GUÐJÓN Guðmundsson, varaformaður stjórnar Sementsverksmiðjunnar hf., segir að í athugun séu ýmsir möguleikar á að bregðast við lágu verði dönsku sementsverksmiðjunnar Aalborg-Portland. Hann vill þó ekki gefa upp hverjar þær eru.

GUÐJÓN Guðmundsson, varaformaður stjórnar Sementsverksmiðjunnar hf., segir að í athugun séu ýmsir möguleikar á að bregðast við lágu verði dönsku sementsverksmiðjunnar Aalborg-Portland. Hann vill þó ekki gefa upp hverjar þær eru. Guðjón segir augljóst að um undirboð sé að ræða hjá dönsku verksmiðjunni, í þeim tilgangi að knésetja Sementverksmiðjuna og leggja undir sig íslenska markaðinn.

Í Morgunblaðinu í gær kom fram að tonnið af lausu sementi kostaði 1.000 danskar krónur í Færeyjum í apríl. Nýverið féll úrskurður samkeppnisráðs vegna kæru Sementsverksmiðjunnar á hendur danska fyrirtækinu og var hann á þá leið að ekki væri tilefni til aðgerða. Sementsverksmiðjan hefur nú kært fyrirtækið til Eftirlitsstofnunar Efta (ESA) og stendur athugun á því máli yfir.

Erfitt að hefja starfsemi á ný

Aðspurður segir Guðjón að erfitt muni reynast að hefja aftur starfsemi ef danska fyrirtækið nær að bola Sementsverksmiðjunni af markaði og hækkar svo verð í skjóli þess. "En það er síður en svo möguleiki í okkar huga. Ásetningur okkar er að halda verksmiðjunni gangandi og berjast fyrir því. Ef svo illa færi myndi hún hins vegar ekki fara svo glatt í gang aftur," segir hann. Hann segir að framleiðsla Sementsverksmiðjunnar sé einhver sú alíslenskasta sem til sé. "Sandurinn er af hafsbotni, líparítið úr Hvalfirði, rafmagn frá íslenskum virkjunum og íslenskt vinnuafl. Við megum auðvitað ekki láta undan síga með það ætlunarverk okkar að halda verksmiðjunni gangandi," segir hann.

Beðið úrskurðar ESA

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að málið hafi farið sína lögbundnu leið í kerfinu. Kært hafi verið til samkeppnisráðs, sem hafi komist að fyrrnefndri niðurstöðu. Nú sé beðið úrskurðar frá ESA og hún geti á þessu stigi máls ekki gefið neinar yfirlýsingar.