Útivist hefur gefið út rit um Fimmvörðuháls eftir Sigurð Sigurðarson. Fimmvörðuháls er gönguleið frá Skógafossi í suðri, upp á hálsinn milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls og síðan aftur niður um nær eitt þúsund metra í Bása á Goðalandi.
Útivist hefur gefið út rit um Fimmvörðuháls eftir Sigurð Sigurðarson. Fimmvörðuháls er gönguleið frá Skógafossi í suðri, upp á hálsinn milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls og síðan aftur niður um nær eitt þúsund metra í Bása á Goðalandi. Þetta er ein vinsælasta gönguleið landsins og árlega ferðast þúsundir um hana, flestir að sumri en einnig að vetri til. Í fréttatilkynningu frá Útivist kemur fram að leiðinni upp á Hálsinn sé lýst ásamt þremur gönguleiðum niður af honum norðan megin. Getið er um nokkrar gönguleiðir á Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul. Sagt er frá örnefnum, birtar einstakar myndir, kort af svæðinu og minnislistar í ferðir svo eitthvað sé nefnt. Saga Fimmvörðuhálsskála Útivistar sem Fjallamenn reistu upphaflega árið 1940 er rakin og birtar eru myndir af endurbyggingu hans. Helgi Björnsson, jöklafræðingur, ritar um jarðfræði svæðisins og Árni Sigurðsson, veðurfræðingur, um veðurfarið.
*Bókin kostar kr. 2.400, en stendur félögum Útivistar til boða á 1.500 krónur. Hún er til sölu á skrifstofu Útivistar og í öllum helstu bókabúðum.