Ingibjörg Elfa Sigurðardóttir, veitingamaður á Kaffi Langbrók í Fljótshlíð.
Ingibjörg Elfa Sigurðardóttir, veitingamaður á Kaffi Langbrók í Fljótshlíð.
MIKIL gróska er í ferðaþjónustu í Rangárvallasýslu um þessar mundir, en á undanförnum misserum hafa nokkur ný fyrirtæki í þeim geira hafið starfsemi.

MIKIL gróska er í ferðaþjónustu í Rangárvallasýslu um þessar mundir, en á undanförnum misserum hafa nokkur ný fyrirtæki í þeim geira hafið starfsemi. Eitt þeirra er kaffihús sem risið er í miðri Fljótshlíð og kennir sig við ekki ófrægari sögupersónu Íslendingasagna en sjálfa Hallgerði langbrók. Hallgerður bjó ásamt manni sínum, Gunnari Hámundarsyni, eins og frægt er í Brennu-Njálssögu, á Hlíðarenda í sömu sveit.

Það eru hins vegar hjónin á Kirkjulæk, Ingibjörg Elfa Sigurðardóttir og Jón Ólafsson, sem almennt er talið að komi miklu betur saman en Hallgerði og Gunnari, sem ákváðu að láta gamlan draum frúarinnar rætast með því að opna kaffihús. Að sögn Ingibjargar fengu þau Úlfar Albertsson, byggingameistara á Hvolsvelli, til að reisa húsið sem stendur við Fljótshlíðarveg, um 9 kílómetra frá Hvolsvelli. "Á svæðinu er mikill fjöldi sumarbústaða og umferð ferðamanna sem gista í Hlíðinni eða eru að skoða þetta fornfræga hérað og sögustaði. Þá vonumst við til að sveitungarnir og aðrir boltaunnendur láti sjá sig, en við ætlum að vera með aðstöðu til að horfa á íþróttaleiki. Einnig er ætlunin að vera með netaðgang, en mörgum ferðamönnum finnst þægilegt að geta sest á kaffihús og sent tölvupóstinn sinn eða kíkt á Netið," sagði Ingibjörg. Á Kaffi Langbrók, sem skiptist í tvo sali og rúmar samtals um 50 manns, er að sjálfsögðu fáanlegt kaffi og kökur, en auk þess hefur staðurinn fullt vínveitingaleyfi. Ætlunin er að bjóða upp á myndlist með kaffinu, en á veggjum hússins er í gangi sölusýning á myndum Álfheiðar Ólafsdóttur, en þema þeirra er Njála.