Buckingham-höll. Mikið verður um dýrðir í nágrenni hallarinnar nú um helgina og setur tónleikahald svip á hátíðarhöldin. Búast má við að hundruð þúsunda gesta leggi leið sína þangað til að fagna 50 ára krýningarafmæli drottningarinnar.
Buckingham-höll. Mikið verður um dýrðir í nágrenni hallarinnar nú um helgina og setur tónleikahald svip á hátíðarhöldin. Búast má við að hundruð þúsunda gesta leggi leið sína þangað til að fagna 50 ára krýningarafmæli drottningarinnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bretar fagna nú um helgina því að 50 ár eru liðin frá því að Elísabet II var krýnd drottning, þá aðeins 26 ára gömul. En Elísabet er 40. þjóðhöfðinginn sem fer fyrir Englendingum frá dögum Vilhjálms bastarðs. Anna Sigríður Einarsdóttir stiklaði á stóru í sögu krúnunnar og komst að því að þótt breskir fjölmiðlar séu gjarnan gagnrýnir á konungsfjölskylduna nýtur hún enn óneitanlega mikillar hylli meðal almennings.

VILHJÁLMUR bastarður (1066-1087) hertogi af Normandí vann sigur í orrustunni við Hastings 1066 og var síðan Englandskonungur til dauðadags. Með sigri hans var stjórnartíð Saxa, sem byggðu England, að fullu lokið og í þeirra stað kominn afkomandi norrænna víkinga sem sest höfðu að í norðvesturhluta Frakklands.

Töluverð átök voru þó áfram um ensku krúnuna næstu aldir, eða allt þar til Tudor-ættin komst til valda undir lok 15. aldar. Hinrik VIII (1509-1547) og dætur hans Blóð-María (1553-1558) og Meydrottningin Elísabet I (1558-1603) eru Bretum enda einkar minnisstæðir þjóðhöfðingjar. Það var jú Hinrik VIII sem bar ábyrgð á siðaskiptum Englendinga og dóttir hans María I, strangtrúaður kaþólikki, sem ofsótti síðar mótmælendur og loks systir hennar Elísabet, gjarnan nefnd Meydrottningin, sem sat við stjórnvölin á þeim árum sem England varð leiðandi afl meðal nýlenduvelda Evrópu. Eftir lát Elísabetar, sem ekki skildi eftir sig neinn erfingja, sameinuðust Englendingar og Skotar síðan um einn þjóðhöfðingja, Jakob VI Skotlandskonung (1603-1625), sem varð við sameininguna Jakob I Englandskonungur árið 1603.

Töluverðar breytingar hafa óneitanlega orðið á konungsríkinu og hefðum þess á þeim 400 árum sem liðin eru frá sameiningunni. Það var til að mynda strax undir lok 17. aldar sem konungur tapaði framkvæmdavaldi sínu til þingheims, eftir að þingið setti Jakob II (1685-1688) af í kjölfar einræðistilburða hans og bauð þess í stað tengdasyni hans, Vilhjálmi af Óraníu (1689-1702), að taka við krúnunni árið 1688. En frá þeim tíma hefur krúnan heyrt undir breska þingið og valdahlutföllin sífellt færst þingheimi meira í vil, enda búa Bretar í dag við þingbundna konungsstjórn.

Saxe-Coburg-Gotha verður Windsor

Konungsfjölskyldan sem nú fer fyrir Bretum á rætur sínar að rekja til Þýskalands. Eftir að Anna drottning (1702-1714) lést barnlaus árið 1714, var leitað til Hannover eftir nánasta ættingja sem væri mótmælendatrúar og við krúnunni tók fjarskyldur ættingi, Georg I (17-14-1727), sem stjórnaði Englandi að mestu frá heimaslóðum sínum í Hannover. Sú breyting hafði nefnilega orðið á árið 1701 að þingheimur lögfesti að þjóðhöfðinginn yrði að vera mótmælendatrúar.

Það var hins vegar fyrir tilstilli Alberts prins, eigimanns Viktoríu drottningar (1837-1901), sem þýska ættarnafnið Saxe-Coburg-Gotha tengdist krúnunni. Ættarnafninu var þó ekki haldið lengi, heldur var því breytt í Windsor strax á dögum Georgs V (1910-1936), sem taldi þýska forfeður óheppileg tengsl í heimsstyrjöldinni fyrri.

Það var einmitt sonur hans, Eðvarð VIII, sem síðar afsalaði sér krúnunni við dauða föður síns til þess að giftast hinni bandarísku Wallace Simpson og í kjölfarið var faðir Elísabetar (1952-), Georg VI (1936-1952), krýndur. Georg hafði aldrei búist við, né óskað eftir, að verða konungur og vó ábyrgðin þungt. Hann var að eðlisfari taugaóstyrkur og óframfærinn og hafði lágt sjálfsmat auk þess sem hann stamaði. Eiginkona hans, Elizabeth Bowes-Lyon, betur þekkt sem drottningamóðirin heitin og einn af afkomendum Stuart-konunganna, átti svo sinn þátt í að konungur sigraðist á þessum erfiðleikum og er þeirra Georgs VI og Elísabetar helst minnst fyrir þátt sinn í heimsstyrjöldinni síðari. En konungshjónin dvöldu í Englandi öll styrjaldarárin, eyddu deginum í Buckingham-höll en óku síðan til Windsor-hallar er tók að kvölda til að forðast sprengjuárásir Þjóðverja.

Og þótt ekki séu allir á eitt sáttir um þátt konungshjónanna í stríðinu og sumir t.d. bent á að konungur hafi verið á sveif með þeim stjórnmálamönnum sem töldu réttast að semja við Hitler, vakti vera fjölskyldunnar í Bretlandi á stríðstímum engu að síður bæði aðdáun og virðingu almennings. Þau höfnuðu því enn fremur að flytja til Bandaríkjanna árið 1940 er innrás Þjóðverja var yfirvofandi. Drottningin sagði þá þessi fleygu orð, og endurtók nokkru sinnum síðar: "Börnin vilja ekki fara án mín, ég mun ekki fara án konungsins og konungurinn mun aldrei fara."

Með sigri Bandamanna jukust vinsældir konungsfjölskyldunnar síðan enn frekar og er Georg VI lést úr krabbameini árið 1952 og dóttir hans Elísabet II tók við völdum var sigurvíman enn slík að rætt var um Elísabetaröldina hina nýju og þar með vísað til farsællar stjórnartíðar Meydrottningarinnar.

Elísabetaröldin hin nýja

Elísabet II var aðeins 26 ára gömul er hún var krýnd í Westminister Abbey 2. júní 1952. Aðeins nokkrum árum áður, eða 1947, hafði hún gifst Filipusi prins, hertoga af Edinborg, og höfðu þau eignast börnin Karl, krónprins Breta, og Önnu er drottningin settist í hásæti. Síðar bættust við drengirnir Andrés og Eðvarð og varð Elísabet þar með eini þjóðhöfðingi Breta frá dögum Viktoríu drottningar sem átt hefur börn á meðan hún gegndi embætti.

Þau fimmtíu ár sem liðin eru frá krýningu Elísabetar hafa spannað tímabil mikilla og stundum róstusamra breytinga í Bretlandi. Árið 1952 var Breska heimsveldið til dæmis enn við lýði, enda Breska samveldið ekki stofnað fyrr en á árunum 1953-1966, ekki bjuggu nema rúm 30% Breta þá í eigin húsnæði og hefur þessi tala risið upp í 70% á tímabilinu, skilnaðir voru þá fimmfalt færri og konur einungis um þriðjungur vinnuafls í stað helmings nú. Lífslíkur voru líka átta árum skemmri og kolaframleiðsla og stáliðnaður ráðandi atvinnugreinar enda hátækniiðnaður nútímans ekki enn kominn til sögunnar. Einungis 35% ungmenna héldu þá áfram skólagöngu eftir að skyldunámi lauk í stað 70% nú og áhrifa sjónvarps- og netmiðla átti enn eftir að verða vart í þeim mikla mæli sem nú er.

Þótt þjóðfélagsbreytingarnar hafi verið miklar á tímabilinu þykir drottningin hafa sýnt af sér mikla festu. Staða hennar er að vísu ólík forverum hennar í embætti, fólki á borð við Hinrik VIII, Vilhjálm bastarð og Blóð-Maríu, enda hlutverk þjóðhöfðingjans í dag að stórum hlut táknrænt - hún er holdgervingur þjóðarímyndarinnar. Táknræn staða kemur þó ekki í veg fyrir að konungsfjölskyldan sé gagnrýnd af almenningi sem virðist almennt hafa nokkuð sterkar skoðanir á málefnum fjölskyldunnar. Er hjónaband Karls Bretaprins og lafði Díönu Spencer, sem í fyrstu hafði virst eins og klippt út úr ævintýrabókum, endaði með bitrum skilnaði og hjónabönd þeirra Önnu prinsessu og Andrésar brustu líka, töldu margir slíkt hafa neikvæð áhrif á ímynd krúnunnar þó dregið hafi úr gagnrýni á síðustu árum. Enn eimir þó af slíkum skoðunum, sem kemur hvað skýrast fram í viðhorfi almennings til ástkonu Karls prins, Camillu Parker-Bowles. Vikuritið Economist bendir þannig á að lengi vel hafi þótt óásættanlegt að erfingi krúnunnar giftist ástkonu sinni og þó Bretar hafi haft nokkur ár til að venjast tilhugsuninni bendi skoðanakannanir til þess að þriðjungur þeirra sé enn ósáttur við þá hugmynd. Láti prinsinn síðan verða af því að ganga í hnapphelduna að nýju eru fjórir fimmtu hlutar Breta ósáttir við að Camilla fái að titla sig sem drottningu. Sé hins vegar borinn upp sú hugmynd að afnema konungsveldið að fullu er einungis fimmtungur landsmanna því sammála.

Konungsfjölskyldan þykir líka, þrátt fyrir þá gagnrýni sem hún hlýtur, hafa sýnt af sér vilja til að fylgjast með tíðarandanum, líkt og ákvörðun drottningar um að greiða skatta hin síðari ár þykir vera til merkis um, sem og sú nýlunda að opna Buckingham-höll fyrir almenningi í nokkra mánuði á ári hverju til að drottning geti sjálf fjármagnað viðgerðir á Windsor-höll.

Viktoría drottning langlífust í embætti

Frá því Normanir báru sigur af Söxum í baráttunni um Hastings 1066 hafa einungis fjórir breskir kóngar og drottningar, utan Elísabetar, náð að sitja fimmtíu ár í hásæti. Viktoría drottning var 63 ár í embætti, Georg III 59 ár, Hinrik III 56 ár og Eðvarð III 50 ár. Jakob VI Skotakonungur var reyndar konungur Skota í 58 ár, en einungis konungur Englendinga frá 1603-1625.

Það má því búast við miklum hátíðarhöldum nú um helgina og er talið að hundruð þúsunda manna geri sér ferð til nágrennis Buckingham hallar ýmist til að fylgjast með tónleikadagskrá sem í boði verða í hallargarðinum 1. og 3. júní og sjónvarpað verður í nærliggjandi lystigörðum, eða til að fylgjast með skrúðgöngunni miklu 4. júní er drottningin heimsækir bæði St. Paul's dómkirkjuna, sem og Westminister Abbey.

Krýningarafmæli virðast líka eiga sér langa sögu, en þeim hefur verið fagnað allt frá tímum forn Egypta sem kröfust þessarar staðfestingar á heilsufari faraóanna, þótt hátíðarhöldin hafi efalítið verið með öðru sniði en nú. Sé hins vegar litið aftur til tíma Viktoríu drottningar, sem náði að fagna bæði 50 og 60 ára krýningarafmæli sínu, má sjá að þótt margt hafi breyst, virðist áhugi almennings vera samur við sig. En Viktoría er sú breskra kónga og drottninga sem hvað lengst hefur setið við völd, enda var hún krýnd aðeins 19 ára gömul. Hátíðarhöldin í tilefni af 50 ára krýningarafmæli hennar árið 1887 hófust þannig til að mynda með morgunverði við gröf hennar ástkæra Alberts prins við Frogmore-kastala, en að honum loknum hélt drottningin til Lundúna þar sem hún tók þátt í hátíðarverði með um 50 þjóðhöfðingjum Evrópu og ríkisstjórum bresku nýlendnanna. Daginn eftir fylgdi indverska riddaraliðið henni síðan til Westminster Abbey og líkt og bandaríski rithöfundurinn Mark Twain punktaði hjá sér þá teygðu fylkingar áhorfenda sig "allt að endimörkum sjónlínu til beggja átta". Eftir komuna til Buckingham var Viktoríu síðan fagnað af fjöldanum þar sem hún stóð á svölum hallarinnar.

Tíu árum síðar, er drottning fagnaði 60 árum í embætti, var hins vegar aðeins efnt var til stuttrar þakkargjörðarmessu við St. Paul's-dómkirkjuna. Viktoría var þá orðin svo hrum að hún gat ekki gengið upp tröppurnar að kirkjuskipinu og var messan því haldin fyrir utan kirkjuna. Að því loknu ók hún í opnum vagni um götur Lundúna á leið aftur til hallarinnar, en eftir ökuferðina skrifaði hún í dagbók sína: "Enginn hefur nokkru sinni, að ég held, mætt jafnmiklum fagnaðarlátum og biðu mín á þessum sex mílna vegakafla ... allt ætlaði um koll að keyra og hvert andlit virtist lýsa raunverulegum fögnuði. Ég var verulega hrærð og þakklát."

Ekki eru þó nema 25 ár liðin frá því að Bretar efndu síðast til hátíðarhalda í tilefni krýningarafmælis, en árið 1977 fögnuðu þeir 25 ára setu Elísabetar II í hásæti og var þá mikið um götuhátíðir og flugeldaveislur. Í ár eru hátíðarhöldin öllu formlegri, tónleika og hersýningar ber þar hæst þó minni viðburðir sem sveitarfélög, einstaklingar, stofnanir, félög og áhugahópar standi fyrir setji einnig svip á árið. Áhugi almennings á krýningarafmælinu hefur líka verið mun meiri en bjartsýnustu menn gerðu sér vonir um og eru skipulagðir viðburðir mun fleiri en var 1977.

Það virðist því nokkuð ljóst að Bretar eru upp til hópa ánægðir með drottningu sína og konungsfjölskylduna, líkt og tregi þeirra til að leggja konungsveldið niður bendir skýrlega til. Konungsfjölskyldan hefur enda mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn og er talið að henni beri að þakka milljónir punda í ferðamannatekjur á ári hverju. Stoltið nær þá líka dýpra hagsýninni, því ekki eru margir mánuðir frá því að eitt af bresku blöðunum birti lista yfir 100 ástæður þess að það er frábært að vera Breti og fyrir lát drottningarmóðurinnar var hún þar efst á blaði.

annaei@mbl.is