KONRÁÐ Lúðvíksson læknir hefur varpað fram hugmyndum um markaðssetningu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja innan lands og utan.

KONRÁÐ Lúðvíksson læknir hefur varpað fram hugmyndum um markaðssetningu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja innan lands og utan.

Í fróðlegu viðtali við Konráð - sem hellti sér út í bæjarmálapólitíkina fyrir kosningarnar um síðustu helgi og var á lista sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ - í nýjasta tölublaði Víkurfrétta, er m.a. haft eftir Konráði að sérfræðiþjónusta á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafi getið sér gott orð og reglulega heyrist af einstaklingum utan svæðisins sem komi þangað til að sækja sér þjónustu.

Hann segir að fyrst þurfi að skapa umhverfi á stofnuninni en starfsumhverfi skurðstofunnar sé t.d. óviðunandi nú.

"Við viljum oft bera okkur saman við aðra. Akranes er ágætt dæmi. Þar hefur heilbrigðisþjónustan byggst upp mun markvissara. Þar hafa margir eldhugar starfað. Á meðan við vorum að kljást við óeiningu innan stofnunarinnar, ríkti þar tíðarandi sem ég finn fyrir að er að byggjast upp hér í dag. Akurnesingar eru ófeimnir að segja að þeir ætli að byggja bestu fæðingardeild á landinu. Þeir eru stoltir af skurðstofunum sínum. Þetta getum við líka gert," segir hann í viðtalinu og bætir við: "Þegar þessari uppbyggingu er lokið þá förum við út í umheiminn. Þá bjóðum við bandarískum þegnum að koma til Íslands og fá bót meina sinna. Það er ekkert sem hindrar okkur. Það eru óendanleg tækifæri í þessa átt. Við getum markaðssett okkur eins og Bláa lónið. Við erum samkeppnishæf en á lægra verði. Við fáum fleira menntað fólk hingað og mannauður mun aukast."

Í SAMA viðtali kemur fram að Konráð hefur komið með nýstárlegar hugmyndir er varða fæðingardeildina í Reykjanesbæ.

Í viðtalinu í Víkurfréttum, sem komu út síðastliðinn fimmtudag, er haft eftir honum:

"Útávið hefur fæðingardeildin verið það sem talað er um á sjúkrahússviðinu. Umönnun á sjúkradeild er hins vegar til mikillar fyrirmyndar en störfin þar eru unnin hljóðlátlega. Þau eru annars eðlis. Mikill sómi er af umönnun hjúkrunarfólks við lok lífs, enda ósjaldan sem því berst þakklæti fyrir."

Konráð upplýsir að fæðingar hafi flestar verið 306 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á einu ári en þeim hafi farið fækkandi undangengin ár. "Ég vil gjarnan sjá 350 til 400 fæðingar hér á ári. Það myndi skapa minni sveiflur, því fæðingastarfsemin er sveiflukennd. Við höfum jú ekki fengitíma! Við viljum stöðugleika og minni sveiflur. Sú hugmynd hefur komið fram að við ættum að markaðssetja deildina og horfum til Hafnarfjarðar. Við þurfum að skapa okkur orðstír þar og tengsl við Hafnarfjörð. Hvernig væri að bjóða hverjum Hafnfirðingi 10.000 kr. fyrir að fæða á Suðurnesjum? Eitt hundrað konur úr Hafnarfirði kosta eina milljón. Það er ekki neitt. Hvað fáum við í staðinn? Við fáum jákvætt umtal, ef vel tekst til. Margfeldisáhrifin eru mikil. Við erum ekki að gera Hafnfirðinga að féþúfu, heldur bjóða þjónustu af gleði. Markmiðið er að gera okkar stöðu sterkari."

Spennandi hugmyndir og gaman verður að sjá hvort einhverjar þeirra komast í framkvæmd.