búið að taka afstöðu

Samkæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu hefur ráðuneytinu borist erindi frá Háskólanum í Reykjavík þar sem því er beint til ráðuneytisins að breyta gildandi lögum í samræmi við það að Háskólinn í Reykjavík bjóði upp á nám sem hafi það að markmiði að útskrifa lögfræðinga. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hefur þó enn ekki verið tekin afstaða til þessarar beiðni.