Hannes Lárusson
Hannes Lárusson
HANNES Lárusson, sem beið lægri hlut fyrir Pjetri Stefánssyni í formannskjöri Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM), segir að í bígerð sé að stofna ný samtök, enda sé óánægja meðal starfandi myndlistarmanna með störf stjórnar sambandsins.

HANNES Lárusson, sem beið lægri hlut fyrir Pjetri Stefánssyni í formannskjöri Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM), segir að í bígerð sé að stofna ný samtök, enda sé óánægja meðal starfandi myndlistarmanna með störf stjórnar sambandsins.

Hannes segir að sambandið hafi ekki verið málsvari starfandi listamanna. "Og alls ekki þess hóps félagsmanna sem telst vera framsækinn og metnaðarfullur. Sá hópur hefur orðið undir," segir hann.

Á aðalfundi sambandsins, sem haldinn var á miðvikudag, var Pjetur Stefánsson endurkjörinn formaður með 111 atkvæðum, Hannes hlaut 69 atkvæði, en Áslaug Thorlacius 63. Í stjórn voru kosin Ragnhildur Stefánsdóttir, Þorvaldur Þorsteinsson og Einar Garibaldi. Í varastjórn voru kjörin Ósk Vilhjálmsdóttir og Valgarður Gunnarsson. Einar og Ósk sögðu af sér strax á fundinum, af óánægju með niðurstöðu hans. Kosin var þá ný varastjórn og náðu kjöri Pétur Örn Friðriksson og Inga Elín Kristinsdóttir. Pétur Örn sagði svo af sér.

Framboð gegn formanni af svipuðum toga

Hannes segir að framboð Áslaugar til formanns hafi verið að vissu leyti af sama toga og hans, eiginlega klofningsframboð. "Til þess kom meira af misskilningi en af ágreiningi," segir hann.

Hann segir hugmynd að stofnun nýrra samtaka hafa verið til í nokkur ár. "Menn hafa talið að tími sé kominn til að stofna samtök starfandi listamanna, sem væru málsvari þeirra en ekki þeirrar breiðfylkingar sem myndar SÍM og samanstendur að mestu leyti af lítið starfandi áhugafólki," segir hann. Hann segir að ákveðið hafi verið að láta einu sinni enn á það reyna hvort hægt sé að breyta SÍM innanfrá, en nú sé það fullreynt og lítið að gera annað en að stofna ný samtök.

Afgerandi kosning

Um kosninguna á aðalfundinum segir Pjetur Stefánsson formaður það að vissu leyti vera gott að menn takist á. Þarna hafi baráttan snúist um túlkun á lagagreinum. "En niðurstaðan í formannskosningu var sú að ég hlaut mikið traust og afgerandi kosningu," segir hann. Hann vill ekki tjá sig ítarlega um afstöðu þeirra sem sögðu af sér. "Auðvitað er ekki gott þegar fólk segir af sér. Þetta er ágætis fólk, en það verður að gera þetta upp við sig sjálft. Samkvæmt kosningafyrirkomulagi ganga næstu menn inn í stjórnina," segir hann.