Sjómannadagurinn er í dag. Víða er honum fagnað, einkum í sjávarplássunum, en þó ekki alls staðar af jafn miklum krafti og á árum áður. Því miður. Sigurður Ægisson lítur hér til íslenskra sjómanna fyrr og nú, og tekur ofan fyrir þeim. Að sjálfsögðu.

ÞEGAR ég var í barnaskóla á Siglufirði, í tíu eða ellefu ára bekk, sem þá hét, var okkur einhverju sinni uppálagt að skrifa ritgerð um það, hvað við ætluðum að verða þegar við yrðum stór. Ég man að ég ætlaði að verða sjómaður. Afi minn hafði verið útvegsbóndi í Grímsey, faðir minn einnig verið sjómaður um tíma, og bræður mínir líka, á hinum ýmsu bátum og skipum. Ég var ákaflega stoltur af þeim. Og ég ætlaði sko ekki að verða eftirbátur þeirra.

Þetta var á þeim tíma, þegar aðalskip Siglfirðinga var Hafliði SI 2, gamli síðutogarinn. Þangað skyldi ég fara og vera.

En svo liðu árin. Maður hafði um annað að hugsa, og sjómennskan varð að bíða. Og einhvern veginn æxlaðist það svo, að ég fór aðra leið en ég hafði ákveðið forðum, þarna á harða stólnum í litlu kennslustofunni hjá Sigþóri kennara.

Allt þetta flaug um huga minn nú fyrir skemmstu, þegar ég var að hugleiða texta sjómannadagsins, um bátinn í öldurótinu. Inn í það blandaðist mynd af altaristöflu Siglufjarðarkirkju, verk Gunnlaugs Blöndal listmálara, þar sem Jesús gengur á vatninu, segjandi: "Það er ég, óttist eigi."

Fjölskylda mín var heppin. Alltaf komu þeir heim, afi minn, faðir og bræður, þótt litlu munaði stundum. Ekki hafa allir getað fagnað slíku láni í gegnum aldirnar, að heimta ástvinina lifandi úr greipum sjávarins, eftir dimm veður og ill. Margar eru þær fjölskyldur, sem eiga um sárt að binda eftir þau viðskipti, og hafa mátt sjá á eftir feðrum og börnum, án þess að hafa getað komið þeim til bjargar. En baráttan við náttúruöflin og harðneskju lífsins efldi mannkosti, þolgæði, kjark og dugnað þessa fólks - með hjálp trúarinnar á almættið, sem breiddi líkn og frið yfir hverja raun.

Vegna staðhátta á þessu harðbýla eylandi sem við byggjum, eigum við að mörgu leyti auðveldara með að setja okkur inn í frásögu Matteusarguðspjalls (8: 23-27) heldur en margar aðrar þjóðir. Við getum að nokkru leyti hermt eigin reynslu og umhverfi upp á hana, getum sett okkar hyrndu klettaborgir og fjöll í stað hæðanna í Galíleu í Palestínu, og firði okkar og djúp í stað Genesaretvatnsins. Og skip okkar í stað bátsins litla, sem lærisveinarnir velktust á. Og þá erum við nánast komin með þennan atburð hingað, yfir 2000 ára víðáttu í tíma.

Veðrið og hafið þarf ekki að túlka eða heimfæra. Þau hafa ávallt verið tákn fyrir allt hið villta og eyðandi, hið ótamda og óræða. Óskapnaðinn sjálfan. Þann hluta veraldarinnar, sem Guð setti lausar skorður, þegar hann bjó lífinu skilyrði á jörðunni. Vindur og haf voru á dögum Jesú, eins og í dag, utan þess, sem menn fá hamið. Þau voru samnefnari allra þeirra ógnarafla, er steðjuðu að mannheimi. Þess vegna er frásagan um björgunina sterkur vitnisburður til okkar um það, að við þurfum ekki að óttast, ef við trúum.

Orðin, sem Jesús sagði forðum við Matteus tollheimtumann og síðar guðspjallamann, voru ekki mörg, heldur einungis þrjú: "Fylg þú mér." En þessi orð voru áhrifarík. Og þau hrifu fleiri. Þar á meðal nokkra fiskimenn. Hann vildi fá þá í lið með sér, vildi hafa þá í áhöfn sinni. Þetta var fyrir margt löngu. Hvaða erindi skyldi hann eiga við íslenska sjómannastétt í dag? Á öld tækni og framfara, sem varla og ekki hefur rúm fyrir Guð? Vill hann nokkuð með sjómenn hafa að gera, deyjandi stétt, eða þeir hann?

Ég svara þessu hiklaust játandi. Að sjálfsögðu vill Kristur enn sem fyrr munstra þá á lífsskútuna, sem hefur inni að halda þriðjung allra jarðarbúa, alls um tvö þúsund milljónir einstaklinga, tvo milljarða. Og hann vill svo gjarnan fá þá í áhöfnina vegna þess, að hann veit, að í þeirra röðum á hann marga sína dyggustu liðsmenn, eins og fyrrum daga og alla tíð þaðan. Og auðvitað vill hann alla hina líka, okkur sem vinnum í landi eða annars staðar, en ég nefni sjómennina hér alveg sérstaklega vegna dagsins þeirra.

Eins og ég gat um hér í upphafi, varð lítið úr sjómannsdraumum mínum frá barnaskólaárunum. En ég hef alla tíð hugsað vel til sjómanna, litið upp til þeirra fyrir þau verk, sem þeir inna af hendi, oftast víðs fjarri heimahögum og ástvinum, langtímum saman. Og þeir munu halda áfram að eiga hug minn og bestu óskir, alla tíð.

Ef grannt er skoðað, er ég - eins og reyndar við öll, kristið fólk - þó ekkert annað en sjómaður, og þeir aftur bræður mínir og systur, ef athuguð er táknræn merking skútunnar, en hún er kirkjan, sem hið trausta fley okkar mannanna á siglingu um mislyndan veraldarsjóinn, til ákvörðunarstaðarins á himnum. Þetta er með elstu táknum kristinna manna, á sér rætur allt aftur til 2. aldar e.Kr. og jafnvel dýpra en það.

Til hamingju með daginn, sjómenn.

Þeir sem aldrei náðu til hafnar séu Guði vígðir um eilífð.

sigurdur.aegisson@kirkjan.is