SAMKVÆMT alþjóðalögum er hernámsríki óheimilt að reka íbúa af hernumdum svæðum og einnig er hernámsríki óheimilt að nema land á slíkum svæðum. Í Palestínu hefur Ísraelsríki þverbrotið þessa lagabálka gróflega.

SAMKVÆMT alþjóðalögum er hernámsríki óheimilt að reka íbúa af hernumdum svæðum og einnig er hernámsríki óheimilt að nema land á slíkum svæðum. Í Palestínu hefur Ísraelsríki þverbrotið þessa lagabálka gróflega.

Í alþjóðalögum er skýrt kveðið á um að óbreyttir borgarar hafi fullan rétt til að berjast gegn erlendu hernámsliði. Mikilvægt er að ljáð sé máls á þessu vegna átakanna sem nú eru fyrir botni Miðjarðarhafs.

Hernám Ísraels í Palestínu hefur nú staðið í 35 ár. Síðan það hófst hafa Ísraelar notað hernumdu svæðin undir ólöglegar byggðir gyðinga.

Í Palestínu eru um 400 ólöglegar gyðingabyggðir og í þeim búa um 400.000 manns. Þessum byggðum fjölgar stöðugt þrátt fyrir gefin fyrirheit og margundirritaða samninga.

Útlit er fyrir að núverandi ríkisstjórn í Ísrael hafi í hyggju að halda þessu landráni áfram fremur en að hætta því. Efraim Sneh, samgönguráðherra Ísraels, hefur staðhæft að ef byggðunum fjölgi mikið meira muni það útiloka sjálfstætt ríki Palestínumanna. Sneh hefur þó fullyrt að hann sé andvígur frekari landvinningum.

Í skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International frá árinu 1999 um Ísrael og hernumdu svæðin kemur fram að Ísraelsher eyðilagði a.m.k 2.650 palestínsk heimili á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem það ár. Afleiðingar þess voru að 16.700 Palestínumenn misstu heimili þ.m.t 7.300 börn. Þessi níðingsverk voru framin löngu fyrir palestínsku uppreisnina gegn hernáminu og mánuðum áður en sjálfsmorðsárásir hófust í Ísrael.

Ísraelsk kona, Neta Golan að nafni, hefur búið í palestínsku borginni Ramallah í rúmt hálft ár. Hún fullyrðir að hernámið hafi skapað ógnina sem ísraelska þjóðin búi við nú. Hún segir að sjálfsmorðsárásir Palestínumanna hjálpi ekki málstað þeirra og séu fordæmanlegar. En bíðum við, segir hún, ef maður króar af kött út í horni og ræðst síðan á hann veit maður hvernig kötturinn bregst við.

Því miður eru þessi orð Netu Golan raunhæf lýsing á þeim átökum sem nú eru fyrir botni Miðjarðarhafs.

SIGURÐUR ÞÓRARINSSON, Selvogsgrunn 22, Reykjavík.

Frá Sigurði Þórarinssyni: