[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hulda Sif Birgisdóttir lauk BA-prófi í frönsku frá Háskóla Íslands haustið 2000. Lokaverkefni hennar fjallaði um gildi samskipta við innfædda við nám í erlendu tungumáli.

ERLEND tungumál eru fólki misaðgengileg. Sumum finnst spennandi að takast á við nýtt mál, aðrir líta á tungumálanám sem illa nauðsyn sem erfitt er að sinna. Hulda Sif Birgisdóttir útskrifaðist úr frönsku við Háskóla Íslands haustið 2000, eftir nám í frönsku bæði hér heima og í Frakklandi. Lokaverkefni hennar fjallaði um hvernig erlent tungumál lærist í landi innfæddra, í beinu sambandi við þá. Á frönsku ber verkefnið heitið L'apprentissage d'une langue étrangère: le point de vue du non-natif dans la communication exolingue. Eins og heiti lokaverkefnisins ber með sér er hér um fræðilegt verkefni að ræða, þar sem Hulda Sif greinir hlutverk raunaðstæðna í tungumálanámi og þau forréttindi sem málhafi nýtur við að vera í samfélagi málsins sem hann er að læra og þær hindranir sem þarf að yfirstíga í því sambandi. "Ég lærði frönskuna bæði hér heima, í Menntaskólanum á Akureyri, og einnig í Frakklandi," segir Hulda Sif, "og tvímælalaust lærði ég mest af því að dvelja í Frakklandi við nám og störf, þótt grunnurinn sem ég hafði hafi nýst ákaflega vel."

Franskan er áskorun

Fyrstu kynni Huldu Sifjar af frönskunni voru um 15-16 ára aldur. "Ég las sögurnar um stúlkuna á bláa hjólinu eftir Deforges í íslenskri þýðingu þegar ég var í 10. bekk." Áhuginn á frönskunni lét á sér kræla, "og það fór í taugarnar á mér að vita ekki hvernig bera ætti fram staðaheiti og nöfn persóna. Ég hóf nám í frönsku veturinn eftir í menntaskólanum, og hef ég ekki sagt skilið við hana síðan." Hulda Sif segir frönskunámið hafa verið spennandi, en sig hafi langað til að kynnast málumhverfi frönskunnar, raunaðstæðunum, sem hún rannsakaði síðar þegar hún gerði lokaverkefnið.

"Frá upphafi hef ég litið á frönskuna sem áskorun. Hún er svo ólík íslensku - en það gerir hana einmitt svo spennandi. Þegar maður hefur gefið sér tíma til að læra málið vel opnast þetta hrognamál - eins og Íslendingar kalla frönsku oft - fyrir manni. Atriði eins og framburður og orðaforði lærast sérstaklega vel með dvöl í Frakklandi, og ég réð mig sem au pair veturinn eftir stúdentspróf. Það var mjög eftirminnileg reynsla, sérstaklega þar sem ég áttaði mig á hve lítið ég í raun kunni af daglegu máli eftir fjögurra ára nám. Eftir nokkurra mánaða dvöl í frönsku Ölpunum fór ég til Parísar og settist á skólabekk. Þá hafði ég náð mun betri tengslum við málsamfélagið og hafði tekið þónokkrum framförum í frönskunni. Þá varð ekki aftur snúið, ég hafði valið mér braut í námi sem mér leist vel á, og skráði mig í Háskóla Íslands um haustið."

Hulda Sif hefur lært frönsku á öllum sviðum, jafnt málfræðilega og bókmenntalega. Aðspurð segist hún hafa haft meiri áhuga á bókmenntum í upphafi en smám saman hafi áhuginn á málvísindum vaknað. "Ég var við nám í Montpellier í Suður-Frakklandi í tvö ár. Þar fann ég fljótt að ég hafði ekki orku til að tileinka mér af alvöru niðurnjörvaðar reglur og hefðir franskra bókmenntaritgerða, sem eru ansi ólíkar því sem við eigum að venjast á Íslandi. Þess í stað fór ég að skoða meira samskipti mín við Frakka og hvernig ég, sem útlendingur, nálgaðist málsamfélagið. Heillandi heimur félagslegu málvísindanna opnaðist mér. Þannig leiddist ég inn á braut lokaverkefnisins míns."

Tilurð lokaverkefnisins

"Þegar ég lærði frönsku hafði ég mjög gaman af því að fylgjast með ferlinu hjá sjálfri mér, framförum og stundum afturför. Lokaverkefnið spratt úr mínum eigin reynsluheimi, sérstaklega hvað varðar samskipti við Frakka, fremur en reynslu af skólabekk," segir Hulda Sif. Hún fór á námskeið í Montpellier um áhrif tungumáls, bæði hvernig tungumálið litast af lunderni málhafans og einnig af aðstöðunni sem hann er í. Fyrstu hugmyndir lokaverkefnis tengdust sálfræðilegum áhrifum tungumálanáms hjá fullorðnum einstaklingi, og í kjölfarið tók hún viðtöl við tíu erlenda samnemendur sína úr náminu í Montpellier. "Mér þótti mjög gaman að forvitnast um sýn annarra á sálfræðileg áhrif tungumálanámsins og lét rannsóknina fylgja lokaverkefninu.

Heimildaleitin reyndist vandasöm. "Ég leitaði mér heimilda um sálfræðileg áhrif tungumáls og tungumálanám í raunaðstæðum, en fann fátt bitastætt. Hins vegar fann ég mikið efni tengt kennslufræði frönsku, sem ég gat tengt hugmyndum mínum, og þannig þróaðist verkefnið í kennslufræðilega átt." Hins vegar tóku fræðirit í kennslufræði mið af námi í skólastofu frekar en sjálfsnámi meðal innfæddra. "Ég byggði þess vegna mikið af pælingum mínum á persónulegum grunni, sem ég studdi að sjálfsögðu þeim heimildum sem ég fann. Áherslan í mínu verkefni var á málskilninginn og málnotkun í raunaðstæðum, ekki hvernig þú lærir í skóla. Hins vegar tengdist skólanámið verkefninu að því leyti, að ég velti fyrir mér hvernig námið í skólanum nýtist viðkomandi þegar dagleg samskipti hefjast."

Samspil innfæddra og lærlingsins

Fyrstu mánuðirnir í frönsku Ölpunum voru Huldu Sif þjálfun fyrir eyru og huga. "Ég lagði lítið til málanna, hlustaði því meir og fylgdist með hvernig fólkið í kringum mig tjáði sig. Börnin sem ég gætti voru góðir kennarar, þau bentu á misfellur og illskiljanlega hluti í máli manns."

Meðan á náminu í Montpellier stóð kynntist Hulda Sif fjölda erlendra stúdenta. Þar þurfti að gæta þess að festast ekki í umræðuhópum á ensku, heldur rækta tengsl við frönskumælandi vinahópa einnig. Tengslin milli þess sem reynir til þrautar að læra nýtt tungumál og innfæddra skipta sköpum. "Þú verður að geta treyst á þá innfæddu sem þú umgengst. Þar áttu marga bestu kennarana, þá sem segja þér til og leiðrétta þig möglunarlaust," segir Hulda Sif, og minnist um leið lykilpersóna úr sinni eigin reynslu, og kemur um leið að öðrum hornsteini tungumálanámsins. "Það nægir ekki að læra vel allar beygingar og orðaforðann, heldur verður þú að kynnast samfélaginu sem tungumálið er sprottið úr, menningunni sem er samofin tungunni." Dvöl í landi tungumálsins er eðlilega nauðsynleg til náinna kynna á þessu sviði.

Að finna sjálfan sig í nýju málsamfélagi

Mörgum reynist erfitt að endurskilgreina stöðu sína í samfélaginu, líkt og þeir þurfa sem reyna að aðlagast nýju málsamfélagi. Hulda Sif skoðaði áhrif nýs tungumáls á sjálf fullorðins einstaklings. "Sjálf mannsins er orðið svo afmarkað á fullorðinsárum að það þarf kjark til þess að finna sig í nýjum aðstæðum. Þegar þú kemur inn í nýtt málsamfélag ertu á byrjunarreit, þú ert óöruggur vegna þess að þú átt í erfiðleikum með að tjá þig á mörgum sviðum, að vera þú sjálfur. Fullorðnum einstaklingi, sem er vanur að geta tjáð sig tiltölulega hömlulaust, bregður við að geta ekki grínast, ekki tjáð tilfinningar eða lýst skoðunum fullkomlega, og jafnvel ekki útskýrt vel hvað hann vinnur við. Samskipti við innfædda eru lykillinn að þjálfun á þessum sviðum, og með tíma og æfingu nærðu vonandi þeirri færni sem þarf til þess að geta lifað og hrærst í nýju málsamfélagi, án mikillar fyrirhafnar."

Á sama hátt þarf að læra á menninguna sem að baki býr. "Sá sem lærir erlent tungumál talar það alltaf á sínum eigin forsendum. Útkoman er menningarlega tengd móðurmálinu, en viðkomandi reynir að sjálfsögðu, ef viljinn er fyrir hendi, að nálgast erlenda málið frá öllum hliðum og nota til þess alla sína þekkingu. Smátt og smátt nálgast tungutak þess útlenda málvenju innfæddra."

Að hugsa á frönsku

Lokaverkefnið er að sjálfsögðu á frönsku. "Vinnan við lokaverkefnið, og sú hugsun sem ég hef lagt í það, er öll á frönsku," segir Hulda Sif, og viðurkennir að henni reynist örðugt að ræða mikið um verkefnið á íslensku. Heimildirnar voru á frönsku og hugmyndirnar spruttu upp úr frönsku samfélagi. "Fræðiheimur minn er á frönsku, og orðaforðinn á þessu sviði sömuleiðis. Ég lít á verkefnið úr fjarlægð þegar ég ræði um það á íslensku - sem er í raun öfugsnúið."

Aðspurð segist Hulda Sif sannarlega líta á tungumálið sem grunnþátt í lífinu. "Tungumálið er ný vídd, sem opnast fyrir þér þegar þú nærð tökum á málinu og kynnist um leið nýjum menningarheimi. Þú verður önnur manneskja með því að tjá þig á nýju máli. Þannig getur þú öðlast nýtt líf með öðru tungumáli vegna þess að þú þarft að breyta sjálfum þér, því tungumálið, hvernig maður tjáir sig, er svo stór hluti af hverjum og einum."

Framtíðin í kennslu

Hulda Sif er á leið til Montpellier í framhaldsnám núna í haust. Námið er þrjú ár og veitir henni kennsluréttindi á framhaldsskóla- og háskólastigi. "Ég skráði mig í nám í málvísindum og frönskukennslu fyrir útlendinga, það er að segja til þess að geta kennt útlendingum frönsku. Mér þótti liggja beint við að snúa á ný til Frakklands til náms, enda er ég sannfærð um gildi þess að dvelja sem mest í landi tungumálsins sem ég er að læra." Hún prófaði nokkur námskeið á sviði kennslufræðinnar í Montpellier þegar hún dvaldi þar áður og leist mjög vel á. "Ég á svo margt ólært ennþá. Tungumál er lifandi fyrirbæri sem mikilvægt er að missa ekki tengslin við. Þess vegna er ég mjög ánægð með að snúa aftur til Frakklands."