STOFNAÐUR hefur verið dómstóll Reykjavíkurbiskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar sem fjallar sérstaklega um mál er snerta véfengingu og ógildingu hjónabanda.

STOFNAÐUR hefur verið dómstóll Reykjavíkurbiskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar sem fjallar sérstaklega um mál er snerta véfengingu og ógildingu hjónabanda. Í nýjasta hefti Kaþólska kirkjublaðsins segir að til þessa hafi deilumál varðandi hjúskap verið lögð fyrir dómstól Óslóarbiskupsdæmis í Noregi og síðan fyrir dómstól erkibiskupsdæmis Westminster í Englandi. Þessi tilhögun hafi oft haft erfiðleika í för með sér vegna mismunandi tungumála sem hafi leitt til mikilla tafa á afgreiðslu mála.

Vegna þessa leitaði Reykjavíkurbiskup úrlausna á vandanum í samvinnu við Óslóarbiskup og páfastólinn. "Biskupinn í Münster, Þýskalandi, hefur lýst sig reiðubúinn til að "lána" honum "officialis" þrjá dómara, einn vígsluverjanda og einn lögbókanda sem allir hafa að baki reynslu og þekkingu á kirkjurétti og búa yfir tilsvarandi tungumálakunnáttu. Þetta fólk hefur biskup nefnt til þess að taka sæti í hinum nýstofnaða dómstóli Reykjavíkurbiskupsdæmis," segir í grein í blaðinu.

Annað dómstig kaþólsku kirkjunnar verður í höndum dómstóls Münster-biskupsdæmis með mismunandi dómendum. Segir að Reykjavíkurbiskup hafi tilnefnt úr hópi presta sinna verjanda hagsmuna kirkjunnar, "promotor iustitiae", rannsóknardómara og málflytjanda.

Þrjú dómstig kaþólsku kirkjunnar

Dómstóll biskupsdæmisins dæmir um gildi vígslna og hjónabanda. Fyrst eru málsaðilar yfirheyrðir og þau vitni sem koma til greina, að því er fram kemur í greininni. Það getur rannsóknardómari annast sem biskup tilnefnir. Biskup leggur málsaðilum og vitnum til málflytjanda. Gerðabók yfirheyrslunnar, svo og álitsgerðir vitna og sérfræðinga, eins og lækna og sálfræðinga ef ástæða er til, eru lagðar fyrir dómstól biskupsdæmisins. Hann rannsakar skjölin, spyr vígsluverjanda um álit hans. Ef nauðsynlegt er leggur hann frekari spurningar fyrir málsaðila og vitni og kveður svo upp dóm, samkvæmt meirihluta atkvæða sem ræður úrslitum.

Síðan eru öll málsskjölin send öðrum dómstóli biskupsdæmisins sem páfastóll hefur bent á til þess. Ef úrskurður annars dómstigs er á aðra leið en úrskurður dómstóls biskupsdæmisins skal leitað til þriðja dómstigs, sem í flestum tilfellum er æðsti dómstóll kirkjunnar, "Sacra Romana Rota". Úrskurði hans verður ekki áfrýjað.