Garðar Cortes tekur lagið ásamt félögum sínum við afhendingu nýja húsnæðis Söngskólans.
Garðar Cortes tekur lagið ásamt félögum sínum við afhendingu nýja húsnæðis Söngskólans.
Söngskólinn í Reykjavík tók formlega við nýju húsnæði skólans við Snorrabraut í gær kl. 16.30. Árið 1978 keypti skólinn Hverfisgötu 45, norska sendiráðið, af norska ríkinu. Nú, 24 árum og næstum 3.

Söngskólinn í Reykjavík tók formlega við nýju húsnæði skólans við Snorrabraut í gær kl. 16.30. Árið 1978 keypti skólinn Hverfisgötu 45, norska sendiráðið, af norska ríkinu. Nú, 24 árum og næstum 3.000 nemendum síðar, hefur skólinn keypt Snorrabraut 54 af tölvufyrirtækinu Oz, en húsið er betur þekkt sem hús Osta- og smjörsölunnar. Fyrsti kennarafundur í nýjum heimkynnum skólans var haldinn strax í gær klukkan fimm.

Garðar Cortes skólastjóri segir að nýja húsnæðið muni breyta miklu fyrir starfsemi skólans. "Rýmið eykst gífurlega og við verðum með stærri sali og meira rými fyrir söngkennsluna. Við flytjum úr 450 fermetra húsnæði í 800 fermetra hús og 280 fermetra húsi í 380 fermetra hús, þannig að þetta breytir öllu fyrir okkur og er miklu rýmra um starfsemina. Þarna eru líka fjörutíu bílastæði og ýmislegt fleira praktískt." Á Hverfisgötunni kom Söngskólinn sér upp annexíu, Smáranum við Veghúsastíg, sem var tónleikasalur skólans. Smárinn var seldur eins og stærra húsið, en á Snorrabrautinni fær Söngskólinn nýjan sal. "Það er góður 150 manna salur nú þegar í húsnæðinu, en svo er þarna líka matsalur og eldhús og margt fleira sem er öðruvísi en á Hverfisgötunni. Nú er bara að flytja sálina af Hverfisgötunni upp á Snorrabraut, en ég hef engar áhyggjur af því að það takist ekki með því góða fólki sem er búið að vera með mér öll þessi ár og hefur búið til þessa góðu sál Söngskólans."