Helgi Tómasson að lokinni frumsýningu á Svanavatninu hér á landi í fyrra, en áhorfendur fögnuðu honum mjög og risu úr sætum með húrrahrópum og lófaklappi.
Helgi Tómasson að lokinni frumsýningu á Svanavatninu hér á landi í fyrra, en áhorfendur fögnuðu honum mjög og risu úr sætum með húrrahrópum og lófaklappi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Tómasson segir að honum hafi verið gefið svo margt í lífinu að hann langi til að skila einhverju af því til baka. Fyrir skömmu var hann sæmdur heiðursdoktorsnafnbót frá Juilliard-listaháskólanum í New York og Fríða Björk Ingvarsdóttir ræddi af því tilefni við hann um þær menningarlegu hræringar sem mótað hafa danslist undanfarinna áratuga og hans eigin þátt í því ferli.

ÞÓTT rúm fjörutíu ár séu síðan Helgi Tómasson lagði land undir fót til þess að sigra ballettheiminn, þarf ekki að kynna hann fyrir þjóðinni. Hann er eitt óskabarna hennar, og með elju sinni og listrænu innsæi tókst honum að skapa sér nafn meðal þeirra ballettdansara heimsins sem hvað sterkast mótuðu tuttugustu öldina. Fyrir rúmri viku var hann sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Juilliard-listaháskólann, þar sem starfi hans sem listdansstjóra San Francisco-ballettsins var lýst á líkum nótum og glæstum dansferlinum, en rektor skólans, Joseph W. Polisi, sagði m.a. að fyrir tilstilli listrænnar sýnar Helga, staðfestu og trúmennsku, "hefði San Francisco ballettinn kannað nýjar víddir í framsæknum verkum eftir alþjóðlega listamenn samtímans, jafnframt því að standa vörð um glæsileika hinnar klassísku hefðar".

Helgi rifjar brosandi upp fyrstu kynni sín af ballettdansi þegar hann var lítill drengur í Vestmannaeyjum. "Mamma fór með tvíburasystur sinni á sýningu fjögurra dansara frá danska konunglega ballettinum. Og líklega hefur það verið frænka mín sem sagði við mömmu að ég gæti haft gaman af þessu svo hún hljóp heim í hléinu og sótti mig. Ég hef verið svona rúmlega fimm ára gamall og áhrifin voru svo gífurleg," segir Helgi og hlær, "að eftir það mátti ég ekki heyra tónlist í útvarpinu án þess að reyna að leika það eftir sem ég hafði séð á sviðinu, stökkva og snúa mér."

Dansararnir í Vestmannaeyjum voru ekki af verri endanum, en leiðir Helga og eins þeirra, Stanley Williams, áttu eftir að liggja saman á nýjan leik löngu seinna. Helgi segir hann vera þann ballettkennara sem hafi haft einna mest áhrif á sig í gegnum tíðina. "Hann kom hingað til New York nánast á sama tíma og ég og var nýfarinn að kenna við Balanchine-skólann þegar ég fékk námsstyrk til að læra hér."

Danssnámið hóf Helgi strax níu ára gamall í Reykjavík, hjá Sif Þórs og Sigríði Ármann. "Tíu ára var ég byrjaður í Listdansskóla Þjóðleikhússins og þau Bidsted-hjónin [Erik og Lise] fóru með mig til Danmerkur ári síðar í þrjá mánuði yfir sumartímann." Helgi viðurkennir að hann hafi strax verið mjög efnilegur, "en fyrsta árið fór ég þó ekki til að dansa, ég var bara í Tívolí allan daginn og fannst það óskaplega spennandi. Þrettán ára fór ég svo aftur með þeim og fimmtán ára var ég loks farinn að dansa sjálfur í Tívolí. Þaðan í frá dansaði ég þar á sumrin en var svo í gagnfræðaskóla heima á Íslandi yfir vetrartímann.

Framtíð ballettsins er í New York

Loks kom svo að því að ég hitti Jerome Robbins, sem var þá með dansflokkinn sinn, Ballett USA, heima á Íslandi. Og hann bauð mér námsstyrk í New York."

Það var árið 1960 og Helgi ekki nema átján ára gamall. Hann dansaði þó aftur sumarið 1961 í Kaupmannahöfn, en að sögn Helga var það Erik Bruhn sem sendi hann rakleitt til baka til New York. "Framtíð ballettsins er þar, sagði hann einfaldlega við mig, svo ég sneri aftur og fór að leita mér að vinnu. Í janúar 1962 komst ég loksins að hjá Joffrey Ballet og tveimur árum síðar var ég kominn í Harkness-ballettflokkinn sem ég dansaði með í sex ár."

Árið 1969 var Helgi fulltrúi Bandaríkjanna í alþjóðlegu listdanskeppninni í Moskvu og hlaut silfurverðlaun, en gullverðlaunin féllu í skaut Mikhail Baryshnikov, en þeir tveir settu síðan mark sitt á ballettheiminn um langt skeið þaðan í frá. Stuttu síðar Helgi gekk til liðs við New York City Ballett, þar sem hann dansaði í fimmtán ár við fádæma góðar undirtektir.

Fyrstu ár Helga í Bandaríkjunum voru að sönnu umbrotatímar í listum, og hinn menningarlegi bakgrunnur allra listanna breyttist mikið og hratt. Það er því forvitnilegt að heyra hvernig Helgi hafi upplifað þessa tíma í gegnum danslistina sem á svo sterkar rætur í klassískri hefð.

Hann segist hafa verið ákaflega heppinn. "Robert Joffrey, sem ég vann með á fyrstu árunum hér, var eiginlega fyrstur til að bjóða danshöfundum úr nútímadanshefðinni að koma og vinna verk fyrir sinn klassíska ballettflokk," segir hann og það lifnar yfir honum við upprifjun á þessum listrænu straumhvörfum. "Á þessum tíma var ég einungis klassískur ballettdansari, en í gegnum þessar hræringar fékk ég innsýn í alveg nýjan heim og tækifæri til að upplifa nútímadans. Það var algjör nýjung fyrir mig og ég hreifst mjög."

Helgi segir engan vafa leika á því að fyrir þessi áhrif hafi honum tekist að samtvinna þá klassík sem hann hafði kynnst í Evrópu og það sem var ferskast í danslistum í New York. "Og það eru sömu áhrif sem hafa raunverulega skapað mig sem stjórnanda í San Francisco," segir hann með áherslu. "Ég var hjá [George] Balanchine í fimmtán ár en hann og Robbins sömdu flest verkin á þeim tíma, svo ég dansaði mjög marga nýja balletta. Þetta voru mín bestu ár, það leikur enginn vafi á því," segir Helgi einfaldlega, "en þegar ég fór sjálfur að stjórna löngu seinna, þá leitaði ég aftur í tímann - í þessu fyrstu ár og minntist spenningsins sem fylgdi því að taka þátt í einhverju nýju og framandi."

Þú ert þá í rauninni að vinna úr þeim straumhvörfum sem þá áttu sér stað, í starfi þínu sem danshöfundur í dag?

"Að nokkru leyti, en þetta eru mjög spennandi tímar fyrir mig. Fólk segir að það sem ég hef gert fyrir San Francisco-ballettinn sé ótrúlegt miðað við þennan stutta tíma sem ég hef verið þar, en það sem allir taka eftir er sköpunargleðin sem ég hef fóstrað þar. Það á ekki bara við um klassíska ballettinn, heldur allt litróf dansins - og þá ekki síst það sem tengist samtímanum. Ég hef virkjað ólíka krafta úr dansheiminum til þess að vinna með okkur við öll stílbrigði danslistarinnar, en það hefði ég aldrei getað nema vegna þess að ég hafði reynsluna af ólíkum straumum sjálfur. Margir þeirra danshöfunda og listdansstjóra sem nú ber hæst, höfðu engin kynni af því sem ég upplifði, því þeir komu mun seinna inn í dansheiminn. Peter Martins [sem nú stýrir New York City Ballett] kom t.d. beint inn í New York City-flokkinn og hefur unnið á þrengra sviði en ég, eða nær eingöngu með stíl Robbins og Balanchine. Sjálfur vann ég hins vegar líka með Mörthu Graham, Alvin Ailey, Jack Cole og mörgum fleirum."

Fæ minn innblástur úr tónlistinni

Má þá finna hliðstæður í þróun danslistarinnar og þess sem hefur átt sér stað í tónlist og myndlist - þú vinnur t.d. mikið með samtímatónlist?

"Ég hef samið mikið af dansverkum við samtímatónlist," segir Helgi en vill greinilega ekki hafa of mörg orð um eigin danssmíðar. "Ætli það megi ekki segja að ég fái minn innblástur úr tónlistinni, en það getur verið hvaða tónlist sem er. Ég samdi t.d. verk við fyrsta píanókonsert Beethovens fyrir New York City flokkinn sem var ákaflega vel tekið, en núna síðast gerði ég verk við tónlist kínverka samtímatónskáldsins Bright Shen. Verkið heitir Chi-Lin, sem þýðir "Einhyrningur" og fjallar um goðsögulegar skepnur; fönixinn, drekann, skjaldbökuna og einhyrninginn. Það er því ekkert mynstur í minni vinnu hvað innblásturinn varðar, ég heyri bara eitthvað og hugsa með mér - þetta er stórkostlegt - og stundum hefur samtímatónlist hreinlega þau áhrif á mig að ég er óðara farinn að semja dansverk."

Þegar fimmtíu ár voru liðin frá því að skrifað var undir stofnsamning Sameinuðu þjóðanna skipulagði Helgi rómaða alþjóðlega danshátíð í San Francisco þar sem 12 flokkar hittust til að sýna dansverk sem samin voru af danshöfundum frá jafnmörgum löndum úr flestum heimsálfum. Þessi viðburður var um margt einstakur, ekki síst vegna þess að þar var svo mörgum þjóðernum teflt saman. Það er því forvitnilegt að vita hvort ballettlistin, sem í eðli sínu er mjög vestræn, sé orðin nógu öflug til að takast á við fjölmenningarleg áhrif?

"Ballettinn er orðinn mjög alþjóðlegur og það vekur t.d. eftirtekt hversu vinsæll hann er nú í Japan og Kína. Fjölmenningarlegu áhrifin, eða þjóðlegu áhrifin sér maður þó ekki mikið í klassískum ballett, þau koma helst fram í nútímadansinum."

Ef við víkjum að líkamanum sem verkfæri dansarans, þá má segja að á þeim tíma sem þú hefur helgað danslistinni hafi orðið mikil hugarfarsbreyting hvað varðar viðhorf til líkamlegrar tjáningar og þau tækifæri sem þar gefast?

"Já, það er alveg rétt. Gullöld New York City flokksins var um 1972 rétt eftir að ég byrjaði þar og hún varir þar til Balanchine deyr 1983. Sú gullöld var grundvölluð á sköpunargleði og jafnframt á hugmyndum um útlit dansarans. Balanchine kaust helst hávaxnar konur og vildi hafa þær í grennri kantinum en þau áhrif hafa smitað gjörvallan dansheiminn, jafnvel þannig að það gengur of langt í sumum tilfellum. En hann var þó fyrst og fremst að leita eftir ákveðinni heildarmynd. Allt endurspeglast þetta í viðtökum áhorfenda og því hvernig fólk horfir eða skoðar. Fólk er mun frjálslyndara þegar það horfir á líkama í dag heldur en það var áður fyrr. En konunglegi ballettinn í Englandi er t.d. ennþá dálítið stífur," segir Helgi glettnislega, bregður á leik og grettir sig aðeins. Hann segir þá sem starfa í Bandaríkjunum mun frjálsari til athafna í dansinum og að það eigi einnig við um klassíska ballettinn. "En það frelsi kom einnig inn í ballettinn úr öðrum listum."

Útgeislunin tengd upprunanum?

Anna Kisselgoff sagði blaðamanni að Helgi hefði notið þess að vera ekki fæddur í Bandaríkjunum hvað frjálslega líkamstjáningu varðaði. Að hennar mati bar dansstíll hans og tjáningarmáti þess augljós merki að hann var ekki fæddur inn í þá "púritanísku hefð sem Bandaríkin byggja á", eins og hún orðar það. Helgi hlær bara þegar þetta er borið undir hann og segist aldrei hafa hugsað út í það, en það megi svo sem vel vera að hluti af hans útgeislun sem dansara hafi tengst uppruna hans. Hann kannast í það minnsta strax við að viðhorf hans til vinnunnar hafi líklega verið dæmigert fyrir Íslending.

"Ég hef tamið mér ákveðna leið til að nálgast vinnuna. Ég var sendur í sveit á hverju sumri og tók þátt í öllu sem þurfti að gera þar, hvort sem það var að byggja nýtt fjárhús, mjólka beljur, eða taka þátt í sláturgerð. Ég hef aldrei verið latur," segir Helgi hlæjandi, en heldur svo áfram alvarlegur í bragði: "Kannski hefur það skapað mig sem listamann. Það sem skipti þó mestu máli var að ég vissi og trúði að ég myndi ná langt."

Hann segir þessa tilfinningu hafa tekið á sig mynd innra með honum mjög snemma, "og það þrátt fyrir að ég hefði ekki ákveðið að verða dansari fyrr en ég var orðinn sextán ára. Enda var það ekki fyrr en fyrsta árið í Kaupmannahöfn að ég hitti í fyrsta sinn aðra drengi á mínum aldri í kennslustundum. Bidsted var mjög harður kennari. Hann hrósaði mér stundum en lagði samt alltaf meiri áherslu á það sem þyrfti að lagfæra og gera betur. Svo það var ekki fyrr en ég kom til Kaupmannahafnar að ég sá að ég var bara nokkuð góður og stóð hinum að mörgu leyti framar. Seinna sumarið mitt þar, þegar ég var sextán ára, tók ég því endanlega ákvörðun um þarna lægi framtíð mín, og um leið var ég alveg sannfærður um að mér myndi takast ætlunarverk mitt."

Nú varst þú að koma af ráðstefnu listdansstjóra víðs vegar að í Toronto - er það mikil uppsveifla í ballettlist að slík ráðstefna skili árangri?

"Já," segir Helgi, og er nú kominn í stellingar stjórnandans sem ber hitann og þungann af því að laða fjárfesta eða stuðningsaðila að San Francisco-flokknum. "Við ræddum töluvert um þau sameiginlegu vandamál sem mæta okkur öllum þótt þau birtist í mismunandi myndum. Í Bandaríkjunum þurfum við að takast af einurð á við fjármögnun dansflokkanna, því án stuðnings einkaaðila eða atvinnulífsins gætum við ekki starfað þar sem við njótum engra ríkisstyrkja. Ef við miðum okkur t.d. við ballettflokkinn í Stuttgart þá er ólíku saman að jafna því sá flokkur fær allt sitt fjármagn frá ríkinu og þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því hvort dansað er fyrir 10 áhorfendur eða fullt hús."

Drifkraftur dansins af tilfinningalegum toga

Verður hin listræna sköpun öðruvísi fyrir vikið, t.d. af því að þau geti leyft sér að gera meiri tilraunir?

"Þau geta að mörgu leyti leyft sér meira - við þurfum að gæta okkar betur. En það sem vekur athygli er að sú tegund dansverka sem kemur frá Þýskalandi, er allt öðruvísi heldur en það sem sprettur úr okkar jarðvegi. Hér í Bandaríkjunum leggjum við mun meiri áherslu á hreyfinguna sjálfa, þ.e.a.s. kóreografíuna, en í Þýskalandi þykir brýnt að vera ögrandi. Sú ögrun getur í raun falist í hverju sem er, en því brjálaðri sem hún virðist þeim mun vinsælli er hún. Það er ekki mitt að dæma um hvort þetta er betra en það sem við erum að gera hér, en vissulega er verið að reyna að þenja út tjáningarmöguleikana. Það finnst mér við þó einnig vera að gera hér, með öðrum hætti. Það er eins og þjóðfélagsumræðan þurfi að vera hluti af dansinum í Evrópu, og þá sérstaklega í Þýskalandi. Hér í Bandaríkjunum finnst okkur við fá nóg af þeirri umræðu í gegnum sjónvarpið. Ég hef enga þörf fyrir að draga fólk inn í áhorfendasalinn og sýna því öll þau félagslegu vandamál sem við glímum við. Ég hef meiri áhuga á listrænu gildi dansins sjálfs.

Helgi bendir á að Evrópubúar eigi þessa ótrúlega löngu sögu og hefð á sviði lista, sem birtist m.a. í byggingarlist, söfnum og fleiru, og verður til þess að ungu fólki finnist það þurfa að rísa gegn fortíðinni. "Þegar það vinnur skapandi vinnu snýst hún gegn stofnanavaldinu - það langar til að spreyta sig á eigin spýtur en finnur svo þungt fyrir hefðinni að það þarf að gera uppreisn. Bandaríkin eru ungt land, eins og sést t.d. í byggingarlistinni og unga fólkið lifir í nútímanum og finnur ekki eins fyrir þunga sögunnar. Það hefur því oft hvarflað að mér hvort þetta sé ein ástæða þess að hér er svo mikill áhugi á klassískum ballett. Hann hverfist um hefðina og fegurðina sem fólk hér hefur þörf fyrir að tengjast frekar en að brjótast undan. Fólk hér tjáir sig öðruvísi af þessum orsökum."

Helgi segir að það séu því mörg sjónarhorn við lýði í dansheiminum í heild og það megi benda á að Frakkar séu t.d. að gera miklar tilraunir með nútímadans: "Það er þó ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að flest dansverk samtímans koma frá bandarískum danshöfundum. Við getum tekið William Forsythe sem dæmi, hann vinnur í Þýskalandi, en það er að hluta til vegna þess að þar er fjármögnun auðveldari. Sama má segja um John Neumeier í Hamburg og aðra sem vinna í Frakklandi og víðar. Það áhugaverðasta kemur því héðan að mínu mati, og Balanchine er þar á meðal. Hann var ótrúlegur og hafði ótrúlega víðræk áhrif, svo sem á Forsythe, Cunningham, Taylor og Morris - og mig sjálfan.

Persónulega finnst mér að drifkrafturinn í dansinum sé helst af tilfinningalegum toga. Þjóðfélagsleg umræða á mun betur heima í leiklistinni. Balanchine var vanur að spyrja mjög afhjúpandi spurninga, svo sem hvernig maður gæti túlkað tengdamóður í dansi? Það er ekki hægt," segir Helgi hlæjandi. "Og við verðum að horfast í augu við að það er svo margt sem ekki er hægt að tjá í gegnum dans. En þær skorður sem manni eru settar hafa þó tilgang sem listrænn agi eða aðhald. Mér finnst nauðsynlegt að við þjálfum með okkur hæfileikann til að skynja fegurðina í dansinum og þá möguleika sem mannslíkaminn felur í sér. Og þá er ég ekki einungis að vísa til þess sem tilheyrir klassíkinni heldur einnig til þess sem er nátengt samtímanum í nútímadansinum. Ég hrífst því mest af tilfinningalegum þáttum dansins en ekki af þörfinni til að messa yfir áhorfandanum um tilgang listarinnar, hlutskipti listamannsins eða eitthvað þess háttar - sú tjáning fellur mun betur að hinu talaða orði. Líf okkar er orðið svo flókið að ég er sannfærður um að nú sé þörf fyrir einfaldleika. Þegar við sækjum okkur "afþreyingu" á ballettsýningu í tvo tíma þá finnst mér nóg að heillast af fegurðinni, tónlistinni og hreyfingunni. Ég ætla ekki að halda því fram að við þörfnumst einskis annars í lífinu, en í mínum augum er þetta það sem danslistin hverfist um."

Langar að sýna alla liti regnbogans

Það er ljóst að hæfileikar Helga og listræn sýn hafa borið hróður hans víða og heiðursdoktorsnafnbótin sem hann var sæmdur í síðustu viku við Juilliard tónlistarháskólann er mikilvæg viðurkenning á því framlagi. Hann segist núna vera að uppskera fyrir það starf sem hann hefur verið að vinna í San Francisco undanfarin fimmtán ár, en framtíðin á þó hug hans allan. "Núna eru færri Balanchine-ballettar á efnisskránni hjá okkur en áður," segir Helgi, "þótt ég hiki aldrei við að segja að sú hefð sé afskaplega góð. En mig langaði til að sýna alla liti regnbogans í danslistinni; klassískina, nýklassíkina og nútímadansinn. Áhorfendur mínir eiga rétt á að sjá allt, og án þess að við leggjum upp með skilgreiningar um hvað er gamaldags og hvað ekki." Helgi segist í rauninni nota flokkinn eins og sinfóníuhljómsveit sem á að geta flutt hvað sem er.

Og hann sýnir engin þreytumerki. "Ég er góður á þessu sviði, þetta er það sem ég geri og þetta er það sem ég kann. Ég bý yfir svo mikilli þekkingu og löngun til að gefa yngri dönsurum eitthvað af mér, að mér finnst ég verða að halda áfram. Mér var gefið svo mikið. Ég fékk tækifæri til að eiga ótrúlegan dansferil og nú vil ég skila einhverju til baka."

fbi@mbl.is